15.5.2018 09:14:00   -  Greinar

Guðjón Sveinbjörnsson útlitshönnuður Þjóðviljans er dáinn; lést tæplega níræður á dögunum. Hann verður jarðsettur föstudaginn 18.maí kl.13. Útförin verður gerð frá Áskirkju. Kona Guðjóns Símonía Kristín Helgadóttir lifir mann sinn. Þau gengu í hjónaband 19. september 1953.Guðjón hét millinafninu Snókdalín og fæddist 7. des. 1928 í Stykkishólmi. Þau Símonía og Guðjón áttu þrjú börn, þau eru: Jóhanna Sigríður, Sveinbjörn og Ingibjörg Hulda. Ég skrifaði um Guðjón eftirfarandi minningarorð sem birtast í Morgunblaðinu á útfarardaginn.  

Meira...

18.2.2018 21:31:00   -  Greinar

     Það er ekki heiglum hent að skrifa um hann Þorstein frá Hamri. Reyndar er flóð greina birt í Morgunblaðinu í dag um þennan öðling. Flestar minningargreinar eru líka aðallega um höfund greinarinnar og viðkomandi, sem er dáinn, fær að fljóta með næstum eins og í kurteisisskyni. Þessar línur verða líka svoleiðis; Þorsteini hefði ekki þótt gaman að lesa þetta; hann var þó alltaf umburðarlyndur við rittilraunir unglinga hér áður.

Meira...

14.11.2017 08:03:00   -  Greinar

Bókin Classen – saga fjármálamanns er afhjúpandi. Hún galopnar inn í kjör auðstéttarinnar á Íslandi á fyrsta þriðjungi síðustu aldar.  Lífskjörin eru ævintýraleg og Guðmundi Magnússyni tekst að lýsa þeim skilmerkilega í þessari bók. Guðmundur tók við því verki af Guðna Th Jóhannessyni að vinna úr skjalasafni því sem Eggert lét eftir sig; það var „í sérflokki hvað snerti umhirðu og reglusemi“ segir Hrafn Sveinbjarnarson sem hefur tekið við fjölda skjalasafna. Þetta safn verður uppspretta fyrir Guðmund sem skrifar þetta allt á fróðlegan og greiðan hátt. En umfram allt er bókin afhjúpandi; hún flettir ofan af lífskjörum þessa fólks, sem ég, enda úr sveit, bragga og blokk, hafði aldrei hugmyndaflug til þess að nokkurt fólk hefði getað lifað á Íslandi. Ef einhver hefði sagt mér af svona kjörum hefði ég sagt að frásagnarmaður væri að ljúga að mér. Guðmundur hlífir ekki söguhetju sinni; dettur að vísu sjálfur ofan í pólitískan pytt á nokkrum stöðum, en kemst upp úr aftur, þurrkar af gúmmístígvélunum, og bókin verður trúverðug. Pólitísk aðdáun hans á Eggerti Claessen og öllu sem var í kringum hann leynir sér þó ekki. 

Meira...

Hugmynd

Síðan Hugmynd hefur birt flest skrif mín frá árinu 2010. Þangað verður einnig safnað eldri skrifum. Þá verður oft vísað til skrifa annarra. Ekki verður skrifað reglulega á síðu þessa heldur af og til eftir aðstæðum höfundar.-  Ég gaf út heimasíðuna Hugmynd á árunum 1998 – 1999 en og hér gengur hún til móts við nýja framtíð. 

Svavar Gestsson

Bókaskrif

Á þessar síður set ég greinar sem ég skrifa í blöð. Vísa einnig á fésbók þar sem ég set af og til inn einhverjar athugasemdir.

 

Breiðfirðingur 2018 kominn út

Breiðfirðingur 2018 er kominn út. Þetta er fjórða árið undir minni ritstjórn en nánustu samverkamenn mínir eru þeir Haukur Már Haraldsson sem er umbrotsmaður og ljósmyndari og Pétur Ástvaldsson sem er yfirlesari, eiginlega háyfirlesari, les allt. Forsíðan er að þessu sinni mynd af tröllkarli og kerlingu að kyssast. Myndina tók Þorvaldur Björnsson sem taldi fyrir okkur eyjarnar á Breiðafirði um árið. Meðal efnis í ritinu er:
     Birna Lárusdóttir, Elín Ósk Hreiðarsdóttir, Emily Lethbridge og Guðrún Gísladóttir skrifa um fornminjaskráningu á Staðarhóli í Saurbæ þar sem bjó á þrettándu öld sagnaritarinn mikli Sturla Þórðarson. Árni Björnsson skrifar um huldubyggðir við Breiðafjörð. Þá birtir Breiðfirðingur stórskemmtielga grein eftir Ægi Jóhannsson um Vestur-Íslending sem fór ungur úr Breiðafirðingum: Leitin að Halla frænda heitir greinin.
Í ritinu er önnur grein Hauks Jóhannessonar verkfræðings um jarðhita við Breiðafjörð. Að þessu sinni fjallar hann um jarðhita á Snæfellsnesi en í fyrra skrifaði hann um jarðhita í Vestur-Barðastrandarsýslu. Þá skrifar Kristbjörn Árnason ljómandi grein um foreldra sína, forfeður og formæður. Undirritaður skrifar svo litla afmælisgein um Jón Jónsson frá Ljárskógum.
   Breiðfirðingur er að þessu sinni 150 síður. Ritið kostar 2000 kr. Ódýr bók! Í tölvupóstfanginu bf@bf.is má gerast áskrifandi eða panta ritið.

 

 

Forsíða Breiðfirðings 2018