Greinar

14. ágúst 2014

Þórður Valdimarsson - kveðja

Þetta birtist í Morgunblaðinu í gær um Þórð Valdimarsson sem var móðurbróðir minn, Útför hans fór fram frá Borgarneskirkju, prestur séra Þorbjörn Hlynur Árnason og fórst honum það vel úr hendi. Eftir útförina var erfidrykkja í Hótelinu í Borgarnesi. Þess má geta að útgöngulagið úr kirkjunni var Ég berst á fáki fráum. Líkmenn gengu ekki í takt við lagið sem hefði þó verið við hæfi.

 

Þórður Valdimarsson var fæddur að Hermundarstöðum í Þverárhlíð 22. ágúst 1925. Hann lést að Brákarhlíð, dvalarheimili aldraðra í Borgarnesi 2. ágúst síðastliðinn og átti því 20 daga eftir í 89 ára aldur er hann féll frá. Foreldrar hans voru hjónin Valdimar Davíðsson fæddur 1899, dáinn 1974 og Helga Ingibjörg Halldórsdóttir fædd 1895 dáin 1985. Þau eignuðust þessi sex börn auk Þórðar: Guðný Ástrún f. 1920, d. 2011, Guðrún f. 1924, Valdís f. 1925 d. 1995, Halldór f. 1928 d. 1995, Þorsteinn f. 1929 d. 2001 og Guðbjörg f. 1934 d. 2004. Þau Helga og Valdimar hófu búskap á Hermundarstöðum en fluttu 1926 að Guðnabakka í Stafholtstungum þar sem þau bjuggu til ársins 1952 er þau fluttu að Hömrum í Hraunhreppi í Mýrasýslu. Þar bjó með þeim  frá upphafi til loka 1966 elsti sonur þeirra Þórður. Þá fluttu þau í Borgarnes og nokkrum árum eftir að þau fluttu þangað keypti Þórður húsið að Borgarbraut 65. Þar bjó Þórður svo einn í nærri þrjá áratugiu eða allt til þess er hann flutti á Dvalarheimili aldraðra í Borgarnesi sem nú heitir Brákarhlíð.  Það var 2007.

 

 
 Þórður var hestamaður af lífi og sál; var virkur í hestamannafélaginu Faxa og var heiðursfélagi þess. Hann var vel lesin í fornbókmenntum, fylgdist glöggt með amstri daganna þegar heilsa og aðstæður leyfðu. Hann aðstoðaði vini sína við hross og hélt hesta lengi í Borgarnesi. 
       Þórður var ókvæntur og barnlaus.
      Útför Þórðar verður gerð frá Borgarneskirkju í dag klukkan 14.
 
Þegar Þórður frændi minn var allur fannst í fórum hans úrklippa nostursamlega samanbrotin í peningaveski innan um nafnskírteini og sjúkrasamlagsskíreini og gamlan fimm hundruð kall. Nafnskírteini hafði ég ekki séð lengi. En úrklippan var hálfu merkilegri því þar reyndist vera ljóð Gríms Thomsen um Arnljót gellini. Arnljótur var stigamaður sem fór ekki troðnar slóðir en vildi styðja þá sem þurftu hjálp.  Þórður frændi minn var stundum nokkuð hryssingslegur. Fannst honum kannski þessar vísur eiga við sig, fannst honum hann vera einn á harðahlaupum undan flóknu og erfiðu umhverfi:


     „Eftir honum úlfar þjóta
     ilbleikir með strengdan kvið.
     Gríðar stóðið gráa og fljóta
     greitt má taka og hart til fóta
     ef að hafa á það við.“
         Þannig orti Grímur um Arnljót.

 

     Úfið viðmót Þórðar frænda míns var varnarhamur hans gagnvart umhverfinu. En stundum brá hann fyrir sig skelmislegu yfirbragði. Oft var flókið að ræða við hann því hann talaði gjarnan í hálfkveðnum vísum. Það kom fyrir að fólki brá við atlögur hans sem beindust stundum að þeim sem síst skyldi. En það voru orð, bara orð. Í Þórði var heitt hjarta. Iðulega orðaði hann hugsanir sínar við mig þannig að óvanir menn hefðu hrökklast á dyr. Ég vissi hver veruleikinn var; í herberginu hans Þórðar í Brákarhlíð voru þrjár myndir. Tvær þeirra af mér.
     Þegar ég fæddist var Þórður sendur að næsta bæ til að hringja til að ná í lækni til að aðstoða við fæðinguna. Þau ólu mig svo upp sjö systkinin á Guðnabakka; nú er móðir mín ein á lífi, níræð að aldri. Síðan Þórður hringdi í lækninn höfum við verið samferða og vitað nákvæmlega hvor af öðrum þó stundum liðu langir tímar á milli þess að við sæjumst. Hann talaði alltaf vel um árin sín á Guðnabakka, en eftir það var sálnafarið oft erfitt. Í Hömrum var lífið stundum flókið að ekki sé minnst á árin í Borgarnesi. Þar áttu menn það til að espa upp lund hans; það er kallað einelti nú orðið. Hann varð oft illa reiður og Bakkus var þá enginn vinur hans.
     Hann var barngóður með afbrigðum framan af ævinni; öllum þótti okkur vænt um hann. Ég naut þeirra forréttinda að fá að búa með honum í herbergi langtimum saman. Hann reyndi að kenna mér þekkja stafina fyrstur manna. Það var honum að þakka að ég þekkti einn staf þegar ég kom í Laugarnesskólann. Við töluðum oft saman lengi inn í kvöldin, ég krakkinn og unglingurinn, hann skilningsríkur og duglegur að greiða úr misgáfulegum spurningum. Nokkur ár var ég um jólin í Hömrum og um páskana; þá var það sérstakt tilhlökkunarefni að tala við Þórð og að fara með honum í fjárhúsin og að tala um hross. Það gerðum við nærri alltaf þegar fundum okkar bar saman. Þegar ég var barn átti hann hestinn Sörla, stóran reistan klár. Brúnan. Í minningunni er falleg mynd af Þórði á þessum hesti. Ég á nú Sörla, veturgamlan, brúnan. Eftir að Þórður flutti í Borgarnes hélt hann hesta lengi vel. Hann starfaði í Hestamannafélaginu Faxa og var heiðursfélagi þess. Þórður sinnti hestum með vinum sínum eins og Guðrúnu Fjeldsted og Markúsi Benjamínssyni. Þeim erum við þakklát, en ég hygg að samband hans við Markús hafi leyst hann úr sjálfheldu þegar ekki mátti tæpara standa.
      Þórður var í sjö ár í Brákarhlíð í Borgarnesi. Voru það bestu ár ævi hans? Kannski. Svo mikið er víst að starfsfólkinu þótti vænt um hann og honum um þau þó hann kynni ekki að færa það almennilega í orð. En hann átti það til að skemmta umhverfi sínu með tvíræðni og glettni. Við sem vorum nærri Þórði erum sérstaklega þakklát starfsfólki Brákarhlíðar fyrir sérlega hlýtt  viðmót og þolinmæði. Ég hitti Þórð síðast 14.júní. Þá áttum við saman skemmtilegra samtal en ég hafði lengi átt við hann. Það skemmdi ekki að þar var Jóhanna frænka okkar; hann kíkti til hennar spóalegur.
      Þórði þakka ég fyrir samfylgdina í 70 ár.