Greinar

Menning

2. október 2017 09:38

Ævintýri og sögur frá Nýja - Íslandi

William D. Valgardson varð kunningi okkar Guðrúnar í Manitoba um aldamótin. Hlýr, skarpur, fróður. Hann er einn sterkasti rithöfundur Kanada og hefur hlotið þar í landi og reyndar sunnan við línu líka, í Bandaríkjunum, fjölda verðlauna og viðurkenninga. Hann er fæddur 1939. Áður hefur komið út á íslensku Konan með Boticelli andlitið sem þau þýddu Gunnar Gunnarsson og Hildur Finnsdóttir; frábært og fallegt listaverk. Jafnaldri hans Bills Böðvar Guðmundsson skáld og rithöfundur hefur tekið sig til og þýtt nokkrar sögur og ævintýri eftir Bill eins og hann er oftast kallaður. Þýðingin er falleg, listaverk, og hann Bill er sannarlega heppinn að hafa fengið annan eins þýðanda til þess að koma þessum sögum á íslensku. Að hæla Böðvari fyrir íslensku er eins og að hæla páfanum fyrir kaþólsku. Bókin heitir Ævintýri og sögur frá Nýja Íslandi. Útgefandi er Sæmundur. Bókin er fallega út gefin og gerð á alla lund. Kærar þakkir.

meira...
20. desember 2016 09:47

Draumrof

Hér eru nokkrar línur um bókina Draumrof sem er gefin út af Bjarti og kemur út á 50 ára rithöfundarafmæli Úlfars.

 

Meiri kallinn þessi Úlfar Þormóðsson. Haldið þið ekki að hann haldi upp á 50 ára rithöfundarafmæli með allt öðru vísi bók. Ef ég þekkti hann ekki svona vel væri ég hissa; veit eftir nærri 50 ára félagsskap að hann er til alls vís. Bókin Draumrof snýst um marga menn sem sumir eru líkir Úlfari aðrir ólíkir. Aðalpersónan ekki mjög geðfelld hakkar sig inn í aðra persónu, og svo sprettur fram fjórði maðurinn. Þessum samskiptum öllum er lýst af mikilli lagni og bókin er spennandi og læsileg út í gegn. Fallega skrifuð; reyndar eru beinlínis lýriskir kaflar i henni eins og ein blaðsíðan um Villa Bergs hyddan. Mikið er það fallegur kafli. Kanski að næsta bók Úlfars verði ljóðabók. 

meira...
18. janúar 2016 10:09

Listamaður og þjálfaður greinahöfundur leggja saman og útkoman er ljóðskáld

Guðmundur Andri er listastílisti. Fáir standa honum á sporði sem  greinarsmiðir á Íslandi núorðið. Bókin hans um Thor er hinsvegar listaverk. Bókin fjallar umþá feðga, hann og pabba hans, og samband þeirra; stundum er textinn eins og ljóð. Guðmundur Andri er nefnilega ljóðskáld þegar hann tekur sig til. 

meira...
18. janúar 2016 10:04

Meistaraverk: Svakaleg lýsing á samskiptum Dana og Grænlendinga

Kim Leine heitir danskur rithöfundur, ungur, fæddur 1961 – er það kannski ekki ungt lengur? Og hann á þegar að baki glæsilegan feril, stórmerkar bækur. Hann hefur fengið allskonar verðlaun og síðasta bók hans Profeterne i Evighedsfjorden er meistaraverk. Hefur komið út í ellefu löndum þegar en bókin kom fyrst út í Danmörku 2012. Á Íslandi á síðasta ári. 

 

meira...
4. janúar 2016 09:33

Alvörubók eftir alvörurithöfund

Á að fyrirgefa allt? Morð? Helförina? Það eru þessar spurningar sem eru á dagskrá Ólafs Gunnarssonar í skáldsögunni Syndarinn sem kom út fyrir jólin. Ekkert smávegis og ég sé á skrifum guðfræðings – Hjalti Hugason -  um bókina að hann telur hana hvorki meira né minna en meistaraverk fyrir þessar sakir, að í henni er fjallað um grundvallaratriði. Það er ekki einfalt mál að gera alvarlegu meginverkefni siðfræðinnar skil í skáldsögu.  En Ólafi tekst það; textinn er vandaður og vel unninn frá upphafi til enda. Heildin gengur upp. 
 

meira...
28. desember 2015 08:55

Um bókina Hundadagar eftir Einar Má Guðmundsson:

 

Sveiflar sér um allan heim og margar aldir 

 

     Fáir menn eru eins ólgandi af hugmyndum og Einar Már Guðmundsson; hann er eins og Hekla, Vesúvíus og Eyjafjallajökull samanlagt í öðru veldi. Hann er sjómaður í merkingunni show svo af ber. Fáir eru snjallari að leika sér við áhorfenda- og áheyrendaskarann hvar sem er í heiminum. Ég fylgdist oft með honum í Manitóba, Danmörku og í Svíþjóð; hann var elskaður dáður og virtur. Þegar það komu fimm eða tíu í suma básana á bókamessu á Friðriksbergi varð ekki þverfótað fyrir fólki hjá Einari. Hann er þekktasti íslenski höfundurinn í Danmörku um þessar mundir. Nú hefur hann gefið út bók sem heitir Hundadagar. Hún er líka sjó: Þarna kastar hann upp í loftin öllu í senn sögu átjándu aldar, nítjándu aldar og tuttugustu og fyrstu aldar. Þarna er Jón Steingrímsson eldklerkurinn mikli sem var dæmdur sakamaður fyrir góðverk, þarna er Finnur Magnússon hetja Friðriks sjötta sem las úr rúnum sem voru rispur eftir jarðhræringar, þarna er Jörundur sjálfur, okkar eini kóngur. Og öskuna frá eldgosum Einars Más Guðmundssonar leggur um allan heim, frá Íslandi suður í Tasmaníu og til baka og allt þar á milli. 

meira...
14. desember 2015 08:58

Óskar Guðmundsson: Þá hló Skúli, Saga Skúla Alexanderssonar alþingismanns og oddvita undir Jökli

 

Sósíalisti á sigurför

 

Skúli Alexandersson var fæddur 9. september 1926. Hann var kappi; hann hljóp hundrað metrana ungur á 12 sekúndum og var eiginlega alla ævi á hlaupum. Hann var athafnamaður.  „Okkur þyrsti í athafnir segir“ á einum stað í bókinni Þá hló Skúli. Nafnið á bókinni er frábært, segir okkur sem þekktum kappann sögu sem við könnumst við og svo er myndin á kápunni skínandi. Glettinn og eldhress. Hann var alla ævi nútímamaður líka fram í andlátið þó hann væri á níræðisaldri; barðist fyrir breytingum á samfélaginu eins og það var á hverjum tíma; fyrst formaður í verkalýðsfélaginu í Djúpuvík barnungur, að endingu umhverfismálahetja Snæfellsness. Alltaf að hugsa um það sem hann sá og heyrði og fann í kringum sig, að brjóta heilann, reyna að skilja, vega og meta. Ég heimsótti þau Hrefnu nokkrum sinnum á Hrafnistu síðasta sprettinn; hann sprækur. Lifi byltingin sagði ég þegar ég opnaði dyrnar hjá þeim. Og Skúli hló. Þannig voru okkar kynni í nærri hálfa öld.

meira...
7. desember 2015 11:18

Eitt á ég samt – endurminningar Árna Bergmanns: Óviðjafnanleg ævisaga

  Bókin er hlaðin hlýju og mannviti, svona bók ættu allir að reyna að skrifa um sjálfa sig, en það geta fáir. Ekki aðrir en þeir sem hafa glímt við manninn, sjálfan sig og Guð í sextíu ár og hafa áður skrifað þúsund greinar og hundrað bækur. Þarna er hann Árni Bergmann og sá sem hefur fylgt honum í 50 ár þekkir þennan mann, myndin á kápunni – hver tók hana? – allt þetta er þessi sami Árni og segir gjarnan sjáðu til þegar honum finnst viðmælandinn fara offari eða vera með vitleysur. Viðmælandinn heldur jafnan virðingu sinni þó hann viti ekki neitt. Kaflarnir í bókinni um Ömmu Sonju, Laxnes og Líban eru meistaraverk, kaflinn Í faðmlögum er varla af þessum heimi, svo fallega skrifaður og skilar öllu sem þar þarf að vera; þar er hvergi of og hvergi van. Lýsingar á einstaklingum eru sumar svo dýrmætar að þær þarf að lesa tvisvar, eins og um Elías Mar. Árni talar fallega um samferðamenn sína, hann er ekki reiður og hvergi bitur; tilvera hans er í jafnvægi.  

 

meira...