Greinar

22. desember 2016

Lífshlaup

Móðir mín Guðrún Valdimarsdóttir var jarðsett í dag. Af því tilefni birtust þrír pistlar í Morgunblaðinu. Hér er sá fyrsti, stutt yfirlit um lífshlaup hennar.

 

 

Guðrún Valdimarsdóttir, alltaf kölluð Dúna, var fædd að Kjalvararstöðum í Reykholtsdal 28.mars 1924. Foreldrar hennar voru Valdimar Davíðsson, f. 11.11.1899 d. 5.9.1974 og Helga Ingibjörg Halldórsdóttir, f. 31.8.1895 d.9.5.1985. Þau bjuggu lengst á Guðnabakka í Stafholtstungum en seinna að Hömrum í Hraunhreppi. Þau brugðu búi 1966 og fluttust í Borgarnes. Systkini Dúnu voru: Ástrún f. 1920 d.2011, Þórður f. 1925 d. 2014, Valdís f.1927 d.1995, Halldór f. 1928 d. 1995, Þorsteinn f.1929 d.2001 og Guðbjörg f.1934 d.2004. Þegar Dúna deyr eru öll systkinin frá Guðnabakka dáin. Dúna gekk á húsmæðraskólann á Staðarfelli 1942-1943 þar sem hún kynntist eiginmanni sínum Gesti Zóphóníasi Sveinssyni frá Stóra-Galtardal á Fellsströnd. Þau gengu í hjónaband í 1944. Þau eignuðust átta börn: Svavar f.1944, Sveinn Kjartan f.1948, Helga Margrét f.1949, Málfríður f.1953, Valdimar f.1956, Guðný Dóra f.1961, Kristín Guðrún f. 1963 og Svala f. 1967 d.1971.

    Svavar á þrjú börn með fyrri konu sinni Jónínu Benediktsdóttur, Svandísi, Benedikt og Gest. Eiginkona Svavars er Guðrún Ágústsdóttir. Sveinn og kona hans Þóra Stella Guðjónsdóttir eiga þrjú börn Önnu Kristínu, Ingibjörgu og Kristján. Helga á soninn Jón Gest með manni sínum John Sörtveit, og tvo syni með fyrri manni sínum Hilmari Kristenssyni þá Sævar Þór og Kristin Adolf. Málfríður á þrjú börn með fyrri manni sínum Karli Heiðarssyni þau Heiðar, Guðrúnu og Örvar. Eiginmaður Málfríðar er Pétur Jósafatsson og eiga þau eina dóttur Ingibjörgu. Valdimar á tvö börn með fyrri konu sinni þau Karenu og Gest Zóphónías. Eiginkona Valdimars er Anna Magnúsdóttir. Guðný  Dóra á tvær dætur með fyrri manni sínum Þórði Sigmundssyni þær Ásgerði og Helgu. Eiginmaður Guðnýjar er Flóki Kristinsson. Kristín á þrjú börn með manni sínum Jóhanni Móravek þau Emil, Solveigu og Salóme. Alls eru niðar Dúnu um 60 talsins. Hún elskaði niðja sína algerlega fyrirvaralaust.

     Þau Gestur og Dúna bjuggu fyrstu búskaparár sín í Stóra-Galtardal á Fellsströnd, en fluttu til Reykjavíkur 1947 og bjuggu þar til 1954 er þau fluttust vestur aftur. Þá stofnuðu þau nýbýlið Grund á Fellsströnd í landi Litla-Galtardals. Þar bjuggu þau til 1966 er þau fóru suður á ný, fyrst að Straumi við Hafnarfjörð og síðan í Hafnarfjörð. Dúna fór að vinna margvísleg störf í Straumsvík er álverksmiðjan var reist og vann þar til 65 ára aldurs. Gestur lést í lok ársins 1980 og eftir það bjó Dúna fyrst með yngstu dætrum sínum og síðan ein allt til loka.

     Dúna var alltaf virk í margskonar félagsstarfsemi þegar hún gat því við komið. Tók þátt í ótal kórum fyrst vestur í Dölum, síðan í Hafnarfirði eftir að hún kom þangað. Hún var virk í félagsstarfsemi eldra fólks í Hafnarfirði eftir að hún lét af störfum í álverinu, var formaður í ferðanefnd, fór utan í ferðalög meðal annars til að heimsækja börn sín sem bjuggu erlendis. Hún var alltaf virk í öllu því sem hún kom nálægt; hafði skoðanir á mönnum og málefnum til dæmis á pólitík.

      Guðrún Valdimarsdóttir, Dúna,  verður jarðsungin frá Þjóðkirkjunni í Hafnarfirði í dag klukkan 15.