Greinar

1. nóvember 2016

Jónsteinn - kveðjuorð

Sá góði félagi Jónsteinn Haraldsson var kvaddur frá Áskirkju á mánudaginn. Hann var með í baráttunni allt til hinstu stundar. Var í heiðurssæti á lista Vinstri grænna í Reykjavík við kosningarnar um síðustu helgi. Hér birtist greinarkorn um Jónstein sem kemur í Morgunblaðinu í dag, þriðjudag, eða einhvern næstu daga.

 

     Jónsteinn Haraldsson var auglýsingastjóri á Þjóðviljanum í kaldasta kalda stríðinu frá 1946 til 1956. Hann barðist sem slíkur hetjubaráttu fyrir að tryggja Þjóðviljanum tekjur af auglýsingum. Það var erfið barátta, þvi að þeir, sem ferðinni réðu og ráða í viðskiptaheiminum, voru Þjóðviljanum alltaf andsnúnir. Þeir auglýstu frekar í málgagni sínu sem þessi grein birtist í af því að þar er því miður ekki annarra blaða völ. Jónsteinn náði miklum árangri sem auglýsingastjóri af því að þar fór saman nauðsynleg harka og lagni. Hann hafði líka merkilega reynslu; öll sín unglingsár lá hann á Vífilsstöðum í berklum. Þá þurfti hörku og seiglu. Í starfi auglýsingastjóra ávann Jónsteinn sér það traust, að sjálfsagt þótti að hann yrði framkvæmdastjóri blaðsins, þegar Björn Svanbergsson lét af þvi starfi. Starfi framkvæmdastjóra gegndi Jónsteinn með sæmd i sjö ár. Á þeim árum var ráðist í ýmis stórátök fyrir Þjóðviljann. Hér skal aðeins minnt á kaupin á rotations-prentvélinni, sem Þjóðviljinn var prentaður í mörg siðustu árin áður en prentunin fór í Blaðaprent. Útilokað er í stuttri grein að lýsa því sem félagarnir lögðu á sig til að eignast þessa stóru maskínu. Þegar hún var komin inn í húsið á Skólavörðustíg var gleði í margri lítilli stofu fátæks fólks. Eftir að Jónsteinn lauk starfi sínu á blaðinu fór hann til Máls og menningar og var þar verslunarstjóri lengi. Alls staðar geislandi af dugnaði og ósérhlífni. Síðan stofnaði hann eigin verslun ofarlega á Laugaveginum.
     Þegar við Guðrún komum heim eftir diplómatíska útlegð fórum við á samkomu Eldri vinstri grænna. Hvað annað? Og hver var þar nema þau hjónin Jónsteinn og Halldóra. Þau voru góð hjón. Ég var sósíalisti þegar ég lenti í fanginu á honum Jónsteini, sagði Halldóra. Það var á balli í Listamannaskálanum. Sósíalistafélag Reykjavíkur hélt ballið í tilefni af byltingarafmælinu 7. nóvember. Eftir það voru þau alltaf saman að hugsa um byltinguna og sósíalismann.
     Þegar ég lenti í því að skrifa langhund um Lúðvík Jósepsson fyrir Andvara þá leitaði ég til Jónsteins því hann var náinn vinur Lúðvíks og félagi. Jónsteinn sagði mér frá einkahögum Lúðvíks sem ég þekkti ekki, laxveiðiáhuga og teikningum. Lúðvík Jósepsson var allra manna skemmtilegastur. Jónsteinn kunni vel að segja frá því.
       Jónsteinn lauk pólitískri ævi sinni með því að vera í heiðurssæti á lista Vinstri grænna í Reykjavík suður. Semsé með í baráttunni allt til loka.
     Ekki er mikið talað um það núorðið að menn reikni með að sósíalisminn banki á dyr og frelsi mannkynið. Við vitum líka betur að það þarf endalausa seiglu til að losa þetta sama mannkyn við ranglæti og arðrán. Sama er reyndar hvað við köllum þá björtu von þá er gott að eiga hana innra með sér.  Megi sá sigur sósíalismans, eða hvað þessi von heitir annars, birtast við dagsbrún einhvern daginn. Þau Jónsteinn og Halldóra hafa fært þann sigur nær okkur hinum. –