Greinar

Menning

25. nóvember 2010 14:11

Afrek

Um bók Guðna Jóhannessonar

um Gunnar Thoroddsen

 

Það er frekar skortur á hugmyndaflugi með viðeigandi hrósyrðum en eitthvað annað að ég nota eitt orð um bók þessa sem Guðni Thorlacíus Jóhannesson sagnfræðingur hefur skrifað um Gunnar Thoroddsen. Afrek; afrek er orðið sem ég vil nota til að lýsa þessu verki sem er í senn ævisaga stjórnmálamanns og stjórnmálasaga í hálfa öld. Ekki fullkomið, nei það er verkið ekki, því þar er sumt of ítarlegt og annað vantar. En skárra væri það nú. Og mat á svona verki er hvorki framkvæmt með reislu né tommustokk. Matið er huglægt; oft smekksatriði bundið þeim sem skrifar eða talar.

Mér finnst sums staðar óþarflega ítarlega farið yfir eins og í kaflanum um erindrekstur á hina ýmsu staði landsins, sumt finnst mér vanta eins og mynd af efnahagsþróun samfélagsins á þessari hálfu öld. Ætli þjóðartekjur á mann hafi ekki aukist um 400 % eða meira? Átakakaflinn innan úr Sjálfstæðisflokknum eftir 1971 þegar Gunnar kemur heim er óþarflega nákvæmur og langur fyrir minn smekk.

Ég hef heyrt í umræðum að bókin lýsi spillingu í íslenska samfélaginu; menn hafi gengið langt í vinargreiðum til að tryggja sér atkvæði. Spurning er hvað á að kalla þetta? Spilling, já, það yrði svona lagað kallað í dag, en hvernig er það með þá sem létu stórfyrirtæki kaupa handa sér  þingsæti? Alla þætti stjórnmála verður að vega og meta á tvo kvarða – kvarða samtíðar og fortíðar. Ekki bara annan þeirra.

 

 

 

Þjóðernishreyfingin

 

Svo koma tíðindin í bókinni. Þau eru ekki fá. Glöggt kemur fram að menn í Sjálfstæðisflokknum á fjórða áratugnum hölluðust frekar að Hitler en Stalín. Þeir fara mýkri höndum um Hitler en Stalín  í Þjóðinni, tímaritinu,  sem Gunnar ritstýrir segir Guðni sem er ekki mikil frétt. Hinu hafði ég  ekki tekið eftir fyrr að Sjálfstæðisflokkurinn gerði listabandalag við Þjóðernishreyfinguna í borgarstjórnarkosningunum 1934. Og gekk þar með frá henni dauðri.  Fram kemur að þegar Gunnar er við nám í Þýskalandi á uppgangstíma Hitlers þá hefur hann auga með umhverfi sínu og hefur andstyggð á nasismanum en veitir athygli skipulagi og fjöldastarfi nasistaflokksins. Afurðin af því er meðal annars fánafylking ungra sjálfstæðismanna á afmæli Heimdallar á Hótel Borg 1937.  Af því er mögnuð ljósmynd í bókinni.

 

Flokksvél Sjálfstæðisflokksins

 

Eins er það afar fróðlegt sem fram kemur í bókinni – og nú þarf að skrifa meira um, takk!  – en það er flokksvél Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Þar segir af því að Reykjavík var 1957 skipt í 120 umdæmi og voru 5-10 fulltrúar í hverju umdæmi og voru samtals 654 fulltrúar snemma árs 1957. Þessir fulltrúar skráðu stjórnmálaskoðanir nágranna sinna og voru þær upplýsingar færðar í skrár í Valhöll í höfuðstöðvum flokksins við Suðurgötu. Á vinnustöðum var öflugt trúnaðarmannakerfi og sama ár átti Sjálfstæðisflokkurinn 392 skráða trúnaðarmenn á vinnustöðum í Reykjavík. Þetta ár hafa íbúar Reykjavíkur sennilega verið rétt um 70 þúsund talsins. Þegar kom fram undir 1980 töldu menn í Sjálfstæðisflokknum að þetta kerfi væri gagnslaust en ekki allir: ““Sumir vildu leggja þær  ( merkingarnar) niður en aðrir mölduðu í móinn, meðal annars með þeim rökum að “oft er leitað til flokksskrifstofunnar varðandi upplýsingar(atvinnurk o fl)” “Mega það teljast athyglisverð orð.” Segir höfundurinn. Með öðrum orðum atvinnurekendur hringdu í Sjálfstæðisflokkinn til að gá hvort óhætt væri að ráða viðkomandi einstakling í vinnu.  Við ráðningar hjá hernum gilti formúlan 4-4-2, það er 4 frá íhaldinu, 4 frá framsókn og 2 kratar. Flokksvél Sjálfstæðisflokksins var ógnarsterk. Hún skipulagði atkvæði yfir á Alþýðuflokkinn svo hann lifði af: Gunnar skipulagði á laun væntanlega í samráði við forystusveit flokksins, að allstór hópur sjálfstæðismanna kysi Alþýðuflokkinn í sumarkosningunum 1959.  Reyndin varð sú að í Reykjavík fær hann nær 2000 fleiri atkvæði en í bæjarstjórnarkosningunum árið áður. Gylfi Þ Gíslason hlaut kosningu og varð eini kjördæmakjörni þingmaðurinn í sínum flokki. Og fyrir kosningarnar 1958 handsalar Gunnar við Magnús Ástmarsson að hann yrði til taks í nýjan meirihluta með Sjálfstæðisflokknum undir forystu Gunnars – ef þyrfti. Sem þurfti svo ekki af því að Sjálfstæðisflokkurinn fékk tíu menn en sósíalistar kölluðu Magnús samt alltaf Magnús ellefta. Á laun lét Bjarni Benediktsson skipuleggja um þúsund manna lið traustra Sjálfstæðismanna sem gætu myndað órofa vegg á flugvellinum og þannig komið í veg fyrir að verkfallsverðir trufluðu flugferðir: Löglega boðað verkfall átti að brjóta á bak aftur með ólöglegu liði.

 

 

Titrandi af reiði

 

Gunnar verður þingmaður barnungur og heldur utan til náms samt; skilur þingsætið eftir í nokkur misseri. Þetta væri ófært nú og hefði mátt útskýra. Hann fer til náms í Berlín og er staurblankur og leitar þá til danska sendiherrans í Berlín sem getur auðvitað ekki látið Gunnar fá peninga. Gunnar er titrandi af reiði vegna neitunarinnar, þá og oft fyrr og síðar ætlast hann til þess að hann hljóti jákvæðustu afgreiðslu valdakerfisins sem hann var jú partur af en engum öðrum en honum hefði dottið í hug að verða titrandi af reiði yfir neitun þó margir hefðu látið sér detta í hug að biðja um aurana. Hann ætlast líka til þess að hann fái prófessorsembætti kornungur og finnst hann órétti beittur; vonbrigðin miklu kallar Guðni það þegar Gunnar verður ekki prófessor liðlega aldarfjórðungs gamall.  En svo verður hann prófessor og er alþingismaður um leið og þá er beitt alls konar ráðum til þess að verða sér út um atkvæði. Á Snæfellsnesi. Hann fer síðan í ferðalag í margar höfuðborgir Evrópu sumarið 1945 til þess að kynna sér stjórnarskrár, þingmaðurinn og prófessorinn, Nú væri spurt hver borgar?  Rætt er um það í fullri alvöru að Gunnar verði forsætisráðherra eftir nýsköpunarstjórnina og sagt er frá samtölum hans og Lúðvíks og Einars; væri gaman að fá að vita meira um þau samtöl. En nýsköpunarstjórnin var ekki framlengd.  Hann glansar sem borgarstjóri í Reykjavík og verður  fjármálaráðherra sem er heldur niðurleið fyrir hann. Ákveður að hætta og verður sendiherra. Er greinilega að undirbúa sig undir forsetaframboð. Vinnubyrði sendiherrans er ótrúlega lítil samkvæmt lýsingunum segir sá sem hér skrifar af reynslu: Það hefur margt breyst. Fer svo í forsetaframboð og tapar því og eins og Guðni bendir á: Það var ekki við öðru að búast. Gunnar hafði núna allt það á móti sér sem hann hafði haft með sér 1952 þegar hann barðist fyrir tengdaföður sinn. 

 

Legg þú á fjallið

 

Kosningabaráttan 1952 er sterkur þáttur þessarar bókar að ekki sé meira sagt; sennilega einn besti kaflinn. Meðferð Sjálfstæðisflokksins á séra Bjarna Jónssyni vígslubiskup er átakanleg og verður vonandi lýst enn nánar síðar. Staðreyndin er sú að Sjálfstæðisflokkurinn gerði mikil mistök í því að fallast ekki einfaldlega á framboð Ásgeirs Ásgeirssonar sem flokkurinn hefði þannig eignast með húð og hári. Eins  er líklegt að séra Bjarni hefði orðið forseti ef Gunnar hefði ekki beitt sér jafnhart fyrir Ásgeir og raun varð á. Merkilegt er að sjá hvernig reynt var strax 1952 að fæla fólk frá Ásgeiri, að þessu sinni með því að kommúnistar kysu hann. Það sama var reynt við Kristján Eldjárn, að framboð hans væri á vegum okkar félaga og það sama var auðvitað reynt við Vigdísi sem upprétt sagðist vera á móti hernum. samt. Verður fróðlegt að sjá hvort Sjálfstæðisflokkurinn reynir næst í fimmta sinn að beita þessu þrautreynda en árangurslausa bragði. Og nú verður Gunnar ekki forseti 1968 en ásetur sér að leggja á fjallið aftur. Hann hefur samband heim til Íslands þegar losnar bankastjórastaða við Landsbankann. En Sjálfstæðisflokkurinn neitar! Gunnar hafði aldrei komið nálægt rekstri bankastofnana en það skipti engu. Hann sagðist myndu svara því sparki með fullri hörku að verða ekki bankastjóri. Og Sjálfstæðisflokkurinn gramsar í dótakassanum og finnur embætti bankastjóra Seðlabankans, æ, upptekið. Prófessorsembætti. Embætti hæstaréttardómara. Gunnar fer svo heim. Verður hæstaréttardómari í fáeina mánuði. Býður sig fram í prófkjöri og nær þingsæti. Stefnir á það að verða formaður Sjálfstæðisflokksins.  Verður prófessor með þingmennskunni eins og ekkert sé. Ekkert er sterkara í þessari bók en lýsingar Guðna á algeru og endanlegu valdi Sjálfstæðisflokksins í embættismannakerfinu.  Þegar Gunnar kemur inn á þingið aftur vorið 1971 er komin vinstri stjórn og þess vegna verður hann varaforseti sameinaðs alþingis þó hann sé í stjórnarandstöðu en vinstri flokkarnir opnuðu valdakerfið á alþingi vorið 1971 og gjörbreyttu þannig um stefnu frá því sem verið hafði í viðreisnarstjórninni. Þessa hefði Guðni mátt geta. Framundan er stjórnarandstaða og Gunnar plottar á bak við tjöldin við Ólaf Jóhannesson.Fróðlegt er að sjá hvernig Ólafur reynir þjóðstjórn vorið 1974. Vissi Alþýðubandalagið um það? Það veit ég ekki. Eftir kosningarnar 1974 og til 1978 er Gunnar félags- og  iðnaðarráðherra. Þau ár eru ekki hans sterkasti tími. Kosningarnar vorið  1978 og svo um haustið 1979 opna Gunnari nýjar leiðir og svo myndar hann stjórnina frægu. Sjálfstæðisflokkurinn er í rusli. Í frjálshyggju eygja menn von, sagði Geir Hallgrímsson. Það varð þjóðinni dýrt.

 

 

 

Í bókinni er það sett upp sem persónulegt lífsmarkmið Gunnars að verða forsættisráðherra. Æi – er það ekki of mikið sagt? Gat ekki maðurinn glaður unað við  það sem hann hafði þá þegar?  Annars verður það brotthvarf án sæmdar! Lífsdraumur! Stjórnin 1980 er mynduð. Forsenda stjórnarinnar var a) að það væri ekki um að ræða stjórn með Sjálfstæðisflokknum og b) að ekki yrði gripið til meiriháttar efnahagsaðgerða nema í samstarfi við verkalýðshreyfinguna. Morgunblaðið brá sér hugmyndasnautt í kalda stríðs búrið og reyndi að kalla stjórnina rúbluna. Mistókst. Guðni segir í bókinni að Gunnar hafi sett fram þá kröfu að stefnan í varnarmálum yrði óbreytt, það er að herinn yrði hér og að ekki yrði hróflað við honum. Gunnar minntist aldrei á þetta á fundum okkar en hefur sennilega fundist betra að segja þetta við sína stuðningsmenn.  Undirritaður átti frábært samstarf við Gunnar Thoroddsen í þessari ríkisstjórn.  Hann var snjall að leysa vandamál og orðheldinn samstarfsmaður. Það er aðalatriðið í pólitísku samstarfi. Við vorum nokkuð misaldra um þetta leyti; hann um tvisvar sinnum eldri en ég, en við áttum samt marga góða daga sem verður sagt frá annars staðar.

 

Dagbækurnar

 

 

En þá kemur að aðalatriði bókarinnar: Dagbók Gunnars opnar leið inn að hjarta hans alla daga allt til loka. Með því móti stendur hann algerlega berskjaldaður fyrir augum almennings með alla sína kosti og galla. Fáfengilegheitin eru augljós, en eru þau ekki eins og flestir hafa, en geyma þau fyrir sjálfa sig?  Hins vegar er ljóst að Gunnar telur frá upphafi að hann sé til forystu borinn og hann gefur hvergi eftir á þeirri braut alla sína ævi. Dagbókin er styrkleiki bókarinnar og Guðni notar hana vel og heiðarlega; séðogheyrt stíll er ekki þar á ferð.  Um leið og dagbækurnar eru styrkleiki bókarinnar verður niðurstaðan grimmari við Gunnar Thoroddsen. Hann er vegna dagbókanna dæmdur harðar en ella hefði verið. Spilling, klíkuskapur, metnaðarsýki og ég veit ekki hvað. En hvað með aðra stjórnmálamenn; eru þeir heilagri fyrir það að þeir hafa ekki skrifað dagbækur? Ég held ekki.

Einhvern tíma mun ég birta lista yfir þau atriði í bók Guðni sem ég er ekki alls kostar sáttur við. Það er ekki langur listi og ég endurtek: Bókin er afrek. Guðni Jóhannesson hefur þegar skrifað  bækurnar Völundarhús valdsins, Óvinir ríkisins og Hrunið. Þrátt fyrir ungan aldur liggur meira eftir hann en marga menn mikið eldri. Það er tilhlökkunarefni að fylgjast með því sem  Guðni færir okkur næst. Hann virðist komast í gögn inni í Sjálfstæðisflokknum sem er eini flokkurinn sem hefur lokað öllu að sér. Verður næsta bók innan úr Valhöll? Eða skrifar Guðni um aðra menn utan Sjálfstæðisflokksins? Hvað með Eystein Jónsson eða Einar Olgeirsson. Það er verk að vinna.