Greinar

23. mars 2015

Í 54 ár af 70 hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið í ríkisstjórnum landsins

Í nýjasta hefti Tímarits Máls og menningar skrifaði ég grein i tilefni af nýustu bók Styrmis Gunnarssonar fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins. Bókin heitir Í köldu stríði barátta og vinátta á átakatímum. Fyrsti hluti greinarinnar fjallar um ofurvald Sjálfstæðisflokksins í áratugi og bent er á að hann hefur verið aðili að ríkisstjórnum í 54 ár af 70 árum lýðveldisins. Þessi hluti greinarinnar er svona:

“Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið stærsti flokkur landsins lengst af frá því að flokkastjórnmál urðu allsráðandi á Íslandi. Hann var stærsti flokkurinn í Reykjavík þar til 2010 þegar Besti flokkurinn breytti hinu pólitíska landslagi í höfuðborginni; R-listinn var bandalag flokka og fyrir honum tapaði Sjálfstæðisflokkurinn meirihlutanum 1994. Flokkurinn hefur verið aðili að ríkisstjórnum lengur og oftar en allir aðrir flokkar, reyndar lengst af beint og óbeint nema 2009–2013, 1988–1991, 1980–1983, 1978–1979, 1971–1974 og 1956–1958. Það er að segja alltaf nema í alls um 16 ár frá utanþingsstjórninni sem sat við stofnun lýðveldisins. Þetta eru sex ríkisstjórnir sem allar nema ein hafa setið minna en eitt kjörtímabil.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur því haft völdin í um það bil 54 ár af 70 árum lýðveldisins. Hann er flokkurinn; mikli-flokkur. Hann hefur ráðið ríkiskerfinu í meginatriðum öll þessi ár og þó hann hafi verið utan stjórna hefur það verið of stuttur tími til að breyta valdaaðstöðu hans nema að takmörkuðu leyti; langflestir æðstu embættismenn allra ríkisstofnana voru löngum skipaðir af honum. Jafnframt hefur hann haft flokkslegt pólitískt vald yfir stærsta blaði landsins Morgunblaðinu frá upphafi nútímastjórnmála á Íslandi. Hann hefur einnig haft veruleg áhrif á þá fjölmiðla sem fjölmiðlasamsteypan 365 hefur ráðið yfir. Og hann réði Ríkisútvarpinu að miklu leyti í áratugi bæði með útvarpsstjórum, útvarpsráði og menntamálaráðherrum og hann beitti því valdi miskunnarlaust. Þá hefur hann haft verulegt pólitískt vald í mikilvægustu stofnunum eins og lögreglunni, öllum bönkunum, Hæstarétti, Landsvirkjun, Seðlabankanum, Flugmálastjórn, flestum sýslumannsembættum landsins, utanríkisþjónustunni að miklu leyti með ráðherrum eða sterkum sendiherrum, eina síðdegisblaði landsins mjög lengi, Vísi. Líka helstu menningarstofnunum þó frá því séu nokkrar undantekningar eins og Kristján Eldjárn í Þjóðminjasafninu og Vigdís Finnbogadóttir í leikhúsinu eru skýr dæmi um. Þá hefur Sjálfstæðisflokkurinn ráðið yfir mikilvægustu hagsmunasamtökum landsins, það er samtökum atvinnurekenda, Vinnuveitendasambandi, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Kaupmannasamtökunum lengst af, Samtökum atvinnulífsins eins og þau heita núna. Stórfyrirtækin hafa yfirleitt verið undir forystu flokksmanna í Sjálfstæðisflokknum. Þá lagði hann sig fram um að stýra almennum samtökum eins og íþróttahreyfingunni; löngum voru leiðtogar hennar þekktir flokksmenn í Miklaflokki. “