Greinar

25. mars 2015

Vildi líka ráða verkalýðshreyfingunni

Sjálfstæðisflokkurinn vildi ráða öllu þjóðfélaginu. En það tókst ekki alveg; Framsóknarflokkurinn réði miklu í félagskerfi landbúnaðarins og í samvinnuhreyfingunni og í verkalýðsfélögunum hafði Sjálfstæðisflokkurinn veika stöðu. Það breyttist þegar Landssamband íslenskra verslunarmanna efldist til áhrifa. En þegar vinstri stjórnin kom til valda 1956 réðist Sjálfstæðisflokkurinn í sérstakt átak í verkalýðshreyfingunni og Morgunblaðið studdi allar kaupkröfur hversu vitlausar sem þær voru. 

 “Flokkurinn gerði reyndar sérstaka valdaatlögu að verkalýðshreyfingunni sem hann vildi ráða líka. Þar komst hann til forystu á sjöunda áratugnum og varð næststærsti flokkurinn á þingum Alþýðusambandsins, næstur á eftir Alþýðubandalaginu. Þegar fyrsta vinstri stjórnin var mynduð 1956 taldi flokkurinn mikla vá fyrir dyrum þegar hann í fyrsta sinn í tólf ára sögu lýðveldisins var utan ríkisstjórnar. Hann neytti allra bragða til að bregða fæti fyrir hana. Flokkurinn – fer vel á þessu, stór stafur og ákveðinn viðskeyttur greinir – ákvað þá að efna til erindrekstrar um allt land til þess að koma undir sig fótunum í verkalýðsfélögum. Fjórir menn störfuðu að þessum erindrekstri frá í maí og fram í september sumarið 1957. Á sama tíma var Morgunblaðið grimmara í kaupkröfum en nokkru sinni fyrr og síðar. Erindrekar flokksins fóru um allar sýslur landsins og skrifuðu skýrslur um ferðir sínar. Árangurinn varð verulegur, að eigin sögn, „stofnaðar voru verkalýðsmálanefndir eða útnefndir sérstakir fulltrúar þar sem verkalýðsfélög voru starfandi, og þannig verið lagður grundvöllur að skipulegri baráttu Sjálfstæðismanna í verkalýðsfélögum um land allt.“ Það sem skyggði á 1957 voru annars vegar „kommúnistarnir“ – það er stuðningsmenn Sósíalistaflokksins/Alþýðubandalagsins – í verkalýðsfélögunum og hins vegar framsóknarmennirnir í kaupfélögunum. Þá var Tíminn talinn betra blað víða, sögðu þeir, en Ísafold sem var málgagn Sjálfstæðisflokksins úti á landi. Það var erfitt viðfangs sögðu þeir ennfremur og „á stöku stað hafði sá áróður Tímans náð að festa nokkrar rætur, að Morgunblaðið hefði hvatt til verkfalla.“ Fyrsta svæðið sem sagt er frá í skýrslunum er Dalasýsla en þar þekki ég allvel til; þar er Friðjón Þórðarson langbestur, segir erindrekinn – kemur mér ekki á óvart. Í Fellsstrandarhreppi sem var einn níu hreppa Dalasýslu eru nefndir menn á sjö bæjum sem styðji flokkinn. Og svo framvegis um allt land. Hér verður ekki farið yfir þessa skýrslu í smáatriðum en hana hef ég haft undir höndum lengi og mun á þessu ári afhenda hana handritadeild Landsbókasafns eða Þjóðskjalasafni. Skýrslan er alls 49 síður.