Greinar

Greinar

18. desember 2018 11:26

Eins og háu ljósin

Um bókina Kaupthinking- bankinn sem átti sig sjálfur. Höfundur Þórður Snær Júlíusson. Útgefandi Veröld.

Þessa dagana er mikið talað um WOW air flugfélagið. Það er margt líkt með því og brjáluðum vexti bankanna fyrir hrun. Ekkert eftirlitsvald sem hefur eftirlit með flugrekstri er til hér á landi. Það minnir á það sama og gerðist í bönkunum; samfélagið notaði ekki þau fáu tæki sem það hafði til að setja þenslu bankanna skorður. Það var búið að henda öllum tækjum frá okkur, sagði Jón Sigurðsson fyrrverandi Seðlabankastjóri, í samtali við mig í sjónvarpsþætti á Hringbraut fyrir nokkrum misserum.

Lesa meira
30. nóvember 2018 01:03

Skúlaöldin

Þórunn Jarla Valdimarsdóttir: Skúli fógeti. Útgefandi JPV útgáfa. 

Það er magnað hvað átjánda öldin sækir á. Einlægt verið að skrifa eitthvað forvitnilegt og oft gefin út mikil rit um þennan tíma svakalegra náttúruhamfara og stundum niðurlægingar. Skýrslur landsnefndarinnar sem var hér á árunum 1770-1771 eru stórmerk heimild og afreksverk þeirra sem skrifuðu og svo hennar Hrefnu Róbertsdóttur fyrir að koma ritinu út. Umhugsunarvert er að danski landssjóðurinn skuli hafa lagt í allan þennan kostnað út af Íslandi. Af hverju? Ekki einfaldast málið þegar við hugsum um Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns. Þar er að finna yfirlit yfir bújarðir og afkomu Íslendinga furðulega nákvæmt að ég segi ekki smámunasamt á köflum. Jarðabókin var unnin á tólf árum 1702-1704. En í nákvæmni sinni voru þeir ekki bara að sinna því sem þeim fannst sjálfum áhugavert. Skipunarbréfið var þrjátíu greinar og allt tínt til; þar átti líka að skoða hvort of miklar kvaðir hefðu verið lagðar á bændur. Friðrik fjórði var ekkert blávatn. Í bók Þórunnar Jörlu Valdimarsdóttur, Skúli fógeti, sem kom út nú á jólavertíðinni, sést einkar vel það sem við höfðum hugmynd um fyrir að dönsk yfirvöld létu sér ekki nægja að láta skrifa skýrslur og taka manntöl sem var þó út af fyrir sig ærið verkefni. Þau létu einnig stórfé til uppbyggingar atvinnnu- og efnahagslífi á Íslandi og til að byggja höll í Viðey. Þessari öld lauk með móðuharðindunum og djöfulskap. Þá datt einhverjum í hug að best væri fyrir fólkið á þessari eyju að fara til Danmerkur og búa þar, á Jótlandsheiðum. Eðlileg hugmynd. Öll þessi saga átjándu aldarinnar um samskipti Íslands og Danmerkur vekur margar margar spurningar. Til dæmis þessa: Af hverju höfðu dönsk stjórnvöld svo mikinn áhuga á Íslandi? Hefur því einhvers staðar verið svarað? Ég bara spyr. Væri gaman að sjá innyflin í danska embættismannakerfinu frá þessari tíð.

Lesa meira
15. maí 2018 09:14

Guðjón Sveinbjörnsson - minning

Guðjón Sveinbjörnsson útlitshönnuður Þjóðviljans er dáinn; lést tæplega níræður á dögunum. Hann verður jarðsettur föstudaginn 18.maí kl.13. Útförin verður gerð frá Áskirkju. Kona Guðjóns Símonía Kristín Helgadóttir lifir mann sinn. Þau gengu í hjónaband 19. september 1953.Guðjón hét millinafninu Snókdalín og fæddist 7. des. 1928 í Stykkishólmi. Þau Símonía og Guðjón áttu þrjú börn, þau eru: Jóhanna Sigríður, Sveinbjörn og Ingibjörg Hulda. Ég skrifaði um Guðjón eftirfarandi minningarorð sem birtast í Morgunblaðinu á útfarardaginn.  

Lesa meira
18. febrúar 2018 09:31

Þorsteinn frá Hamri

     Það er ekki heiglum hent að skrifa um hann Þorstein frá Hamri. Reyndar er flóð greina birt í Morgunblaðinu í dag um þennan öðling. Flestar minningargreinar eru líka aðallega um höfund greinarinnar og viðkomandi, sem er dáinn, fær að fljóta með næstum eins og í kurteisisskyni. Þessar línur verða líka svoleiðis; Þorsteini hefði ekki þótt gaman að lesa þetta; hann var þó alltaf umburðarlyndur við rittilraunir unglinga hér áður.

Lesa meira
14. nóvember 2017 08:03

Public enemy number one

Bókin Classen – saga fjármálamanns er afhjúpandi. Hún galopnar inn í kjör auðstéttarinnar á Íslandi á fyrsta þriðjungi síðustu aldar.  Lífskjörin eru ævintýraleg og Guðmundi Magnússyni tekst að lýsa þeim skilmerkilega í þessari bók. Guðmundur tók við því verki af Guðna Th Jóhannessyni að vinna úr skjalasafni því sem Eggert lét eftir sig; það var „í sérflokki hvað snerti umhirðu og reglusemi“ segir Hrafn Sveinbjarnarson sem hefur tekið við fjölda skjalasafna. Þetta safn verður uppspretta fyrir Guðmund sem skrifar þetta allt á fróðlegan og greiðan hátt. En umfram allt er bókin afhjúpandi; hún flettir ofan af lífskjörum þessa fólks, sem ég, enda úr sveit, bragga og blokk, hafði aldrei hugmyndaflug til þess að nokkurt fólk hefði getað lifað á Íslandi. Ef einhver hefði sagt mér af svona kjörum hefði ég sagt að frásagnarmaður væri að ljúga að mér. Guðmundur hlífir ekki söguhetju sinni; dettur að vísu sjálfur ofan í pólitískan pytt á nokkrum stöðum, en kemst upp úr aftur, þurrkar af gúmmístígvélunum, og bókin verður trúverðug. Pólitísk aðdáun hans á Eggerti Claessen og öllu sem var í kringum hann leynir sér þó ekki. 

Lesa meira
27. október 2017 12:06

Fasískt ógeðslegt samfélag

Hver sá maður er heppinn sem fær hana Silju til að skrifa með sér heila bók, ég tala nú ekki um þegar bókin er um mann sjálfan. Og svo hefur hún yfirlesara sem er kanski sá besti á Íslandi, Gunnar Karlsson, þegar kemur að sagnfræði og þekkingu á öldinni sem leið og fleiri öldum og svona vel fram eftir þessari.  Bókin er skemmtileg, vel skrifuð og fróðleg, allt í senn. Þeir sem hafa áhuga á pólitík síðustu hundrað árin eða svo rífa hana í sig þessa bók; þann áhuga hef ég og þakka hér með fyrir bókina. Þar kennir margra grasa.

Lesa meira
2. október 2017 09:39

Stefnir í upplausn í sveitum landsins

Þessi gein birtist í Fréttablaðinu í september 2017. 


Það verður að taka á þessu máli NÚNA

Talsvert er rætt um vanda sauðfjárbænda og kindakjötsframleiðslu í landinu. Hér er sagt frá stöðunni i Dalabyggð sem er ágæt mynd af stöðunni í landinu öllu. Eyjólfur Ingvi Bjarnason bóndi í Ásgarð í Dölum lét mig hafa minnisblað um sauðfjárrækt í Dölunum; hann sagði reyndar rá þessu í fréttum Stöðvar 2 áðan í viðtali við Kristján Má Unnarsson. Í minnisblaði hans segir meðal annars:
1. Boðuð er lækkun á afurðaverði til sauðfjárbænda í annað sinn á tveimur árum. Haustið 2015 var meðalafurðaverð til bænda ca. 600 kr á kílóið. Haustið 2016 lækkaði verð um 10% til bænda og var 543 kr kílóið. Haustið 2017 er enn gert ráð fyrir lækkun, nú 35% og þá verður verð til bænda 353 kr. kílóið.
2. Verðmæti innleggs í Dalabyggð haustið 2015 var 402 miljónir króna. Verðmæti innleggs í Dalabyggð haustið 2016 var 392,6 miljónir króna. Áætlað verðmæti innleggs í Dalabyggð haustið 2017 var 242 milljónir króna.
3. Áætluð tekjulækkun frá haustinu 2015 er því 160 milljónir króna í Dalabyggð. Þar eru um 6 % f allri kindakjötsframleiðslu í landinu.
4. Í haust vantar upp 240 kr á kíló til að bú standi á núlli og sá mismunur verður ekki sóttur með neinu öðru en að taka af þessum litlu launum sem bændur reikna sér eða með vinnu utan bús sem ekki er alltaf aðgengileg. Í fjárhagsgrundvelli sauðfjárbúskapar er gert ráð fyrir því að laun bóndans á mánuði séu 160 þúsund krónur. Þessi laun munu lækka við þær aðstæður sem hér blasa við.

Þessar tölur þýða það að sauðfjárbændur eru í raun tekjulausir. Þeir þurfa  að borga áburð, plast, olíu og önnur útgjöld af kaupinu sínu sem ekkert er. Bóndinn verður að sækja það sem á vantar til að búið standi á núlli í a) eigin fjárhag eða b) skuldasöfnun. Þessi staða kemur langverst niður á yngri bændum sem eru að jafnaði skuldugri en þeir sem eldri eru. Staðan er með öllu fráleit; fjárhagur þessa fólks stefnir í gjaldþrot.
     Það VERÐUR að taka á þessum málum af fullri alvöru hvað sem stjórnarfari í landinu líður.


 
Svavar Gestsson, ritstjóri

Lesa meira
6. september 2017 10:47

Hans kynslóð breytti Íslandi meira en allar aðrar kynslóðir

Þessi inngangsorð um Kristin Sveinsson föðurbróður minn birtust í Morgunblaðinu í dag á undan fjölda góðra minningargreina: „Kristinn Sveinsson, húsasmíðameistari, fæddist í Dagverðarnesseli, Klofningshreppi, Fellsströnd í Dalasýslu 17. október 1924. Hann lést á Landspítalanum 23. ágúst 2107. Foreldrar hans voru Sveinn Hallgrímsson, f. 17.9. 1896, d. 26.11. 1936, bóndi frá Túngarði á Fellsströnd, og Salóme Kristjánsdóttir, f. 10.3. 1891, d. 29.7. 1973, húsfreyja frá Breiðabólsstað á Fellsströnd. Þeim hjónum varð tíu barna auðið: Ingunn, f. 1918, d. 2008. Friðgeir, f. 1919, d. 1952, Gestur Zophonías, f. 1920, d. 1980, Sigurjón, f. 1922, d. 1994, Kristinn, Jófríður Halldóra, f. 1926, Ólöf Þórunn, f. 1929, d. 1998, Baldur, f. 1931, d. 2013, Steinar, f. 1932, d. 1981, og Kristján, f. 1934. Jófríður Halldóra og Kristján lifa systkini sín.

Lesa meira