Menning

2. október 2017 09:38

Ævintýri og sögur frá Nýja - Íslandi

William D. Valgardson varð kunningi okkar Guðrúnar í Manitoba um aldamótin. Hlýr, skarpur, fróður. Hann er einn sterkasti rithöfundur Kanada og hefur hlotið þar í landi og reyndar sunnan við línu líka, í Bandaríkjunum, fjölda verðlauna og viðurkenninga. Hann er fæddur 1939. Áður hefur komið út á íslensku Konan með Boticelli andlitið sem þau þýddu Gunnar Gunnarsson og Hildur Finnsdóttir; frábært og fallegt listaverk. Jafnaldri hans Bills Böðvar Guðmundsson skáld og rithöfundur hefur tekið sig til og þýtt nokkrar sögur og ævintýri eftir Bill eins og hann er oftast kallaður. Þýðingin er falleg, listaverk, og hann Bill er sannarlega heppinn að hafa fengið annan eins þýðanda til þess að koma þessum sögum á íslensku. Að hæla Böðvari fyrir íslensku er eins og að hæla páfanum fyrir kaþólsku. Bókin heitir Ævintýri og sögur frá Nýja Íslandi. Útgefandi er Sæmundur. Bókin er fallega út gefin og gerð á alla lund. Kærar þakkir.


      Þessar sögur og ævintýri hafa verið að koma fyrir almenningssjónir síðustu áratugina og Böðvar hefur áður birt þýðingar á verkum Bills. Að þessu sinni birtast sjö ævintýri í þessari bók og níu smásögur. Þær eru hver fyrir sig sjálfstætt listaverk. Það er erfitt að finna eina betri en aðra og verður því ekki reynt hér. Það sem mér finnst standa upp úr eru lýsingar á hversdagslifinu við Winnipeg-vatn. Kuldinn, baslið, fátæktin, biturleikinn já og rasisminn; allt er þetta málað þeim litum að venjulegum manni verður kalt, finnur til og sögurnar og ævintýrin dýpka skilning okkar á lífi Íslendinganna í Vesturheimi á fyrstu áratugum landnámsins vestra. Böðvar hefur sett mark sitt á þennan heim Íslendinga í Vesturheimi. Fyrst með skáldsögunum miklu sem urðu sumpart undirstaða þess að Íslendingar fóru að hugsa vestur um haf á nýjan leik. Svo með útgáfu á bréfasöfnunum, tvær bækur, þykkar, eru komnar út.  Sú þriðja er tilbúin og bíður eftir útgáfu. Auk þessa hefur Böðvar sýnt þessum Vesturheimssamskiptum sífelldan áhuga, ævinlega verið tilbúin til þess að koma, að tala og lesa upp á alls konar samkomum frá Gimli í Borgarnes. Til skamms tíma eini áskrifandi Lögbergs – Heimskringlu í Danmörku! Bókin Ævintýri og sögur frá Nýja Íslandi er enn einn steinninn í þetta listaverk um vesturfara. Allir sem hafa áhuga á þessum samskiptum Íslendinga við Vesturheim eiga að lesa þessa bók; þetta er skyldulesning eins og er í mikilli tísku að segja um almennilegar bækur Oft er það eins og klisja, í þetta skipti er það rétt: Þessar sögur Bills í þýðingu Böðvars styrkja skilning okkar á þessum ferlega tíma sem Íslendingar áttu fyrstu áratugina í Vesturheimi.