Greinar

21. júlí 2015

Guðmundur Bjarnason

Guðmundur Bjarnason og Smári Geirsson voru lengi leiðtogar Alþýðubandalagsins í Neskaupstað ásamt Hjörleifi Guttormssyni; þeir héldu merkinu á lofti sem þeir höfðu hafið til skýjanna Bjarni Þórðarson, Jóhannes Stefánsson og Lúðvík Jósepsson. Alþýðubandalagið og þar áður Sósíalistaflokkurinn höfðu meirihluta í Neskaupstað í hálfa öld. Neskaupstaður var stolt okkar félaganna um allt land. Minn forystutíma í Alþýðubandalaginu í 21 ár hafði ég það fyrir reglu að heimsækja Neskaupstað til að tala við félagana um fyrirtækið og fólkið, til að læra og til að vera með í sköpun þróun og endurnýjun. Við Guðmundur Bjarnason hittumst ótal sinnum á þessum árum; vissum vel hvor af öðrum og virtum verk hvors annars. Guðmundur hafði ekki einasta ákveðna pólitíska sýn; hann var skemmtilegur og fyndinn og sá skoplega hliðar tilverunnar. Þorrablót Alþýðubandalagsins í Neskaupstað eru enn í fullu fjöri. Þar áttum við margt sporið og ég varð þess heiðurs aðnjótandi að koma þar til ræðuhalda. Það var gaman. Guðmundur var þrátt fyrir knöpp efni ungur maður einn þeirra fjölmörgu í Neskaupstað sem lögðu fram hlutafé í  nýja Þjóðviljahúsið að Síðumúla 6. Hann var alltaf með. Átök í Alþýðubandalaginu eftir minn formannstíma settu merki sitt á okkur öll, en þau snerust ekki um aðalatriðin. Eftir að ég kom aftur til verka eftir nokkra fjarveru kom það í minn hlut að skrifa um Lúðvík Jósepsson fyrir tímaritið Andvara. Og hvert leitaði ég þá nema til Guðmundar og Smára eins og ekkert hefði í skorist og tíminn hefði staðið kyrr? Þeir voru ennþá í hausnum á mér eins og þeir voru forðum. Traustir talsmenn byggðarlagsins og sögu þess, öruggir liðsmenn þeirra hugsjóna um betra samfélag sem við eignuðumst allir ungir. Guðmundur veitti mér stuðning í þessum skrifum, ræddi við mig löngum og þeir félagar útveguðu mér ómetanleg gögn. Guðmundur var eins og áður hjálparhella og félagi; ég vissi að hann var veikur orðinn, en sögur hans voru óborganlegar og hjálpsemi sem fyrr. Ég er þakklátur fyrir kynni mín af Guðmundi Bjarnasyni, þakklátur fyrir þau störf sem við unnum saman fyrir hreyfinguna og góðan málstað. Við Guðrún sendum með þessum línum Klöru og fjölskyldu þeirra Guðmundar samúðarkveðjur á örlagastund.