Greinar

28. maí 2015

Halldór Ásgrímsson kveðjuorð

Halldór Ásgrímsson er borinn til grafar í dag fimmtudaginn 28. maí frá Dómkirkjunni. Halldór var öflugur stjórnmálamaður. Við sátum saman á alþingi á þriðja áratug og unnum fyrir Ísland í Kaupmannahöfn um nokkurra ára skeið. Ég skrifaði um hann fáeinar línur í Morgunblaðið í dag.  

    Að föstudagsmorgni hringdi ég í símanúmer Halldórs Ásgrímssonar – númerið fékk ég hjá Atla. Ég ætlaði að biðja Halldór að leiðbeina mér um stuðning við menningaratriði norrænna þjóða á heimsmóti íslenskra hesta sem verður í  Herning,  Danmörku, næsta sumar. Dóttir Halldórs kom í símann og þá kom í ljós hvað gerst hafði; hjartaáfall. Halldór í hættu. Þessa sögu segi ég hér í kveðjugrein til marks um það að við reiknuðum alltaf hvor með öðrum ef eitthvað þurfti að gera af þessu tagi; við kunnum báðir á kerfið hvor með sínum hætti. Þannig varð ég var við öflugan stuðning Halldórs við þýðingar og útgáfu Íslendingasagnanna á norrænum málum.


     Nú voru þau nýlega komin heim Sigurjóna og Halldór eftir alllanga útivist og pólitísk sviftingaár sem voru þeim hjónum ekki alltaf auðveld. Ég hitti þau í Hörpu fyrir stuttu; þau báru það með sér að þau ætluðu að fara að finna tíma til að lifa lífinu á sínum forsendum. Á snöggu augabragði af skorið verður fljótt, kallið varð grimmt og harkalegt. Með þessum línum flytjum við Guðrún Sigurjónu og fjölskyldu þeirra Halldórs samúðarkveðjur.


       Við Halldór vissum hvor af öðrum i áratugi. Fyrst á alþingi þar sem við vorum eiginlega aldrei sammála í stórum málum.  Ég var talsmaður Alþýðubandalagsins, hann Framsóknarflokksins. Sátum saman í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar 1988-1991. Ætli við höfum ekki verið endamennirnir í þeirri stjórn, ekki vegna þess að annar væri langt til hægri og hinn langt til vinstri, heldur vegna þess að mati þeirra sem fylgdust með okkur að annar var talinn stundum nokkuð róttækur en hinn full jarðbundinn. Halldór hafði sem stjórnmálamaður þrjú megineinkenni: Hann var að austan og fylgdi hagsmunum byggðarlagsins eftir. Í annan stað var hann miðjumaður og leitaði alltaf lausna ýmist til hægri eða vinstri en alltaf lausna.  Í þriðja lagi var hægt að treysta samningum við hann. Það er eiginleiki sem er mikilvægur í samskiptum í stjórnmálum, einnig við þá sem þú ert algerlega ósammála.


      Svo skipaði hann mig sendiherra beint úr stjórnarandstöðunni um leið og ég leitaði eftir því. Þar áttum við heilt samstarf uns hann lét af starfi ráðherra. Þá vildi svo til að hann flutti sig um set til Kaupmannahafnar; þar hittumst við í embættisnafni aftur og aftur. Og Sigurjóna. Þar vorum  við öll í sama flokki, Íslandsflokknum.


     Margt það sem Halldór tók sér fyrir hendur á lífsleiðinni sem stjórnmálamaður var umdeilt að ekki sé meira sagt. Að eitthvað sé umdeilt þýðir að margir eru sáttir en sumir ósáttir. En það er orðheldnin sem ég vil hugsa um á þessari kveðjustundu.
    Það er ekki slæmur minnisvarði.

Svavar Gestsson