Greinar

2. október 2017 09:39

Stefnir í upplausn í sveitum landsins

Þessi gein birtist í Fréttablaðinu í september 2017. 


Það verður að taka á þessu máli NÚNA

Talsvert er rætt um vanda sauðfjárbænda og kindakjötsframleiðslu í landinu. Hér er sagt frá stöðunni i Dalabyggð sem er ágæt mynd af stöðunni í landinu öllu. Eyjólfur Ingvi Bjarnason bóndi í Ásgarð í Dölum lét mig hafa minnisblað um sauðfjárrækt í Dölunum; hann sagði reyndar rá þessu í fréttum Stöðvar 2 áðan í viðtali við Kristján Má Unnarsson. Í minnisblaði hans segir meðal annars:
1. Boðuð er lækkun á afurðaverði til sauðfjárbænda í annað sinn á tveimur árum. Haustið 2015 var meðalafurðaverð til bænda ca. 600 kr á kílóið. Haustið 2016 lækkaði verð um 10% til bænda og var 543 kr kílóið. Haustið 2017 er enn gert ráð fyrir lækkun, nú 35% og þá verður verð til bænda 353 kr. kílóið.
2. Verðmæti innleggs í Dalabyggð haustið 2015 var 402 miljónir króna. Verðmæti innleggs í Dalabyggð haustið 2016 var 392,6 miljónir króna. Áætlað verðmæti innleggs í Dalabyggð haustið 2017 var 242 milljónir króna.
3. Áætluð tekjulækkun frá haustinu 2015 er því 160 milljónir króna í Dalabyggð. Þar eru um 6 % f allri kindakjötsframleiðslu í landinu.
4. Í haust vantar upp 240 kr á kíló til að bú standi á núlli og sá mismunur verður ekki sóttur með neinu öðru en að taka af þessum litlu launum sem bændur reikna sér eða með vinnu utan bús sem ekki er alltaf aðgengileg. Í fjárhagsgrundvelli sauðfjárbúskapar er gert ráð fyrir því að laun bóndans á mánuði séu 160 þúsund krónur. Þessi laun munu lækka við þær aðstæður sem hér blasa við.

Þessar tölur þýða það að sauðfjárbændur eru í raun tekjulausir. Þeir þurfa  að borga áburð, plast, olíu og önnur útgjöld af kaupinu sínu sem ekkert er. Bóndinn verður að sækja það sem á vantar til að búið standi á núlli í a) eigin fjárhag eða b) skuldasöfnun. Þessi staða kemur langverst niður á yngri bændum sem eru að jafnaði skuldugri en þeir sem eldri eru. Staðan er með öllu fráleit; fjárhagur þessa fólks stefnir í gjaldþrot.
     Það VERÐUR að taka á þessum málum af fullri alvöru hvað sem stjórnarfari í landinu líður.


 
Svavar Gestsson, ritstjóri

Lesa meira
6. september 2017 10:47

Hans kynslóð breytti Íslandi meira en allar aðrar kynslóðir

Þessi inngangsorð um Kristin Sveinsson föðurbróður minn birtust í Morgunblaðinu í dag á undan fjölda góðra minningargreina: „Kristinn Sveinsson, húsasmíðameistari, fæddist í Dagverðarnesseli, Klofningshreppi, Fellsströnd í Dalasýslu 17. október 1924. Hann lést á Landspítalanum 23. ágúst 2107. Foreldrar hans voru Sveinn Hallgrímsson, f. 17.9. 1896, d. 26.11. 1936, bóndi frá Túngarði á Fellsströnd, og Salóme Kristjánsdóttir, f. 10.3. 1891, d. 29.7. 1973, húsfreyja frá Breiðabólsstað á Fellsströnd. Þeim hjónum varð tíu barna auðið: Ingunn, f. 1918, d. 2008. Friðgeir, f. 1919, d. 1952, Gestur Zophonías, f. 1920, d. 1980, Sigurjón, f. 1922, d. 1994, Kristinn, Jófríður Halldóra, f. 1926, Ólöf Þórunn, f. 1929, d. 1998, Baldur, f. 1931, d. 2013, Steinar, f. 1932, d. 1981, og Kristján, f. 1934. Jófríður Halldóra og Kristján lifa systkini sín.

Lesa meira
29. desember 2016 03:33

Við erum þakklát fyrir ömmu Dúnu

Svandís Svavarsdóttir skrifaði eftirfarandi minningargrein um móður mína, ömmu sína, Guðrúnu Valdimarsdóttur. Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. desember síðastliðinn á útfarardaginn. Með þessari grein eru allar greinar um mömmu sem birtust á útfarardaginn komnar á svavar.is.
Lesa meira
22. desember 2016 10:00

Það er svo gaman að vera saman

 

Þessa minningargrein skrifað Guðrún Ágústsdóttir um mömmu mína en greinin birtist í Morgunblaðinu á útfarardaginn 22. desember 2016.

 

Mikið var hún Guðrún Valdimarsdóttir, eða Dúna skemmtileg kona og klár. „Hún Dúna er alltaf svo glöð” sögðu samferðarmenn hennar og það var svo sannarlega satt. Lífið hafði upp á svo margt skemmtilegra að bjóða en þá erfiðleika, sem stundum mættu henni á lífsleiðinni. Eins og t.d. að dansa og syngja. Ég man fyrst þegar ég sá syni hennar þá tvo eldri sveifla henni um gólfið í Breiðfirðingabúð. Þá var eins og fæturnir á henni snertu ekki gólfið. Það var fjör. Og alltaf var sungið –  enda var Dúna oftast í kór.

     En lífið hjá henni Dúnu var ekki bara dans á rósum. Hún og Gestur hófu búskap 1944 með elsta drenginn sinn í nýlegu steinhúsi sem Gestur hafði byggt yfir þau og fósturforeldra sína í Stóra-Galtardal.  Húsið var kalt – öfugt við torfbæinn sem flutt var úr og drengurinn á fyrsta ári með kíghósta. Eftir tvo vetur þar ákvað hún að heimsækja foreldra sína í Borgarfjörðinn og kom ekki aftur fyrr en nokkrum árum seinna.

Lesa meira
22. desember 2016 09:03

Lífshlaup

Móðir mín Guðrún Valdimarsdóttir var jarðsett í dag. Af því tilefni birtust þrír pistlar í Morgunblaðinu. Hér er sá fyrsti, stutt yfirlit um lífshlaup hennar.

 

Lesa meira
1. nóvember 2016 08:52

Jónsteinn - kveðjuorð

Sá góði félagi Jónsteinn Haraldsson var kvaddur frá Áskirkju á mánudaginn. Hann var með í baráttunni allt til hinstu stundar. Var í heiðurssæti á lista Vinstri grænna í Reykjavík við kosningarnar um síðustu helgi. Hér birtist greinarkorn um Jónstein sem kemur í Morgunblaðinu í dag, þriðjudag, eða einhvern næstu daga.

 

Lesa meira
30. október 2015 02:16

Fáein kveðjuorð um Guðbjart Hannesson

Guðbjartur Hannesson var flokksfélagi í Alþýðubandalaginu eins lengi og ég man eftir mér. Hann var hluti þeirrar nýju kynslóðar sem spratt fram á tíma Jónasar og Bjarnfríðar. Þar sem voru í fyrirsvari kappar eins og Engilbert og Ingunn og margir margir fleiri. Þar var Jóhann Ársælsson. Hvað ætli við Gutti höfum átt marga fundi í Rein sem félagarnir á Skaga á undan þeim höfðu byggt og lagt af stað með í tíð Inga R. Helgasonar? Þá var gaman að vera til. Svo varð Guðbjartur einn af leiðtogum Alþýðubandalagsins á Akranesi og á Vesturlandi, varð bæjarfulltrúi okkar frá 1986 til 1998. Þegar ég varð menntamálaráðherra 1988 kynntist ég viðhorfum starfsmanna ráðuneytisins til skólanna, líka grunnskólanna því þeir heyrðu þá undir ráðuneytið. Þá kom í ljós sem kom mér ekki á óvart að Guðbjartur naut mikils álits, trúnaðar og hylli umfram marga aðra skólamenn. Þegar ráðherrann spurði:Hverjir eru bestir þá drógu grandvarir embættismenn við sig svörin en svo kom í ljós að Guttaskólinn á Skaga var einn sá besti í landinu.

Lesa meira
21. júlí 2015 08:15

Guðmundur Bjarnason

Guðmundur Bjarnason og Smári Geirsson voru lengi leiðtogar Alþýðubandalagsins í Neskaupstað ásamt Hjörleifi Guttormssyni; þeir héldu merkinu á lofti sem þeir höfðu hafið til skýjanna Bjarni Þórðarson, Jóhannes Stefánsson og Lúðvík Jósepsson. Alþýðubandalagið og þar áður Sósíalistaflokkurinn höfðu meirihluta í Neskaupstað í hálfa öld. Neskaupstaður var stolt okkar félaganna um allt land. Minn forystutíma í Alþýðubandalaginu í 21 ár hafði ég það fyrir reglu að heimsækja Neskaupstað til að tala við félagana um fyrirtækið og fólkið, til að læra og til að vera með í sköpun þróun og endurnýjun. Við Guðmundur Bjarnason hittumst ótal sinnum á þessum árum; vissum vel hvor af öðrum og virtum verk hvors annars. Guðmundur hafði ekki einasta ákveðna pólitíska sýn; hann var skemmtilegur og fyndinn og sá skoplega hliðar tilverunnar. Þorrablót Alþýðubandalagsins í Neskaupstað eru enn í fullu fjöri. Þar áttum við margt sporið og ég varð þess heiðurs aðnjótandi að koma þar til ræðuhalda. Það var gaman. Guðmundur var þrátt fyrir knöpp efni ungur maður einn þeirra fjölmörgu í Neskaupstað sem lögðu fram hlutafé í  nýja Þjóðviljahúsið að Síðumúla 6. Hann var alltaf með. Átök í Alþýðubandalaginu eftir minn formannstíma settu merki sitt á okkur öll, en þau snerust ekki um aðalatriðin. Eftir að ég kom aftur til verka eftir nokkra fjarveru kom það í minn hlut að skrifa um Lúðvík Jósepsson fyrir tímaritið Andvara. Og hvert leitaði ég þá nema til Guðmundar og Smára eins og ekkert hefði í skorist og tíminn hefði staðið kyrr? Þeir voru ennþá í hausnum á mér eins og þeir voru forðum. Traustir talsmenn byggðarlagsins og sögu þess, öruggir liðsmenn þeirra hugsjóna um betra samfélag sem við eignuðumst allir ungir. Guðmundur veitti mér stuðning í þessum skrifum, ræddi við mig löngum og þeir félagar útveguðu mér ómetanleg gögn. Guðmundur var eins og áður hjálparhella og félagi; ég vissi að hann var veikur orðinn, en sögur hans voru óborganlegar og hjálpsemi sem fyrr. Ég er þakklátur fyrir kynni mín af Guðmundi Bjarnasyni, þakklátur fyrir þau störf sem við unnum saman fyrir hreyfinguna og góðan málstað. Við Guðrún sendum með þessum línum Klöru og fjölskyldu þeirra Guðmundar samúðarkveðjur á örlagastund.  

Lesa meira