Greinar

3. júní 2015

Skúli Alexandersson kveðjuorð

Skúli Alexandersson fyrrverandi alþingismaður og leiðtogi Snæfellinga og Vestlendinga í áratugi var til grafar borinn frá kirkjunni á Ingjaldshóli sunnudaginn 31. maí. Útförin var Skúlaleg og falleg og aðstandendum hans einkum börnunum til sóma. Börn Skúla og Hrefnu Magnúsdóttur eru Ari, Drífa og Hulda. Ég skrifaði nokkur kveðjuorð um Skúla sem var fæddur 1926 og því kominn á háan aldur. Samt brá mér í brún þegar ég frétti að hann væri látinn. Hann var svo eldhress og skemmtilegur þegar ég hitti hans nokkrum sinnum á Hrafnistu í vetur. Kveðjuorðin sem birtast hér og í Morgunblaðinu eru svona:      

Skúli og Jökullinn voru eiginlega bræður; útverðir Breiðafjarðar að sunnan. Þeir kölluðust á við Látrabjarg hinu meginn. Við hin innar í firðingum hjúfrum okkur í skjóli þessara risa.


     Skúli kom inn á þetta svæði norðan af Ströndum. Stór og myndarlegur og kjarkmikill, breytti auðn í atvinnu, góður félagi, hlýr vinur, öflugur leiðtogi. Var oddviti á Hellissandi, lengur en nokkur annar maður. Sósíalisti fram í fingurgóma og rak fyrirtækið á þeim forsendum; minnti á Norðfirðingana. Þegar hann hætti að reka fiskvinnslufyrirtæki sneri hann sér að umhverfismálum og hvað annað? Einmitt á Snæfellsnesi á að vera þjóðgarður og það er afrek Skúla fremur en flestra, kannski allra, annarra manna. Það var reyndar sama að hvers konar félagsstarfi hann kom; hann átti alltaf hugmyndir og var alltaf tilbúinn til þess að leggja lið. Síðast talaði ég við hann um tímaritið Breiðfirðing. Hann sagði mér hvernig ég ætti að tala við auglýsendur. Skúli skrifaði reyndar langa og skemmtilega grein í næstsíðasta hefti Breiðfirðings sem bar yfirskriftina Lárus Skúlason og framfaraskeið á Hellissandi. Í næsta hefti Breiðfirðings verður skrifað um Skúla Alexandersson.


     Hann fór með okkur Guðrúnu um allt útnesið haustið 2012 þegar ég var að afla efnis um Haraldínu Haraldsdóttur langömmu mína. Það var skemmtilegt og við fengum að gista í bílskúrnum sem Skúli hafði beytt í svítu eins og það heitir á hótelamáli. Gaman að vera með þeim Hrefnu sem óminnishegrinn hefur nú heimsótt og Skúli sinnti á fallegan og aðdáunarverðan hátt. Síðast voru þau á Hrafnistu í Hafnarfirði og þar hitti ég þau nokkrum sinnum að undanförnu. Lifi byltingin, sagði ég þegar ég kvaddi dyra hjá þeim síðast og hláturinn ógleymanlegi ískraði í höfðingjanum.


   Þannig vil ég muna Skúla og flyt hans góða fólki samúðarkveðjur og þakkir. Veit að kostir Skúla og Hrefnu búa í þeim öllum.