2.10.2017 09:39:00   -  Greinar

Þessi gein birtist í Fréttablaðinu í september 2017. 


Það verður að taka á þessu máli NÚNA

Talsvert er rætt um vanda sauðfjárbænda og kindakjötsframleiðslu í landinu. Hér er sagt frá stöðunni i Dalabyggð sem er ágæt mynd af stöðunni í landinu öllu. Eyjólfur Ingvi Bjarnason bóndi í Ásgarð í Dölum lét mig hafa minnisblað um sauðfjárrækt í Dölunum; hann sagði reyndar rá þessu í fréttum Stöðvar 2 áðan í viðtali við Kristján Má Unnarsson. Í minnisblaði hans segir meðal annars:
1. Boðuð er lækkun á afurðaverði til sauðfjárbænda í annað sinn á tveimur árum. Haustið 2015 var meðalafurðaverð til bænda ca. 600 kr á kílóið. Haustið 2016 lækkaði verð um 10% til bænda og var 543 kr kílóið. Haustið 2017 er enn gert ráð fyrir lækkun, nú 35% og þá verður verð til bænda 353 kr. kílóið.
2. Verðmæti innleggs í Dalabyggð haustið 2015 var 402 miljónir króna. Verðmæti innleggs í Dalabyggð haustið 2016 var 392,6 miljónir króna. Áætlað verðmæti innleggs í Dalabyggð haustið 2017 var 242 milljónir króna.
3. Áætluð tekjulækkun frá haustinu 2015 er því 160 milljónir króna í Dalabyggð. Þar eru um 6 % f allri kindakjötsframleiðslu í landinu.
4. Í haust vantar upp 240 kr á kíló til að bú standi á núlli og sá mismunur verður ekki sóttur með neinu öðru en að taka af þessum litlu launum sem bændur reikna sér eða með vinnu utan bús sem ekki er alltaf aðgengileg. Í fjárhagsgrundvelli sauðfjárbúskapar er gert ráð fyrir því að laun bóndans á mánuði séu 160 þúsund krónur. Þessi laun munu lækka við þær aðstæður sem hér blasa við.

Þessar tölur þýða það að sauðfjárbændur eru í raun tekjulausir. Þeir þurfa  að borga áburð, plast, olíu og önnur útgjöld af kaupinu sínu sem ekkert er. Bóndinn verður að sækja það sem á vantar til að búið standi á núlli í a) eigin fjárhag eða b) skuldasöfnun. Þessi staða kemur langverst niður á yngri bændum sem eru að jafnaði skuldugri en þeir sem eldri eru. Staðan er með öllu fráleit; fjárhagur þessa fólks stefnir í gjaldþrot.
     Það VERÐUR að taka á þessum málum af fullri alvöru hvað sem stjórnarfari í landinu líður.


 
Svavar Gestsson, ritstjóri


2.10.2017 09:38:00   -  Menning

William D. Valgardson varð kunningi okkar Guðrúnar í Manitoba um aldamótin. Hlýr, skarpur, fróður. Hann er einn sterkasti rithöfundur Kanada og hefur hlotið þar í landi og reyndar sunnan við línu líka, í Bandaríkjunum, fjölda verðlauna og viðurkenninga. Hann er fæddur 1939. Áður hefur komið út á íslensku Konan með Boticelli andlitið sem þau þýddu Gunnar Gunnarsson og Hildur Finnsdóttir; frábært og fallegt listaverk. Jafnaldri hans Bills Böðvar Guðmundsson skáld og rithöfundur hefur tekið sig til og þýtt nokkrar sögur og ævintýri eftir Bill eins og hann er oftast kallaður. Þýðingin er falleg, listaverk, og hann Bill er sannarlega heppinn að hafa fengið annan eins þýðanda til þess að koma þessum sögum á íslensku. Að hæla Böðvari fyrir íslensku er eins og að hæla páfanum fyrir kaþólsku. Bókin heitir Ævintýri og sögur frá Nýja Íslandi. Útgefandi er Sæmundur. Bókin er fallega út gefin og gerð á alla lund. Kærar þakkir.

Meira...

6.9.2017 10:47:00   -  Greinar

Þessi inngangsorð um Kristin Sveinsson föðurbróður minn birtust í Morgunblaðinu í dag á undan fjölda góðra minningargreina: „Kristinn Sveinsson, húsasmíðameistari, fæddist í Dagverðarnesseli, Klofningshreppi, Fellsströnd í Dalasýslu 17. október 1924. Hann lést á Landspítalanum 23. ágúst 2107. Foreldrar hans voru Sveinn Hallgrímsson, f. 17.9. 1896, d. 26.11. 1936, bóndi frá Túngarði á Fellsströnd, og Salóme Kristjánsdóttir, f. 10.3. 1891, d. 29.7. 1973, húsfreyja frá Breiðabólsstað á Fellsströnd. Þeim hjónum varð tíu barna auðið: Ingunn, f. 1918, d. 2008. Friðgeir, f. 1919, d. 1952, Gestur Zophonías, f. 1920, d. 1980, Sigurjón, f. 1922, d. 1994, Kristinn, Jófríður Halldóra, f. 1926, Ólöf Þórunn, f. 1929, d. 1998, Baldur, f. 1931, d. 2013, Steinar, f. 1932, d. 1981, og Kristján, f. 1934. Jófríður Halldóra og Kristján lifa systkini sín.

Meira...

Hugmynd

Síðan Hugmynd hefur birt flest skrif mín frá árinu 2010. Þangað verður einnig safnað eldri skrifum. Þá verður oft vísað til skrifa annarra. Ekki verður skrifað reglulega á síðu þessa heldur af og til eftir aðstæðum höfundar.-  Ég gaf út heimasíðuna Hugmynd á árunum 1998 – 1999 en og hér gengur hún til móts við nýja framtíð. 

Svavar Gestsson

Bókaskrif

Á þessar síður set ég greinar sem ég skrifa í blöð. Vísa einnig á fésbók þar sem ég set af og til inn einhverjar athugasemdir.

 

Breiðfirðingur 2017 - kominn út

 

Tímaritið Breiðfirðingur 2017 er kominn út. Efnið er fjölbreytt. Þó má segja að ritið eigi sér aðallega einn samnefnara að þessu sinni sem er Kirkjufellið. Forsíðan er mynd af Kirkjufellinu, en Haukur Már Haraldsson tók myndina. Haukur er reyndar umbrotsmaður ritsins. Pétur Ástvaldsson er yfirlesari ritsins. Ritið er gfið út af Breiðfirðingafélaginu.Formaður þess er Ingibjörg Guðmundsdóttir frá Magnússkógum Dalabyggð.

Meðal efnis:

Dularfull örnefni í Dölum. Stórskemmtileg og fróðleik grein eftir Árna Björnsson.
Jarðhiti í Vestur-Barðastrandarsýslu eftir jarðfræðinginn Hauk Jóhannesson.
Gengið á Kirkjufellið. Frásögn eftir Bjarna E. Guðleifsson
Viðtöl og myndir úr Grundarfirði.
Þrjár járnbrautir á Skarðsströnd eftir Sigurð Þórólfsson
Kollótt fé er frá Kleifum eftir Jón Viðar Jónmundsson
Haraldína Haraldsdóttir - grein eftir Svavar Gestsson um konu sem ólst upp á Hellissandi og í Eyrarsveit, var 20 ár í Dölunum, svo aftur í Eyrarsveit og loks á Hellissandi.

Fjöldi auglýsinga er í ritinu frá styrktaraðilum okkar.

 

Forsíða Breiðfirðings 2017