Greinar

4. júní 2015

Ragnheiður Eide Bjarnason kveðjuorð

Í dag fimmtudaginn 4. júní er til grafar borin frá Dómkirkjunni Ragnheiður Eide Bjarnason móðir Guðrúnar konu minnar. Hér er birtur inngangurinn að minningargreinum um hana og síðan nokkur kveðjuorð eftir mig. 

 Inngangur að minningargreinunum sem birtast í Morgunblaðinu er svona:


Ragnheiður Eide Bjarnason fæddist í Reykjavík 17. mars 1924. Hún lést á Vífilsstöðum 26. maí síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Guðrún Vilborg Jónsdóttir, fædd í Gilsárteigi í Eiðaþinghá 1894, d. 1941 og Hans Eide, kaupmaður og heildsali í Reykjavík, fæddur í Kopervik í Karmöy, Noregi, 1892, d. 1972.  Systkini Ragnheiðar eru Kristine, f. 1921 og Hans, f. 1929, d. 1933. Árið 1943 gekk Ragnheiður að eiga Ágúst Bjarnason, síðar skrifstofustjóra í Reykjavík, f. 1918, d. 1994. Foreldrar hans voru Áslaug Ágústsdóttir, f. 1893, d. 1982 og séra Bjarni Jónsson, f. 1881, d. 1965. Börn Ágústs og Ragnheiðar eru: 1) Bjarni Ágústsson, f. 1945, eiginkona: Matthildur Kristinsdóttir. Börn þeirra eru Ingibjörg, Kristín og Ágúst. Börn Ingibjargar og Hilmars Viðarssonar eru Hildur Sif, Daníel Kristinn, Sóley Ósk og Viðar Snær. Eiginmaður Kristínar er Árni Björgvin Halldórsson og börn þeirra Bryndís Inga, Bjarni Björgvin, Snorri Steinn og Snædís Tinna. 2) Guðrún Ágústsdóttir, 1947, maki: Svavar Gestsson. Börn Guðrúnar og fyrri manns hennar, Kristjáns Árnasonar, eru Ragnheiður, Árni og Gunnhildur. Eiginmaður Ragnheiðar er Svavar Hrafn Svavarsson og dætur þeirra eru Guðrún og Hrefna. Eiginkona Árna er Anna María Hauksdóttir og dætur þeirra eru María Kristín og Áshildur Margrét. Eiginmaður Gunnhildar er Sigurður Ólafsson og börn þeirra eru Helga og Kristján.


Fyrir hjónaband þeirra Ágústs starfaði Ragnheiður meðal annars á ljósmyndastofu Lofts, var öflug íþróttakona, hafði keppnisskap og keppti í sundi. Hún var virk skíðakona langt fram eftir ævi. Hún var listræn, stundaði útskurð og skildi eftir sig marga fallega gripi. Hún unni íslenskri náttúru, var blómakona svo af bar og fuglavinur. Ragnheiður var listakokkur og lagði alúð við að hafa heimilið fallegt. Þau Ágúst bjuggu allan sinn búskap í Reykjavík, fyrstu ár sín í Lækjargötu 12 þar sem bæði börnin voru fyrstu ár þeirra. Síðan fluttu þau á Snorrabraut og þaðan 1954 að Kleifarvegi þar sem þau bjuggu til 1991 er þau fluttu á Jökulgrunn þar sem Ágúst lést, en Ragnheiður, oftast kölluð Agga, bjó til dauðadags.


Útför Ragnheiðar verður gerð frá Dómkirkjunni í dag og hefst athöfnin klukkan 13.00.

 

Ég skrifaði eftirfarandi kveðjuorð um hana sem birtast í Morgunblaðinu:


Þegar vorum í Kanada tókum við eftir því að jarðarfarir voru líka til þess að halda upp á líf fólksins sem var dáið en ekki aðeins til að syrgja. Þegar liðlega níræður einstaklingur kveður eftir iðulega fallegt og oft viðburðaríkt líf þá er einmitt rétt að halda upp á líf þessa einstaklings; þakka fyrir það er sem er bjart, fallegt og skemmtilegt. Það er upplagt að hugsa þannig um tengdamóður mína til 25 ára Ragnheiði Eide Bjarnason sem var oftast kölluð Agga af sínum nánustu eða frú Agnes í hálfkæringi.


     Það mætti kannski halda upp á það hvernig hún sagði frá pabba sínum Norðmanninum Hans Eide sem hjólaði með stelpurnar sínar á vit náttúrunnar og kenndi þeim á jurtir og fugla. Þannig varð hún blóma- og fuglavinur upp á lífstíð. Að ekki sé minnst á útilegurnar og fjallgöngurnar; ferðin á Botnssúlur var henni í huga allt til loka. Ef hún væri lifandi núna þá væri Guðrún að tala við hana um blómin og fuglana fyrir vestan. Nú er fuglasöngssinfónía Hólasels einmitt með samfellda tónleika einkum á morgnana. Spóinn, lóan, stelkurinn, tjaldurinn, jaðrakan – óttalegt væl – og undirleikurinn er æðarfuglsins sem spilar á djúpan bassann í flæðarmálinu. Og maríuerlan trítlar á pallinum svo galdralétt. Svo má halda upp á blómin sem hún ræktaði í görðunum. En það mætti líka tala um barnabörnin og langömmubörnin og allt það fólk og fagna frammistöðu þeirra í lífinu. Svo má gjarnan hugsa um systur hennar, Kristine, en samband þeirra var sérstaklega fallegt og heilt. Má kannski líka nefna stærsta laxinn í Laxá í Dölum?

 

      Amma Agga fór ekki með veggjum. Stundum voru athugsemdir hennar taldar mjög á mörkunum. Varð óðara miðpunktur allra fjölskylduboða um jól og í afmælum. Þó hún settist innarlega varð hún fljótt aðalatriðið.Stríðin var hún oft. Hún hafði sérstaklega gaman af því að tala vel um Sjálfstæðisflokkinn innan um vinstri sinnuð afkvæmi sín; keypti Morgunblaðið líka eftir að hún var orðin blind.


      Engin veit hvað hefði gerst ef eitthvað annað hefði ekki gerst og svoleiðis vangaveltur eru yfirleitt fánýtar. En samt leyfi ég mér hér að fullyrða að þessi kona hefði getað gert hvað sem var ekki síst sem myndlistarmaður ef hún hefði ekki lent í því sama og allar aðrar konur á fyrri hluta síðustu aldar að verða ,,bara“ húsmóðir. En það gerði hún líka af list. Matargerð hennar var viðbrugðið. Hún hafði reyndar óbrigðulan og hiklausan smekk á flest í umhverfi sínu. Þessi eiginleiki hefur erfst í beinan kvenlegg.

 

      Amma Agga átti margbrotið líf, reyndar ekki alltaf auðvelt en hún tókst á við vandamál upprétt og sigraðist á þeim. Hún átti síðustu andvörpin í fanginu á Guðrúnu dóttur sinni. Svona lokaði hún hringnum; hafði 68 árum áður haldið á Guðrúnu lítilli í fanginu. Þannig kvöddust þær mæðgur sem voru ekki líkar og þó, þegar allt er talið. Endalokin voru falleg, smekkleg, björt. Þegar við kveðjum þessa konu höldum við upp á líf hennar og þökkum fyrir að hún fékk að kveðja með reisn eins og hún átti skilið og hefði viljað.

 

Svavar Gestsson