Greinar

6. september 2017

Hans kynslóð breytti Íslandi meira en allar aðrar kynslóðir

Þessi inngangsorð um Kristin Sveinsson föðurbróður minn birtust í Morgunblaðinu í dag á undan fjölda góðra minningargreina: „Kristinn Sveinsson, húsasmíðameistari, fæddist í Dagverðarnesseli, Klofningshreppi, Fellsströnd í Dalasýslu 17. október 1924. Hann lést á Landspítalanum 23. ágúst 2107. Foreldrar hans voru Sveinn Hallgrímsson, f. 17.9. 1896, d. 26.11. 1936, bóndi frá Túngarði á Fellsströnd, og Salóme Kristjánsdóttir, f. 10.3. 1891, d. 29.7. 1973, húsfreyja frá Breiðabólsstað á Fellsströnd. Þeim hjónum varð tíu barna auðið: Ingunn, f. 1918, d. 2008. Friðgeir, f. 1919, d. 1952, Gestur Zophonías, f. 1920, d. 1980, Sigurjón, f. 1922, d. 1994, Kristinn, Jófríður Halldóra, f. 1926, Ólöf Þórunn, f. 1929, d. 1998, Baldur, f. 1931, d. 2013, Steinar, f. 1932, d. 1981, og Kristján, f. 1934. Jófríður Halldóra og Kristján lifa systkini sín.

Kristinn kvæntist eftirlifandi konu sinni, Margréti Jörundsdóttur 12. nóv. 1950. Börn Kristins og Margrétar eru: 1) María Aldís, hjúkrunarfræðingur, f. 27. jan. 1951, maki Haraldur G. Blöndal. Börn þeirra eru: Kristinn Gunnar, sambýliskona er Flóra Karítas Buenaño; Jörundur Ragnar, maki Sandra Ómarsdóttir og eiga þau tvö börn; Ingunn Margrét, sambýlismaður er Daníel Þórisson. 2) Friðgeir Sveinn, fjármálastjóri, f. 20. febr. 1955, k.h. Guðbjörg Erla Andrésdóttir. Þau skildu. Börn þeirra eru: Guðmundur, maki Hildur Hafsteinsdóttir og eiga þau þrjá syni; Margrét, sambýlismaður Baldur H. Gunnarsson og eiga þau tvo syni; Kristinn Örn, d. 17. okt. 2009. Sambýliskona Friðgeirs er Aðalheiður S. Jörgensen. 3) Jörundur, heimilislæknir, f. 20. nóv. 1961, k.h. Hafdís Þorsteinsdóttir. Börn þeirra eru: Eva Rut, sem á tvö börn; Þorsteinn Daði, maki Laufey Árnadóttir; Kristinn Freyr. 4) Jóhannes Kári, augnlæknir, f. 4. maí 1967, maki Ragný Þóra Guðjohnsen. Börn þeirra eru: Jón Magnús, maki Vigdís Víglundsdóttir; Árný, sambýlismaður Eiríkur B. Henn; Margrét. Fyrir átti Kristinn Svein Valgeir, leigubílstjóra, f. 1946, maki Svanhildur Guðbjartsdóttir. Börn þeirra eru: Haraldur Steinar, sem á einn son; Jóhanna Magna, sambýlismaður Eiríkur E. Kristinsson og eiga þau tvö börn; Oddný Valgerður, sambýlismaður Márus Daníelsson, eiga þrjú börn og eitt barnabarn. Dóttir Sveins Valgeirs er Hrund, maki Reynir Magnússon og eiga þau tvær dætur. Kristinn reisti mörg helstu stórhýsi Reykjavíkur á sínum tíma svo sem fyrir Kassagerð Reykjavíkur, Eimskip, Hús verslunarinnar, Verzlunarskólann, Ísbjörninn, stækkun Hótels Sögu, Áburðarverksmiðjuna, Jófríðarstaði og skólann fyrir Landakot, Breiðholtskirkju og Grensáskirkju. Þá eru ótalin fjölbýlis- og einbýlishús auk annarra verka. Kristinn átti og rak svínabúið Grísaból og reisti fyrsta sérhæfða svínasláturhúsið á Íslandi. Hann var einn af stofnendum Svínaræktarfélags Íslands og formaður þess 19761982. Hann rak jafnframt kjúklingabúið Straumsbúið um nokkurt skeið. Útför Kristins fer fram frá Grensáskirkju í dag, 6. september 2017, og hefst kl. 13. 

 

Minningargrein

Ég skrifaði eftirfarandi minningargrein um Kristin, Didda, en greinin birtist í Morgunblaðinu í dag:

Hvað ætli þessi hús eigi sameiginlegt? Hús verslunarinnar, hús Granda, Grandagarði, hús Eimskipafélagsins við Tryggvagötu, Faxaskáli, Sundaskáli, hús Verslunarskóla Íslands, Hótel Saga, viðbótin sem byggð var upp úr 1980, Kassagerð Reykjavíkur, Grensáskirkja, Breiðholtskirkja, Jófríðarstaðir, klaustrið í Hafnarfirði? Fáir vita það, en við vitum það sem í dag kveðjum Kristin Sveinsson. Hann var byggingarmeistari þessara húsa. Það gerðist ekki þannig að hann ynni útboðsferli heldur stjórnaði hann byggingunum út í reikning. Það var af því að honum var treyst. Diddi eins og við kölluðum hann var afburðaskipuleggjandi, strangur en sanngjarn verkstjóri og duglegur svo af bar. Hann var líka svefnléttur sem er ættarfylgja. Hann byrjaði vinnudaginn við byggingarnar eins og aðrir um sjöleytið að morgni, vann fram undir sjö að kvöldi, þá tóku við símtölin. En áður en þessi vinnudagur hófst skilaði hann öðrum vinnudegi; byrjaði um fimm leytið því hann átti eitt stærsta svínabú landsins. Sem hann sinnti svo um helgar. Sögur af dugnaði hans eru óteljandi. Hann var líka framúrskarandi handverksmaður eins og sást þegar hann fór að fást við útskurð á efri árum. Hann skar út í tré mynd af Reyni Pétri; sú mynd er listaverk. Þessi maður var ekki borinn til þess afls sem hann sýndi af sér á ævinni. Diddi var fimmta barn örfátækra foreldra sinna, fimmta barnið á sex árum. Fjórði strákurinn. Fæddur í Seli; þar var hvorki hátt til lofts né vítt til veggja. Hann sá fyrst nýjan við sex ára þegar hann sá líkkistuna sem langafi hans var lagður í. „Ég man ennþá lyktina af furuspónunum“ sagði hann mér í fyrra. Þá orðinn 92gja ára. Hann varð eins og skugginn hans pabba síns og sorgin var ægileg þegar afi minn pabbi hans lést aðeins 40 ára frá tíu börnum. Þá var Diddi 12 ára og átti fimm yngri systkini. Það gerðist á Sveinsstöðum. Þar reisti Diddi svo áratugum seinna ásamt Möggu konu sinni og börnum sumarhús. Þangað var yndislegt að koma í sumar þegar við riðum þar í hlað feðgarnir í glampandi sólskini og nutum útsýnisins sem er galdrafagurt. Diddi og Magga voru hjón í 68 ár.
     Í síðasta hefti Breiðfirðings skrifaði ég grein um ömmu hans og langömmu mína Haraldínu Haraldsdóttur. Sjaldan hef ég á alllangri ævi verið hlaðinn þvílíkum þökkum fyrir nokkur verk og þegar hann Diddi þakkaði mér þessa grein; hef ég þó skrifað mörg hundruð texta. Hann skrifaði reyndar mikið seinni árin og möppur troðnar upplýsingum bíða góðra skrifara.
     Diddi var einn af stólpum þeirrar kynslóðar sem gaf okkur það Ísland sem við eigum í dag. Fáein minnismerkjanna sem hann lætur eftir sig voru nefnd í upphafi þessarar geinar. Færri og færri vita um þau; þannig er lífið en breytir engu um hitt að þessu fólki á að þakka og því á að sýna virðingu. Kynslóð hans breytti Íslandi þannig að þeim breytingum má líkja við byltingu. Við Guðrún náum ekki að fylgja Didda til grafar þar sem við erum erlendis en ég flyt Möggu og öllum börnum Didda frænda míns innilegar samúðarkveðjur okkar hjóna. Ég mun skrifa um hann í næsta hefti af Breiðfirðingi. Það er það minnsta sem ég get gert fyrir þennan öðling föðurbróður minn.