Greinar

27. október 2017

Fasískt ógeðslegt samfélag

Hver sá maður er heppinn sem fær hana Silju til að skrifa með sér heila bók, ég tala nú ekki um þegar bókin er um mann sjálfan. Og svo hefur hún yfirlesara sem er kanski sá besti á Íslandi, Gunnar Karlsson, þegar kemur að sagnfræði og þekkingu á öldinni sem leið og fleiri öldum og svona vel fram eftir þessari.  Bókin er skemmtileg, vel skrifuð og fróðleg, allt í senn. Þeir sem hafa áhuga á pólitík síðustu hundrað árin eða svo rífa hana í sig þessa bók; þann áhuga hef ég og þakka hér með fyrir bókina. Þar kennir margra grasa.

Það á víst aldrei að segja frá endinum á bókum, ekki reyfurum, en þetta er ekki reyfari heldur ævisaga. Bókinni lýkur meðal með þessum setningum: „Hér hefur ríkt ákveðið hræðsluástand, einhvers konar pólitískur fasismi. Menn hafa ekki þorað að tjá hug sinn af ótta við að blóðhundunum yrði sigað á þá, eins og dæmin sanna.“ (360) Hvaða samfélagi ætli maðurinn sé að lýsa? Íslandi, já, Íslandi.

Vinir

Framarlega í bókinni, bls.48, er mynd af æskuvinum; orðið „vinir“ er reyndar furðuoft notað í þessari bók eins og var í einhverri bók Styrmis Gunnarssonar. Einn þeirra félaga á myndinni er það mikla tónskáld Atli Heimir Sveinsson. Hann er eins og ofan við þessi pólitísku vötn þó hann sé vissulega pólitískur. En semsé æskuvinirnir á myndinni auk Atla eru Sveinn R. Eyjólfsson, Ragnar Arnalds, lengi stjórnmálamaður í fremstu röð, ráðherra og flokksformaður flokks með allt að 20 % atkvæða, Jón Baldvin Hannibalsson, sömuleiðis ráðherra og flokksformaður flokks með allt að 15 % atkvæða, ritstjóri með meiru og alltaf umsvifamikill í þjóðmálaumræðunni, Styrmir Gunnarsson, ritstjóri Morgunblaðsins í áratugi og Halldór Blöndal, alþingismaður ráðherra Sjálfstæðisflokksins oft með um 40 % atkvæða. Styrmir lýsti þessu samfélagi reyndar þannig að það hefði verið „ógeðslegt“, þessu sama samfélagi og vinur hans Sveinn R. Eyjólfsson lýsir sem „fasísku“ samfélagi. Þó verður því ekki neitað að allir þessir menn hafa haft veruleg áhrif á íslenska samfélagið. Mismikil en í heild mikil. Styrmir kanski mest með ofurvaldi Morgunblaðsins á stjórnmálasviðinu, hann var aldrei þingmaður og aldrei ráðherra en valdameiri en margir ráðherrar. Morgunblaðið myndaði heilu ríkisstjórnirnar og réði ferðinni í örlagaríkum málum. Blaðið beitti sér af ítrasta ofbeldi gegn vinstri stjórnum til dæmis þeim stjórnum sem þeir sátu í Ragnar og Jón Baldvin Hannibalsson. Samt vinir. Samfélagið sem Styrmir réð var ógeðslegt. Halldór Blöndal var handgenginn þessu valdi, Engeyjarætt, stuðningsmaður og „vinur“ Davíðs Oddssonar sem var og er æðstitemplar þessarar bræðrareglu sem Sveinn R. Eyjólfsson talar um. Hvernig má það vera að þessir fimm menn sitji saman við borð undir lok ævistarfs og segist hafa verið „vinir“ frá því að þeir voru börn? Töluðu þeir aldrei um neitt sem máli skipti? Þessari spurningu svarar bókin ekki um Svein R. Eyjólfsson en hann er sá þriðji úr þessum hópi sem skrifar bók um sinn stjórnmálaferil, hinir eru Jón Hannibalsson og Styrmir Gunnarsson sem skrifaði skýrslur fyrir bandarísku leyniþjónustuna um „vini“ sína. Það er fínt að fá þessa bók Sveins, hún er fróðleg heimild, en mótsagnirnar sem ég nefni hér að ofan eru umhugsunarverðar.
     Þegar ég segi stjórnmálaferil Sveins R. Eyjólfssonar þá er ég að meina það sem ég segi; hann var alltaf í pólitík og er enn. Myndaði einu sinni ríkisstjórn, sjá bók mína Hreint út sagt 2012, bls. 210.

Að þérast í Skeljungi

Æskan var erfið; mamman berklaveik, pabbinn dó snemma. Margt er átakanlegt í þeim lýsingum. Þegar nályktin lagðist yfir litla íbúðina er það hrollvekja. Sveinn í heimavist Laugarnesskólans.  Man eftir henni þegar ég var þar í skóla í einn vetur. Mamma sagði að þar væri krakkar sem ættu erfitt. Ég átti ekki erfitt; ég átti heima í braggahverfinu í grenndinni. Á bernskuárum kynnist Sveinn þessum krökkum, strákunum sem birtust okkur hér á undan, og fleirum. Þau fara öll í menntaskólann í Reykjavík. Eldklárir og skemmtilegir krakkar. Sveinn í versló. Það kemur ekki fram af hverju hann fór í versló;  ég held að það hafi strax verið uppreisn innan í þessum strák.  Allir hinir vinirnir fóru í menntaskóla. Hann fór svo í læknisfræði í tvö ár en hætti því.  Klárir krakkar, aðallega strákar, sem útskrifuðust úr Versló á þessum árum, fóru beint í vinnu sem skilaði þeim áleiðis. Auði konu sinni kynnist hann ungur. Auður er að vestan; þekki til hennar í frændgarði mínum. Helga móðursystir Auðar lagði þeim ungu hjónunum til 2000 kr. á mánuði alveg til hausts 1960 segir hann; það voru miklir peningar þá. Ég borgaði 11 þúsund krónu fyrir fæði og herbergi í níu mánuði um þetta leyti. Margir vildu styðja þau og kemur engum á óvart; glæsileg, dugleg ung hjón.   Sveinn endaði síðan sem einn af forystumönnum Skeljungs. Þar þéruðust topparnir fram á sjöunda áratuginn. Var það yfirleitt þannig? Þegar þau Auður höfðu rétt úr kútnum fjárhagslega þá var farið að huga að stærra húsnæði og því að fá lóð. Þeim úthlutaði SjálfstæðisFLOKKURINN til réttra aðila; Sveinn fékk ekki: „Svoleiðis ómerkingar fengu ekki dýrmætar lóðir hjá Reykjavíkurborg.“(117)  Þau Auður færast svo í aukana í lífsstíl og hann segir frá því að breskur forstjóri hafi búið hjá þeim „á hinum ýmsu sveitasetrum okkar“(125).
    En svo hættir Sveinn hjá Skeljungi, hefur þar byggt upp tengslanet sem átti eftir að koma sér vel síðar þegar hann fór að rótast í að gefa út blöð. Þarna í bók er einn kafli af minnisstæðu fólki. Spurning hvort svona kafli á heima í þessari bók, já, líklega því hann lýsir Sveini.  Bráðskemmtileg er sagan þegar hann skipulagði kosningabaráttuna fyrir flokksbræður sína í Borgarnesi, það var haldinn fundur: „Samdi ég nú allar ræðurnar og einnig fyrirspurnir til þeirra félaga frá fundarmönnum úr sal og síðan svör hvers og eins við þeim.“(146) Við skipulagninguna hittust þeir flokksbræður í Botnsskála í Hvalfirði þar sem var haldin generalprufa á fundinum. „Pétur og fólk hans í skálanum lék með í leikritinu...“ (147) Þessi Pétur er Geirsson og var þá einn af leiðtogum Alþýðubandalagsins á Vesturlandi; það kemur ekki fram í bókinni.
    Svo fer hann frá Skeljungi og til Vísis. Það er líka uppreisn úr þéringunum, viskíinu og leðursófunum. En þar eru engir kotbændur á fleti fyrir: Forstjóri Fordumboðsins, forstjóri Víðis, forstjóri Lýsis og svo fulltrúi Kassagerðarinnar. Þeir tóku höndum saman við Svein um að endurreisa Vísi: „Við þessar aðgerðir réð ekkert för nema málefnaleg afstaða og velvilji í garð fyrirtækisins.“ (150) Hvaða málefnaleg afstaða? Að græða meira, tryggja sér og sínum sterkari markaðsstöðu, keppa við Morgunblaðið. Nú, alright eins og Sigurður A.hefði kanski sagt. En Vísir var flokksblað eins og Morgunblaðið, varaformaður Sjálfstæðisflokksins skrifaði leiðarana, Jóhann Hafstein! Þegar þeir hættu að taka við þessum skrifum Jónas og Sveinn héldu þeir áfram að borga, já borga, fyrir leiðarana.(154) Gerðu þeir aldrei neitt ókeypis þessir gæjar fyrir málstaðinn og hreyfinguna? Jónas merkti svo leiðarana og tók það upp eftir okkur á Þjóðviljanum. Ritstjórar Þjóðviljans voru fyrstir allra til að merkja leiðara.  Þegar þarna er komið sögu er Sveinn enn í pólitík í flokknum sínum að hjálpa að þessu sinni Sverri Hermannssyni, „að veita...Sverri Hermannssyni...smáaðstoð.“ Og Sveinn gekk í það, að virkja sölumannasveit Skeljungs fyrir Sverri Hermannsson. Það gekk upp; smáaðstoðin breytti Sverri Hermannssyni í þingmann.(155) Þegar ég sá þetta áttaði ég mig á því af hverju Sverrir Hermannsson var frekar þægilegur við okkur í ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen, en Sverrir var þá forseti Neðri deildar og átti að vera í stjórnarandstöðu, en var það ekki nærri alltaf. Reyndi auðvitað eða þannig að láta það ekki sjást í þingsal að hann væri að aðstoða okkur.
      Bandamaður og gæsalappalaus vinur Sveins í stríðinu þessi ár og æ síðan að ég held er Jónas Kristjánsson. Hann skrifaði leiðarana og stjórnaði blöðunum. Hann gagnrýndi félagsmálakerfi landbúnaðarins harkalega. Það mæltist illa fyrir en var það ekki yfirvarp? Var ekki aðalástæðan sú að samkeppnisstöðu Morgunblaðsins var ógnað með sterkari Vísi? Varðhundakerfi FLOKKSINS sendi Björn Bjarnason nú inn á ritstjórnarskrifstofur Vísis. Hann stóð stutt við því hann varð aðstoðarmaður Geirs Hallgrímssonar forsætisráðherra; þar átti hann vissulega betur heima. Það varð svo ólíft fyrir Jónas á blaðinu; hann vildi hætta. Þá var haldin fundur í hlutafélaginu. Meirihluti fundarmanna skoraði á Jónas að halda áfram. Kosin var ný stjórn í útgáfufyrirtækinu; þetta var 1975 á miðju ári.  Sveinn var í minnihluta í stjórninni ásamt hverjum – já hverjum nema Gunnari Thoroddsen. Fimm árum seinna hjálpaði Sveinn Gunnari að mynda ríkisstjórn. Átökin héldu áfram. Þorsteinn Pálsson var sendur inn á ritstjórn Vísis til að skrifa leiðara á móti Jónasi. En það dugði ekki; meirihluti stjórnar Reykjaprents samþykkti að reka Jónas. Sveinn var beðinn um að skrifa kveðjuorð til Jónasar á forsíðu blaðsins; Þorsteinn yrði einn ritstjóri.  Talsmaður meirihlutans sagði Sveini að „Þorsteinn hefði stillt stjórninni upp við vegg, þeir yrðu að velja milli sín og Jónasar.“ (175) Þessu trúir undirritaður ekki; Þorsteinn stillir fólki ekki upp við vegg. Einhverjir aðrir hafa stillt Þorsteini upp við vegg. Í bókinni er gefið í skyn að andúð bændaforystunnar á skrifum Vísis hafi verið slík að þeir hafi hótað því að hætta að kaupa Landrover bíla en stjórnarformaður Reykjaprents var einmitt forstjóri Heklu sem flutti inn bílana, Ingimundur Sigfússon, æi, vandræði. Trúi þessu heldur ekki á Ingimund. Á bak við ákvörðunina um að reka Jónas var auðvitað FLOKKURINN.  En þessir kaflar í Sveinssögu eru skemmtileg heimild um innanbúðarástandið í Sjálfstæðisflokknum finnst okkur óinnvígðum.

 

Frjáls, óháður og pólitískur

Og þá er að leggja á önnur mið; Sveinn hætti og Jónas hætti og þá var að byrja á nýju verkefni. Gaman. Dagblaðið. Magnað er að lesa frásögnina af átökunum innan stjórnar Blaðaprents. Þar var Ingi R. Helgason fyrir okkur og stóð með því að Dagblaðið fengi prentun í Blaðaprenti; auðvitað, meiri viðskipti. Þar segir frá því hvernig Alþýðublaðshluti Blaðaprents reyndi að beita Svein fjárkúgun, sem skilaði ekki árangri. „Þetta er fjárkúgun.“(183) Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi en ekki alltaf.  En hvernig var þetta hægt? Hvaðan komu peningarnir? Ekki er annað að skilja á skrifunum en að Landsbankinn undir forystu Björgvins Vilmundarsonar hafi ráið úrslitum fyrstu misserin í tíð Blaðaprents. Sveinn kallar Björgvin og annan starfsmann Landsbankans „guðfeður“ Dagblaðsins. (191). Merkilegt. Björgvin studdi Þjóðviljann eins og hann gat og gerði það svo lengi sem Þjóðviljinn hafði trúverðugt bakland. Dagblaðinu var vel tekið.  Fjárhagur blaðsins batnaði ár frá ári. Á bak við það var gífurleg vinna, Sveinn ataðist í öllu,talaði við umboðsmenn Skeljungs, skrifaði sjálfur lesendabréf, startaði smáauglýsingunum. Gerði allt sjálfur. Stjórnarformaður hlutafélagsins var Björn Þórhallsson, formaður Landssambands íslenskra verslunarmanna, seinna varaforseti Alþýðusambands Íslands.  Það munaði um hann 1980 þegar ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen varð til, ekki aðeins í Dagblaðinu, heldur líka í verkalýðssamtökunum. Dagblaðinu beittu þeir félagar Sveinn og Jónas pólitískt í stríðinu við aðra flokka en einnig innan FLOKKSINS: „Gunnar Thoroddsen bað mig einu sinni um hjálp. Það var haustið 1978 þegar reynt var að fella hann úr sæti formanns þingflokks Sjálfstæðismanna...Fréttaskrifum í Dagblaðinu var beitt til að stöðva aðförina.“ (205-206) Það tókst. En semsé til að botna söguna: Hinn frjálsi og óháði fjölmiðill beitti sér pólitískt.
     En svo fór um sjóferð þá að Dagblaðið stóð á eigin fótum í sex ár og svo tók Sveinn Vísi undir sinn verndarvæng aftur.
    Orðspor Sveins fór víða og þeir sem þekktu til í viðskiptum og í frumskógarinnviðum Sjálfstæðisflokksins vissu að hann var til í að gera uppreisn gegn þeim sem réðu þar á bæ.  Hann var kallaður til þess að reka fyrirtæki í samkeppni við Eimskip, Hafskip hét það. Það gekk ekki. Svo var það Arnarflug, Það gekk ekki heldur.  Þegar Hafskip reyndi að halda sér á floti með samningum við Sambandið beitti Morgunblaðið fyrirtækið beinum hótunum og sagði í leiðara: „Greiðsluþrot og erfiðleikar Hafskips eiga eftir að hafa mikil áhrif í viðskiptalífinu, í fjármálalífi þjóðarinnar og á stjórnmálasviðinu.“(231) Ha, Morgunblaðið hefur í leiðara í pólitískum hótunum við Hafskip, les það fólk sem var í forystu Hafskips. Var það þetta samfélag sem Styrmir Gunnarsson líklega höfundur leiðarans sem vitnað var til kallaði ógeðslegt?
     Þegar hér var komið sögu voru hin dagblöðin komin að fótum fram og sóttu líka til Sveins. Það gekk ekki upp; Sveinn ætlaði að sameina öll þau blöð undir nafninu Dagur. Það kostaði 100 miljónir í tap á ári. Það kemur mér ekki á óvart. Ýmislegt sérkennilegt segir Sveinn af þeim samskiptum við eigendur hinna dagblaðanna.

Þá voru flestir hvergi

Svo fór hann að kaupa jarðir og ekki bara að kaupa jarðir heldur að byggja allt upp í hólf og gólf. Leirubakka og byggðu allt upp þar þau Auður. Þar var komið glæsilegt sveitasetur með gistingu, hestum, veitingum, margra kílómetra löngum girðingum. Þar er fáránlegur langur kafli um það þegar Ólafur Ragnar Grímsson datt af baki og meiddi sig ekki að ráði sem betur. 4 síður um ekki neitt, hefðu dugað fjögur orð. Ólafur datt af baki. En það eru fleiri jarðir: Kollabúðir í Þorskafirði, Kaldbakur, Efra-Nes. Skoðaði meira að segja Svefneyjar. Í þessi ævintýri hafa farið miklir peningar. Í bókinni Íslenskir auðmenn, (annar höfunda Pálmi Jónasson Kristjánssonar) Almenna bókafélagið 1992, er Sveinn talinn meðal 40 helstu auðmanna landsins; eign eins hópsins þar sem Sveinn er, er talin vera 400-600 miljónir króna. Segjum að Sveinn hafi átt 500 milj.kr. – það eru 1,3 miljarðar í dag samkvæmt verðlagsreiknivél Hagstofu Íslands. Svo segir frá lífsbaráttu Frjálsrar fjölmiðlunar; sá kafli mætti vera lengri um þessi átök í fjármálalífinu og í Sjálfstæðisflokknum. Margt er þar skrýtið fyrir okkur á áhorfendabekkjunum: Allt í einu er svonur Sveins og Auðar, Eyjólfur orðinn aðstoðarmaður Davíðs Oddssonar ( 286). En hvað svo? Það vantar. Ármannsfell kemur við sögu, það varð skrýtið mál og um það urðu mikil blaðaskrif. Og svo eru það Blikastaðir. Fiskeldisfyritækið Máki. Alls konar húsakaup og sala. Hvað var Sveinn að gera í öllu þessu? Reisti hann sér hurðarás um öxl?
       Og svo átti að reka Styrmi sem ritstjóra Morgunblaðsins. En stjórn Árvakurs hætti við það þegar það kom símtal inn á fundinn: „Við þetta gerbreyttist viðhorf Styrmir til kvótakerfisins og síðan hefur hann étið úr lófa Davíðs.“ (305) Er það ekki ógeðslegt? Það var hamast á okkur, segir Sveinn, okkur í Frjálsri fjölmiðlun. „Ekki var svona hamast á Svavari Gestssyni eða öðrum ritstjórum og útgefendum Þjóðviljans.“ (309) Jú, Sveinn minn. Þetta lið sem átti Vísi og rak valdafyrirtækin í landinu gerði alltaf allt sem það gat til að koma Þjóðviljanum á kné, að ekki sé minnst á Morgunblaðið, ósannindi þess og lygaherferðir, gegn okkur sem stjórnmálasamtökum. Fjórtán meiðyrðadóma ber ég glaður á bakinu af því að ég var á móti hersetunni. En munurinn á okkur og Sveini var sá að við vorum ekki hissa á þessu. Þeir voru alltaf á móti okkur og höfðu ástæðu til þess af því að við börðumst með kjafti og klóm gegn þeirri þjóðfélagsgerð sem þeir höfðu byggt upp fyrr sig og sína. En Sveinn var eðlilega hissa af því að hann hélt að hann og þeir væru að berjast fyrir samskonar samfélagi; það var stóri misskilningurinn. „Við vorum og erum sjálfstæðismenn að lífsskoðun en töldum okkur ekki þar með bundna foringjum flokksins.“ (309) Hvað er það annars að vera sjálfstæðismaður að lífsskoðun? Væri gaman að sjá það skýrt aðeins nánar einhvers staðar. Er það ekki að hafa frelsi til að græða? Eitthvað annað?  Eða um hvað snerust þessi átök? Orca hópurinn kom til sögunnar og Kjartan Gunnarsson fær á baukinn: „Kjartan Gunnarsson er einhver mesti kafbátur sem um getur í íslenskum stjórnmálum og viðskiptum...Hann fer um í felulitum og skilur eftir sig djúpsprengjur hér og þar...“(344). Jóni Ásgeiri Jóhannessyni er lýst og því hvernig hann sneri á kerfið. Veldi Sveins riðaði til falls. Skýringin: „Við veiktum okkur sjálfa með of mikilli skuldsetningu og nutum ekki sums staðar sömu velvildar og til dæmis Morgunblaðið með sínar miljarðaafskriftir af lánum.“ (351) Hvorttveggja rétt; skuldsetningarnar voru sjálfskaparvítið, hitt var það kerfi sem Sveinn hafði barðist á móti. Þetta stríð var erfitt. Hann segir: „Dvöl þar var kærkomin huggun...“ (355) Það er greinilegt undir lok bókarinnar að höggin sem Sveinn varð fyrir fjárhagslega gengu nærri honum og Auði. Hann birtir þessa vísu: „Heimsins brestur hjálparlið/hugur skerst af ergi./ Þegar mest ég þurfti við/þá voru flestir hvergi.“ (358) Voru vinirnir hvergi?

     „Öll ævi manns er eins og ryk“ (356) er yfirskriftin á síðasta kafla bókarinnar. Mér finnst ég kenna sárinda og reiði. Það er óþarfi fyrir Svein og Auði. Þau sýndu með afli sínu að þau stóðu stórveldi kapítalismans á Íslandi á sporði í áratugi. Sveinn blankur en klár strákur reis upp úr öskustó fátækarinnar og sýndi þeim sem valdið hafa í tvo heimana. Þau töpuðu tveimur miljörðum í þeirri glímu en standa samt upprétt.
       Fremst í bókinni er dregin upp einkar falleg mynd af fósturforeldrum Sveins Guðgeiri og Guðrúnu. Þau voru sósíalistar. Ég veit að þeirra aðferð, að safna liði, er líklegri til þess að vinna á stórveldi kapítalismans en sú leið sem Sveinn valdi. Um það erum við ekki sammála og verðum ekki úr þessu. En vinirnir sem koma héðan og þaðan eins og nefnt var að framan ættu kanski að hittast aftur til að ræða um bók Sveins. Hún er sannarlega einnar messu virði eða svo.
Bestu þakkir fyrir þessa bók!