Greinar

21. júlí 2015

Svarið er nei

Red Star in the North – Communism in the Nordic Countries – útgefandi er Orkana forlag as,  Stamsund Noregi 2015. – Ritstjórar Åsmund Egge og Svend Rybner, 355 síður.     

 

Hér er á ferðinni fróðleg bók og jafnvel spennandi fyrir alla þá sem hafa áhuga á sögu verkalýðshreyfingarinnar á Norðurlöndunum og reyndar í heiminum því bókin fjallar um heildina, þróun og sögu róttækra vinstri flokka framan af síðustu öld. Eins og heitið bendir til þá er aðallega fjallað um svokallaða kommúnistaflokka á Norðurlöndunum öllum fimm.  Bókina skrifa 12 höfundar, allir sérfræðingar um vinstri flokka og vinstri hreyfingar á Norðurlöndum.  Íslenski höfundurinn er dr. Ragnheiður Kristjánsdóttir dósent í sagnfræði við Háskóla Íslands.  Í formála kemur fram  að Åsmund Egge hefur haft forystu um verkefnið sem hefur verið unnið að í allmörg ár. Hann er prófessor emeritus en kenndi  rússneska sögu við Háskólann í Osló. Í formála segir hann frá því að tilgangurinn með verkinu sé að gera samanburðarrannsókn á kommúnískum hreyfingum á Norðurlöndunum. Meðan unnið var að verkefninu var efnt til nokkurra funda og námskeiða þar sem höfundar báru saman bækur sínar; höfundarnir tólf lásu því yfir kaflana meðan þeir voru í smíðum og gátu komið athugasemdum á framfæri.  Í bókinni er einkum fjallað um árin fram að 1945. Í innganginum er þeim sem lögðu fram efni þakkað sérstaklega og þar er Jóni Ólafssyni prófessor við háskólann í Bifröst þakkað auk Ragnheiðar sem áður var
nefnd.  

 

Morten Ting skrifar inngang þar sem hann lýsir tilgangi bókarinnar og almennri þróun kommúnistaflokkanna á  fyrri hluta síðustu aldar. Morten Ting er Dani og hefur skrifað meira um sögu þessara samtaka í Danmörku en flestir aðrir. Hann gerir í innganginum almenna grein fyrir stöðu mála og þróun í hverju landi fyrir sig.  Af eðlilegum ástæðum hefur sá sem hér skrifar einkum skoðað íslensku þættina í bókinni sem eru ekki sérstakir heldur hluti umfjöllunar um hvern þátt fyrir sig. Aftur og aftur kemur fram í bókinni að þróun mála á Íslandi hafi verið allt önnur en á hinum Norðurlöndunum. Í raun má segja að það sé ekkert til sem kalla megi né hafi mátt kalla norrænan kommúnisma. Flokkar kommúnista voru veikir og fylgislitlir í Danmörku, Noregi og Svíþjóð, en mikið öflugri í Finnlandi. Á Íslandi var enginn kommúnistaflokkur til eftir 1938.   

   

Annar kafli ritsins er eftir Ole Marting Rönning og fjallar um kommúnisma á Norðurlöndum til 1990. Þar er farið yfir skipulag flokkanna, fjölda félaga og fylgi þeirra í kosningum á öldinni. Þar segir frá því að Kommúnistaflokkur Íslands taldi aðeins um 240 félaga 1930, en 500 1935. Þegar Kommúnistaflokkurinn var lagður niður og Sósíalistaflokkurinn var stofnaður 1938 voru félagsmenn Sósíalistaflokksins 2300 talsins. Til samanburðar skal þess getið að norski kommúnistaflokkurinn hafði 2500 félagsmenn 1939. Mér sýnist að heimildin fyrir þessu sé í gögnum Kominterns. Í greininni fjallar Rönning um róttæku vinstri hópana eftir 1970. Minnt er á Kommúnistana – marxistana/ lenínistana og Fylkinguna sem fengu lítið sem ekkert fylgi í kosningum. Í greininni er ekki fjallað um Sósíalistafélag Reykjavíkur sem bauð fram í borgarstjórnarkosningunum 1970 og fékk sama og ekkert fylgi. Þetta félag var klofningsfélag út úr Sósíalistaflokknum sem lagði sig niður þegar Alþýðubandalagið var stofnað. Útsendarar Moskvuvaldsins fylgdust grannt með þessu félagi og hafa vafalaust orðið fyrir vonbrigðum. Hefði verið fróðlegt að fjalla um það félag einhvers staðar því angar áhugans frá Moskvu teygðu sig þangað – löngu eftir að Mosvka hafði með öllu afskrifað Alþýðubandalagið. Þriðji kafli bókarinnar er eftir sama höfund en hann er doktor í sagnfræði og varaforstjóri skjala- og bókasafns verkalýðshreyfingarinnar í Osló.  Í þessum kafla fjallar hann um skipulag og starfsemi kommúnistaflokkanna. Hann tæpir aðeins á því að skýringin á því að Sósíalistaflokkurinn varð sterkari en Alþýðuflokkurinn hafi verið starfið í verkalýðshreyfingunni. Um það hefði mátt fjalla meira í bókinni; þar hefði reyndar mátt vera kafli um verkalýðshreyfinguna og flokkana sérstaklega. En skýringin á styrk Sósíalistaflokksins og seinna Alþýðubandalagsins var einmitt starfið í verkalýðshreyfingunni og trúverðugleiki forystumanna,  sem börðust fyrir málstað verkafólks og studdu Sósíalistaflokkinn/Alþýðubandalagið. Sú sambúð flokks og hreyfingar var oft flókin, en styrkti báða þegar sagan er skoðuð í heild.     

 

Í ritinu birtast töflur um félagslegan bakgrunn kommúnistaflokkanna á fjórða áratugnum. Þar kemur fram – eftir skýrslu sem KFÍ virðist hafa sent Komintern – að verkamenn voru um helmingur flokksmanna á Íslandi, fiskimenn um fjórðungur, menntamenn og námsmenn tæp 8 %, opinberir starfsmenn um 10 %.   

 

Í fjórða kaflanum fjallar Åsmund Egge um samskipti flokkanna við Komintern. Íslendingur hafði aldrei atkvæðisrétt á þingum Kominterns aðeins ráðgefandi atkvæði. Fyrir stofnun Kommúnistaflokksins á Íslandi höfðu einstaklingar samskipti við Komintern.  Í ritinu kemur fram,-  sem hefur áður komið fram áður hjá Jóni Ólafssyni - að Komintern lagðist gegn því að íslenskir kommúnistar stofnuðu sérstakan flokk 1927, en skipti svo um skoðun og hvatti til flokksstofnunar 1928. Norðmaður Håvard Langseth varsendur til Íslands sumarið 1929 til þess að aðstoða við stofnun kommúnistaflokks á Íslandi en flokkurinn var svo stofnaður 1930. Sagt er frá harðlínustefnu Kominterns (ultra left policy er það kallað í ritinu en Einar Olgeirsson kallaði alltaf harðlínustefnu í mín eyru.) Fram kemur að átök hafi verið um þessa stefnu á Íslandi eins og við þekkjum og engu munaði að Einar Olgeirsson yrði rekinn úr Kommúnistaflokknum. Mér finnst reyndar að í þessu riti og annars staðar hafi yfirleitt ekki verið gert nægilega mikið úr yfirburðastyrk Einars Olgeirssonar: Hann fékk þriðjung atkvæða á hinni borgaralegu Akureyri í kosningunum 1932 verandi þó í framboði fyrir Kommúnistaflokkinn. Enginn hefði gert betur. Hið sama endurtók sig þegar Einar flutti til Reykjavíkur þegar hann var efstur á lista kommúnista í Reykjavík og Kommúnistaflokkurinn fékk kjörinn mann í fyrsta sinn. Það er erfitt að meta persónulega útgeislun einstakra manna en þeir Aksel Larsen formaður danska kommúnistaflokksins og Einar eru dæmi um menn með einstaka útgeislun og magnaða áróðurshæfileika.


   Hvernig á að breyta samfélaginu? Með byltingu eða eftir friðsamlegum leiðum? Um það fjallar næsti kafli ritsins. Bent er á að Kommúnistaflokkur Íslands hafi ekki verið sérstaklega áhugasamur um að boða tafarlausa byltingu. Staðreyndin er sú, segir í fimmta kaflanum eftir Tauno Saarela, að íslenska hreyfingin var verkalýðssinnuð númer eitt og flokkslega sinnuð í öðru lagi. Þessi hreyfing lagði áherslu á praktískar lausnir fremur en almennt tal um byltingu og sósíalisma. Þessi ábending Saarelas er góð og skýrir vel hvað hreyfing íslenskra kommúnista/sósíalista var sterk. Hún var númer eitt að hugsa um hagsmuni íslenks verkalýðs; umræðan um sósíalismann kom númer tvö. Um þetta má lesa til dæmis í grein minni um Lúðvík Jósepsson í síðasta hefti Andvara. Tauno Saarela er kennari í félagsvísindum við Háskólann í Helsinki. Hann bendir á að þó að Kommúnistaflokkur Íslands hafi verið stofnaður á harðlínutímabilinu þá hafi hann frekar notað orðalag verkalýðshreyfingar en harðlínuorðalagið í ályktunum sínum um stjórnmál.  Flokkurinn tók ekki skýra afstöðu til byltingar eða ekki byltingar. Hugmyndir um friðsamlega byltingu heyrðust frá flokknum. Hann lagði áherslu á baráttuna utan þings. Það hefur reyndar verið einkenni róttækra vinstri manna á Íslandi allt frá upphafi. Kommúnistar nýttu sér þessar áherslur á einstökum stöðum og í einstökum verkfallsaðgerðum, en þeir reyndu ekki endilega að gera þessi átök að landsátökum.    

  

     Fjallað er um nýsköpunarstjórnina og sagt að hún hafi verið mynduð nokkuð óvænt; það held ég að sé ekki endilega alveg rétt. Sjötti kaflinn er einnig eftir Saarela og fjallar um átökin milli kommúnista og sósíaldemókrata. Þar er minnt á sterka
stöðu Kommúnistaflokksins í verkalýðshreyfingunni og seinna Sósíalistaflokksins sem var alltaf mikið öflugri enAlþýðuflokkurinn eftir 1942. Róttækum vinstri mönnum gekk best í verkalýðshreyfingunni á Íslandi. Ragnheiður Kristjánsdóttir skrifar sjöunda kafla ritsins um Kommúnisma og þjóðina. Þarna er Ragnheiður á sömu slóðum og í bók sinni og doktorsritgerð Nýtt fólk. Þetta er reyndar einskonar eilífðarheilabrot fólks sem aðhyllist sósíalisma; hvar eru landamærin, þau sem stéttaandstæðurnar skapa eða hin sem dregin eru um þjóðríkin? Fjármagnið á engin landamæri og öreigar allra landa sameinist sögðu Marx og Engels. Hugsjón sem svona er lýst verður aldrei hneppt innan landamæra. Elina Katainen fjallar um stöðu kvenna innan kommúnistaflokkanna og þar kemur Katrín Thoroddsen aðeins við sögu. Í greininni er minnt á þau miklu áhrif sem það hafði á vinstri flokka á Norðurlöndum og víðar er Sovétríkin opnuðu fyrir fóstureyðingar í löggjöf sinni.      

 

Níundi kaflinn fjallar um kommúnista og menntamenn og þar er farið yfir áhrif þeirra innan Kommúnistaflokks Íslands og Sósíalistaflokksins, sérstaklega á áhrif Kristins E. Andréssonar. Tíundi kaflinn fjallar um þátttöku sósíalista á Norðurlöndum í borgararstyrjöldinni á Spáni en þar voru þrír Íslendingar virkir og Hallgrímur Hallgrímsson naut sérstaks trúnaðar af því að Komintern treysti honum. Svend Rybner skrifar þennan kafla en hann er sjálfstætt starfandi sagnfræðingur í Kaupmannahöfn. Í kaflanum stendur reyndar að þrír til ellefu Íslendingar hafi verið í alþjóðlegu sveitinni á Spáni. Þá tölu – ellefu - hef ég ekki áður séð. Voru þeir kannski fleiri en þrír? Í næsta kafla er fjallað um flokkana í Danmörku, Noregi og Svíþjóð í seinni heimsstyrjöldinni, en þar er ekki fjallað um Ísland og Finnland enda staða þeirra allt önnur. Þennan þátt skrifar Terje Halvorsen prófessor emeritus í nútímasagnfræði við háskólann í Lillehammer. Næsti kafli er um Moskvugullið og þá peninga sem komu frá Moskvu til flokkanna. Svend G Holtsmark prófessor ísagnfræði skrifar en þar er byggt á bók Mortens Ting Guldet fra Moskva –Finansering af de nordiske kommunistpartier 1917-1990. Jón Ólafsson á reyndar grein í þeirri bók auk þess sem hann hefur fjallað um málið í bók sinni Kæru félagar.  Næsti kafli eftir Joni Krekola og Ole Martin Rönning fjallar um leiðtogaþjálfun flokkanna, Kominternskólann og þá sem sóttu hann. Þar stunduðu nokkrir Íslendingar nám snemma á fjórða áratugnum og hefur oft verið fjallað um þá og það nám sem þeir stunduðu.  Reyndar mætti fjalla enn frekar um þau námskeið sem skipulögð voru fyrir ungmenni í Austur-Evrópu á árunum eftir seinna stríðið. Þarna voru hópar íslenskra ungmenna í nokkrar vikur á sumri og námskeiðin voru í Austur-Þýskalandi, Tékkóslóvakíu og víðar. Ekki held ég að þessi námskeið hafi nokkru sinni haft nein áhrif á þátttakendur til stuðnings samfélagskerfum Austur-Evrópu – en ég veit um dæmi um hið gagnstæða. Joni Krekola er félagsfræðingur sem starfar á bókasafni finnska þingsins. Næsti kafli fjallar um hryðjuverk Stalínstímans og áhrif þessa á flokka Norðurlandanna. Þar er hvergi minnst á Ísland sem hefði þó verið ástæða til; ekki síst hefði mátt fjalla um Halldór Laxness og um bækur hans á fjórða áratugnum. Það er ekki falleg saga. Þessi kafli er eftir Kimmo Rentola sem er prófessor í pólitískri sögu við háskólann í Helsinki.

 

 Lokakaflinn er eftir annan ritstjórann Åsmund Egge og kaflinn heitir Var til norrænn kommúnismi? Og svarið er nei! Það er einmitt lóðið. Þessir flokkar fimm landa voru ólíkir. Það er að segja þeir dönsku, sænsku og norsku eiga margt sameiginlegt eins og áður getur; hinir ekki. Íslenskir sósíalistar áttu enga samleið með flokkum Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar. Þetta voru þröngir og áhrifalitlir flokkar. Íslenskir sósíalistar áttu fjöldaflokk sem hafði mikil áhrif, flokk sem var stærri en Alþýðuflokkurinn nær alltaf, var mikið sterkari í verkalýðshreyfingunni og kom hvað eftir annað að ríkisstjórnum Íslands. Það var óhugsandi í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Finnland hafði líka sérstöðu ekki síst vegna nábýlisins við Sovétríkin sem hafði bein áhrif á finnska vinstri menn, alltaf.       Alþýðubandalagið var á seinni árum sínum ekki aðili að norrænu bandalagi þessara flokka heldur vorum við áheyrnarfulltrúar og höfðum samvinnu við hina flokkana um kosningar í ráð og nefndir á norrænum vettvangi. Alþýðubandalagið átti í raun enga samleið með þessum hópum fyrir utan það sem sameinaði þá í upphafi vegferðarinnar meðan Kommúnistaflokkur Íslands var til. Sá flokkur átti merka sögu og hafði mikil áhrif, en hann var lagður niður 1938. Leiðtogar hans sem fóru í Sósíalistaflokkinn vildu margir halda tengslum áfram við Sovétríkin. Það var höggvið á þau tengsl 1968; samþykktin um þá breytingu var fæðingarvottorð Alþýðubandalagsins sem stjórnmálaflokks. Það er mikilvægt aðalatriði í sögu íslenskra vinstri manna.
     En bókin Rauð stjarna í norðrinu, skrifuð á ensku, er mikilvæg bók, fróðleg. Gott að hafa hana á ensku svo unnt sé að halda samtali um stöðu norrænu flokkanna áfram við þá erlendu fræðimenn sem vilja skoða heimshreyfingu sósíalista. Vonandi verður þessi bók rædd rækilega hér á landi; í henni er margt sem þarf að skoða.