Greinar

22. desember 2016

Það er svo gaman að vera saman

 

Þessa minningargrein skrifað Guðrún Ágústsdóttir um mömmu mína en greinin birtist í Morgunblaðinu á útfarardaginn 22. desember 2016.

 

Mikið var hún Guðrún Valdimarsdóttir, eða Dúna skemmtileg kona og klár. „Hún Dúna er alltaf svo glöð” sögðu samferðarmenn hennar og það var svo sannarlega satt. Lífið hafði upp á svo margt skemmtilegra að bjóða en þá erfiðleika, sem stundum mættu henni á lífsleiðinni. Eins og t.d. að dansa og syngja. Ég man fyrst þegar ég sá syni hennar þá tvo eldri sveifla henni um gólfið í Breiðfirðingabúð. Þá var eins og fæturnir á henni snertu ekki gólfið. Það var fjör. Og alltaf var sungið –  enda var Dúna oftast í kór.

     En lífið hjá henni Dúnu var ekki bara dans á rósum. Hún og Gestur hófu búskap 1944 með elsta drenginn sinn í nýlegu steinhúsi sem Gestur hafði byggt yfir þau og fósturforeldra sína í Stóra-Galtardal.  Húsið var kalt – öfugt við torfbæinn sem flutt var úr og drengurinn á fyrsta ári með kíghósta. Eftir tvo vetur þar ákvað hún að heimsækja foreldra sína í Borgarfjörðinn og kom ekki aftur fyrr en nokkrum árum seinna.

 

     Þau Gestur  fluttu á mölina 1947. En alltaf blundaði draumurinn um að vera bóndi í Dölum í Gesti og aftur var flutt vestur og  annað steinhús byggt 1954. Lífsbaráttan var hörð og eftir 12 ár fluttu þau aftur á mölina. Börnin urðu átta. Sú yngsta, Svala,  dó í bernsku. Hin sjö eru sómi hennar Dúnu og þegar hún deyr eru niðjar hennar um sextíu talsins. Hún elskaði þau algerlega fyrirvaralaust.

     Þau Gestur settust að í Hafnarfirði þegar þau komu aftur suður. Hún fór að vinna í Straumsvík þar sem hún eignaðist góða vini og vann þar til 67 ára aldurs. Hún missti Gest þegar hún var 56 ára og var ein síðan.

     Dúna kom inn í líf mitt og ég hennar fyrir um aldarfjórðungi þegar ég fór að búa með elsta syni hennar. Hún var satt að segja ekkert mjög hrifin af þeim ráðahag. Hún og fyrri kona Svavars Nína höfðu verið mjög nánar og góðar vinkonur og voru alltaf meðan báðar lifðu. En Dúna tók mér eins og höfðingja sæmir og af reisn og svo fór að við urðum meira en góðar vinkonur og áttum margar góðar stundir. Hér áttum við til dæmis saman sérstaka gleðistund þegar hún varð níræð. Og sungum með krökkunum hennar sjö og mökum þeirra: Það er svo gaman að vera saman. En sérstaklega fannst mér vænt um hvað þær mæður okkar Svavars urðu góðar vinkonar með svo gjörólíkar aðstæður að baki. Þær voru hér hjá okkur á gamlaárskvöld í Mávahlíðinni síðustu árin. Jafngamlar, báðar fæddar 1924,  mamma fór í fyrra, Dúna núna; já gamlar að vísu en við söknum þeirra samt.

      Hún sýndi oft skýra forystueiginleika. Það sáum við til dæmis vel í ferð vestur í Dali með eldri borgara í Hafnarfirði sem hún hafði skipulagt í þaula; hún stjórnaði ferðinni í smáatriðum. Þar og oft ella sást hvers hún hefði verið megnug ef hún hefði fengið þau tækifæri sem konur á Íslandi fengu áratugum síðar. Það sést reyndar á mörgum niðjum hennar hvað þau fengu frá henni af sterkum félagsvilja.

     

     Ég kveð hana tengdamóður mína með virðingu og þakklæti fyrir svo margt sem hún kenndi mér um tilveruna í margbrotnum heimi; þessi barnmarga verkakona sem valdi gleðina. Það er svo gaman að vera saman.

 

Guðrún Ágústsdóttir