Greinar

29. desember 2016

Við erum þakklát fyrir ömmu Dúnu

Svandís Svavarsdóttir skrifaði eftirfarandi minningargrein um móður mína, ömmu sína, Guðrúnu Valdimarsdóttur. Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. desember síðastliðinn á útfarardaginn. Með þessari grein eru allar greinar um mömmu sem birtust á útfarardaginn komnar á svavar.is.

Þegar við reynum að endurskapa hughrif barnæskunnar dragast upp myndir og minningar, fólk og staðir, lykt og áferð, hljóð og litir.

Persónur og leikendur, stórar manneskjur, fólkið heima og heiman, vinir og frænkur, afar og ömmur. Minningar úr ýmsum eldhúsum, skraf, kaffi og sígó. Langar sögur og stuttar, hlátur og meira kaffi.

Amma Dúna var ein af þessum persónum, ein af þessum manneskjum sem sköpuðu umgjörðina utanum barnæskuna og unglingsárin. Var þarna svo nálæg og raunveruleg. Eins og Esjan eða kannski frekar eins og eitthvert fjallið í Borgarfirði eða Dölum. Fjall sem aldrei fer og verður alltaf hluti af veruleikanum og daglegu lífi.

„Hún var svo kát hún amma þín,“ segir vinkona. „Skemmtileg kona og svo góð við mig í Straumsvík,“ segir þingvörður. „Rík ertu að fá að vera svona lengi samferða ömmu þinni,“ segir annar. Kaflaskil sem umlykja þau núna, börnin hennar sjö, framkvæmdastjórana alla, allt þetta öfluga fólk sem á sannarlega eitthvert að sækja snerpuna og skerpuna og tryggðina. Og að kunna að taka lagið. Og stundum að fara seinast heim úr boðinu. Einu sinni enn „Úti við svalan sæinn“ eða „Blessuð sértu sveitin mín“.

Rúllur í hárinu og Hagkaupssloppur í eldhúsinu. Kannski í Straumi eða á Strandgötunni. Kaffi í glösum. Sykur út í. Matarkex. Og sögur. Og eftirhermur við borðið. Og systurnar yngstu Kristín og Guðný. Eiginlega mínar systur en þó föðursystur, vinkonur og félagar í lífinu öllu. Stundum var gott að skjóta sér út á lífið með þeim um helgar á unglingsárunum. Amma og afi hætt að vaka eftir börnum. Fólkið kom bara heim þegar ballið var búið, hér voru ekki ungir foreldrar vakandi með klukkuna þar til unglingurinn kom heim. „Ég verð bara hjá ömmu um helgina.“

Nýyrðið niðjagleði varð til einhvern daginn þegar ég áttaði mig á því að ömmu Dúnu dugði að hafa nokkra afkomendur fyrir augunum. Það dugði til að hlæja, slá sér á lær og hlæja meira. Bara gleðin yfir barnaláninu og fjöldanum og alltaf einum enn í fangi, með snuð og bleyju. Margar myndir eru til af slíkum augnablikum. Niðjagleði er sannarlega líka til eftirbreytni. Að fara yfir hópinn, telja og telja upp börnin og barnabörnin, hlæja og brosa út að eyrum. Og kynna fólkið sitt. „Þetta er elsta barnabarnið mitt.“

Við erum þakklát fyrir ömmu Dúnu. Hún var kona sem hreyfði við mörgum í sínum samtíma. Mest með gleði og léttleika. Þannig man ég hana. Man eftir því sem barn að hafa horft til hennar og hugsað að stundum væri gott að setja átök og raunir til hliðar, hella kaffi í glasið og segja sögu að vestan eða úr Firðinum. Það er til eftirbreytni. Að hreyfa við sínum tíma og heimi með því að vera kát og með því að vera æðrulaus.