Greinar

14. nóvember 2017

Public enemy number one

Bókin Classen – saga fjármálamanns er afhjúpandi. Hún galopnar inn í kjör auðstéttarinnar á Íslandi á fyrsta þriðjungi síðustu aldar.  Lífskjörin eru ævintýraleg og Guðmundi Magnússyni tekst að lýsa þeim skilmerkilega í þessari bók. Guðmundur tók við því verki af Guðna Th Jóhannessyni að vinna úr skjalasafni því sem Eggert lét eftir sig; það var „í sérflokki hvað snerti umhirðu og reglusemi“ segir Hrafn Sveinbjarnarson sem hefur tekið við fjölda skjalasafna. Þetta safn verður uppspretta fyrir Guðmund sem skrifar þetta allt á fróðlegan og greiðan hátt. En umfram allt er bókin afhjúpandi; hún flettir ofan af lífskjörum þessa fólks, sem ég, enda úr sveit, bragga og blokk, hafði aldrei hugmyndaflug til þess að nokkurt fólk hefði getað lifað á Íslandi. Ef einhver hefði sagt mér af svona kjörum hefði ég sagt að frásagnarmaður væri að ljúga að mér. Guðmundur hlífir ekki söguhetju sinni; dettur að vísu sjálfur ofan í pólitískan pytt á nokkrum stöðum, en kemst upp úr aftur, þurrkar af gúmmístígvélunum, og bókin verður trúverðug. Pólitísk aðdáun hans á Eggerti Claessen og öllu sem var í kringum hann leynir sér þó ekki. 

 

Að plata Vestur-Íslendinga

        Dæmi um hlífðarleysið er sagan af félaginu Fáfni. Ég hef undanfarin 20 ár verið nokkuð upptekin af sögu Vesturfaranna og mér liggur við að segja taumlausri fórnfýsi þeirra þegar kom að því að rétta Íslandi hjálparhönd. Þannig söfnuðu þeir fé fyrir styttu af Jóni Sigurðssyni forseta sem dugði til að kaupa tvær styttur. Þegar safnað var fyrir Eimskipafélagi Íslands þá eignuðust um 15 þúsund manns hlut í félaginu þar af 1500 í Vesturheimi. Þegar stofnfundur félagsins er haldinn eru komnar 160 þúsund krónur að vestan. Það er tæplega fjórðungur alls hlutafjár félagsins sem er þá orðið 670 þúsund krónur. Seinna á árinu er hlutafé Vestur-Íslendinga orðið 200 þúsund krónur. En það var „urgur og kergja út í Vestur-Íslendinga í innsta hring Eimskipafélagsins.“ Það var sennilega vegna þess að ástmögur kapítalismans á Íslandi, Thor Jensen, hafði ekki náð kjöri í stjórn Eimskips.  Svo spyrst það að tveir menn séu á ferli vestanhafs til þess að ná hlutabréfunum aftur af Vestur-Íslendingunum. Það kom upp úr dúrnum að þeir eru á vegum félagsins Fáfnis sem Eggert er formaður fyrir. Félagið var leynifélag; hafði safnað stórfé til þess að hafa hlutafé af Vestur-Íslendingum. Vestur-Íslendingar sáu við þessum brögðum og ekki tókst að fá þá til að selja bréfin sín nema í örlitlum mæli. Svo fór um sjóferð þá en þetta komst upp og sleit í sundur friðinn hafði ríkt um Eimskipafélag Íslands óskabarnið. Í stjórn þess sátu líka fulltrúar auðstéttarinnar; þar var öðrum aldrei hleypt að. Þegar leið á öldina var Eimskip orðið eins og hvert annað harðkapítalískt fyrirtæki.

       Annað dæmi um miskunnarleysi Guðmundar við söguhetju sína er frásögnin af því þegar Eggert vildi búa í Skerjafirði frekar en í Reykjavík af því að þar voru lægri skattar. Skattaskjól í Skildinganesi heitir einn kafli bókarinnar. Eggert á Skildinganesið og 1929 selur hann 11 byggingarlóðir fyrir 26 þúsund krónur. Lög um tekju- og eignaskatt, sem vinir Eggerts höfðu auðvitað sett á Alþingi, voru þannig úr garði gerð „að hann þarf ekki að greiða skatt af þessum miklu tekjum og renna þær óskiptar í vasa hans.“  2000 krónur greiddi hann útsvar eitt árið á Skildinganesi en hefði af sömu tekjum þurft að greiða 6000 kr. í Reykjavík.

     Á bls. 102 birtast fróðlegar tölulegar upplýsingar um laun og lífskjör: Ráðherra hefur 8000 kr. í árslaun auk fæðis og húsnæðis, landritari sem var eiginlega ráðuneytisstjóri hafði 6000 kr. skrifstofustjórar 3500 kr. og skrifarar 800 kr. „Duglegir verkamenn...geta...haft um 600 kr. í árslaun“ segir í bókinni. Með öðrum orðum þá hafði ráðherrann þrettánföld árslaun verkamanna. Laun verkamanns í dag eru kannski um 350.000 kr. á mánuði með yfirvinnu það er um 4,2 milj.kr. á ári. Það þýðir að þá ættu ráðherrar að hafa um 65 milj.kr. á ári eða um 5 milj.kr. á mánuði en hafa innan við tvær held ég.

Geggjuð lífskjör

   Eggert er kappi, eldklár og afreksmaður, duglegur og einbeittur. Sækir fast allt sem hann sinnir. Duglegur í menntaskóla, sækir laganám af dugnaði. Fer strax í málflutningsstörf þegar hann kemur heim og það er ekki algengt þá. Flestir lögfræðingar verða embættismenn um leið og þeir ljúka námi. Hann er annar af tveimur fyrstu hæstaréttarlögmönnunum í landinu. Tekur að sér innheimtu og fjársýslur og tekur 15 % í þóknanir.  Rífur inn peninga. Kaupir lóðir, byggir og hefur auga fyrir peningum og rukkar grimmt fyrir sjálfan sig. Hann verður aðalumboðsmaður ævintýra Einars Benediktssonar á Íslandi og Titan félagsins, verður formaður Vinnuveitendafélagsins sem hann stofnar, er harðastur allra við verkalýðinn. Public enemy numer one á Einar Olgeirsson að hafa sagt. Hann hefur forystu í því að stofna Eimskipafélag Íslands. Á árunum fram yfir 1930 þegar Íslandsbanki fer á hausinn er engum ráðum ráðið svo í efstu lögum þjóðfélagsins að hann sé ekki kallaður til. Hann er moldríkur, byggir hús í Skerjafirði, kaupir bíl til einkanota einna fyrstur manna á Íslandi, heldur marga gæðinga i hesthúsum sínum, fjölskyldan siglir á lystibáti út á Skerjafjörð á góðviðrisdögum. Meira, já mikið meira. Titan ætlar að eignast alla fossa á Íslandi, vill sérleyfi til að virkja hvar sem er og hvenær sem er. Og það lítur vel út um tíma af því að eiginkona Jóns Magnússonar forsætisráðherrans er systir Sturlubræðra auðkýfinga sem eiga hlut í Títan. Alls staðar er frændhyglin á fleti fyrir og enginn tekur eiginlega eftir því af því að það er svo eðlilegt, finnst sumum, að peningastéttin, sulli öllu inn undir sig. Eggert sér um sig og sína. Starfsmenn hans sem lögmanns verða gjarnan fógetar og sýslumenn: Einn í Vestmannaeyjum, einn verður alþingismaður og ráðherra, einn verður ráðuneytisstjóri í atvinnuvegaráðuneytinu. Svo þarf að stofna banka og þá er Eggert auðvitað aðalbankastjóri. Það er af því að hann er öflugur, klár, og traustur í sínum verkum. Stéttarbræður hans treysta honum. Hann fær 40 þúsund krónur á ári, fjórföld ráðherralaun í bankanum. Svo þegar hann fer að selja lóðir í Skildinganesi þá eru sölutekjur skattfrjálsar. Hann hefur ægilegar tekjur. Þegar hann lætur af lögmannsstörfum og verður bankastjóri heldur hann áfram að taka 20 % brúttótekna af öllum viðskiptum við fyrrverandi viðskiptamenn hans. Já þetta er satt. Hann skilur eftir sig á lögmannsstofunni lista með 500 kúnnum. Það eru allir þeir sem hafa eitthvað á milli handanna á Íslandi. Lífskjörin á Reynisstað eru geggjuð: „...þegar Laura er 14 mánaða, er hún búin að læra hvernig panta á herbergisþjónustu.“

     En sem betur fer eru einhverjir að amla á móti. Það gerir Ólafur Friðriksson. 1922 er hann dæmdur í 20 þúsund króna sekt vegna skrifa um Eggert og Íslandsbanka. Já, það er engin smáupphæð karl minn; það eru tvenn árslaun ráðherra á þessum tíma.  Ég hef ekki séð samantekt um sektir fyrir svoköllið meiðyrði en ég held að þetta sé með allra hæstu tölum sem sést hafa. Á núvirði eru þetta líklega 40 – 50 miljónir króna.

   Stundum, ekki oft, dettur Guðmundur í flokkshollustu við Eggert. Hann er á fundi með Jónasi á Hriflu og „sallar Jónas niður.“ Ekki mjög trúlegt þó Eggert hafi vaffalaust verið afburða málflutningsmaður.

„Réttrækir frá bankanum“

    En veður eru válynd. Hinn voðalegi Framsóknarflokkur er að komast til valda. 1928 verður Tryggvi Þórhallsson, forsætisráðherra. Þá eru laun bankastjóra Íslandsbanka lækkuð og þeim í raun vikið frá störfum 1930 í apríl mánuði. Rannsóknarnefnd er skipuð og niðurstaða hennar er sú að bankastjórarnir þrír, þar á meðal Eggert, „hafi verið réttrækir frá bankanum vegna starfsemi sinnar við bankann.“ Nýtt hlutafé verður til um nýjan banka Útvegsbankann. Ríkissjóður er stærsti eigandi bankans með 4,5 milj.kr. en erlendir bankar eiga samtals eina miljón. Það eru Hambrosbank og Privatbanken. Athyglisvert er nefnilega að næstliðinn áratugur kapítalismans á Íslandi er fjármagnaður af erlendum bönkum.  Nýir bankastjórar, þrír!, eru skipaðir og einn þeirra er Jón Baldvinsson, formaður Alþýðuflokksins og forseti Alþýðusambands Íslands. Ekki kemur fram í bókinni af hverju að gerðist og væri fróðlegt að sjá það einhvers staðar. Eggert er í bankaráðinu jafnframt því að vera bankastjóri  og greiðir atkvæði einn á móti eftirmönnum sínum. Og okkar maður er ekki af baki dottinn þegar hann fer frá bankanum. Hann ryðst fram á sviðið aftur, opnar málflutningsskrifstofu, ræður menn í vinnu og gerist umsvifamikill. Er í stjórn áfram og svo formaður Eimskipafélagsins, stofnar Vinnuveitendafélag Íslands. Þar sýnir hann meiri hörku gagnvart verkalýðshreyfingunni en flestir aðrir og er þess vegna treyst betur en öðrum í sínum ranni. Eggert er leiðtogi, hann druslast aldrei á eftir öðrum. Hann er alltaf gerandi.  Meginhluti tíma hans á fjórða og fimmta áratugnum fer í að sinna málefnum atvinnurekendasamtakanna. Hann stundar jafnhliða málflutningsstörf og er með svimandi háar tekjur. Hann hikar ekki við að taka að sér erfið mál og óvinsæl. Þannig verður hann lögmaður erlendra togara sem höfðu stundað veiðiþjófnað í íslenskri landhelgi. „Hann var afburðamaður að gáfum og dug og verðleikum tvímælalaust einna mest metinn allra lögfræðinga á Íslandi.“ Þetta segir Barði Friðriksson samstarfsmaður hans á lokasprettinum hjá atvinnurekendum. Hann verður af sömu ástæðu tákn fyrir hörkuna, óbilgirnina og auðsöfnunina og er þar af leiðandi sá sem fremst er gagnrýndur allra. Hann er við hliðina á Ólafi Thors leiðtogi auðvaldsins á Íslandi. Dæmi um hörkuna er það þegar verkamenn í Dagsbrún leggja niður störf fyrirvaralítið þá lætur Eggert taka saman skrá með nöfnum þeirra allra, 300 að tölu, sendir listann á alla atvinnurekendur í félaginu, og bannar að þessir verkamenn verði teknir nokkurs staðar í vinnu. Þjóðviljinn barði þetta tiltæki niður og komst meira að segja í listann og birti hann í heild.

      Þegar Eggert lést 1950 73gja ára gamall er mikið skrifað. Í bók sinni segir Guðmundur frá því að Eðvarð Sigurðsson formaður Dagsbrúnar hafi skrifað um hann minningargrein sem hann vildi svo ekki birta. Reyndar er sagt að Þjóðviljinn hafi neitað að birta greinina. Ástæðan hafi verið sú að í greininni hældi Eðvarð Eggert fyrir það hvað hann var ábyggilegur í samningum og stóð við orð sín. Þetta var mikilvægur kostur í samskiptum fólks og er enn ekki síst á sviði stjórnmálanna; ég dreg það reyndar í efa að þetta sé rétt sem sagt er að Þjóðviljinn hafi neitað að birta svona grein og enn síður að Eðvarð hafi skrifað grein og hætt við að birta hana. En allt um það, þetta orð fór af Eggerti og það er mikilvægt í þessu samhengi. Þá þorðu menn að tala uppréttir hver við annan yfir gjána á milli stéttanna.  Það er einmitt verið að reyna um þessar mundir. Eggert hafði mikil áhrif á vinnulöggjöfina á Íslandi. Í umfjöllun um það segir Guðmundur: „Verkalýðsfélögin þjást af innanmeini, pólitískum markmiðum forystumanna og átökum kommúnista og jafnaðarmanna, sem smitar kjarabaráttuna og skaðar.“ Þarna fellur Guðmundur í pólitískan pytt; það er ekki hlutverk sagnfræðings að hafa  skoðanir og að kveða upp dóma yfir heilu þjóðfélagshreyfingunum. Sem betur fer gerist það sjaldan í bókinni.

Af hverju innanríkisráðuneytið og Landsvirkjun?

        Í lok bókarinnar kemur fram að styrktaraðilar við útgáfu bókarinnar eru engar músarholur: Eimskip, Samtök atvinnulífsins, Íslandsbanki.HB Grandi, Landsvirkjun, Logos, ADVEL lögmenn, landslög, oddfellowreglan, innanríkisráðuneytið – ha? – Lögmannafélag Íslands og Lex. Það er ekkert annað; jafnt liðinn sem lífs eru sterkustu fyrirtæki landsins á bak við Eggert Claessen þó ég skilji ekki af hverju Landsvirkjun er þarna og enn síður innanríkisráðuneytið.

     Magnaðar heimildir felast í myndunum i bókinni. Þar er til dæmis mynd af fjölskylduni á báti út á Tjörninni í Reykjavík sem segir mikla sögu um lífskjör þessa fólks í samanburði við aðra en myndin er tekin 1890. Ekki er síðri heimild mynd með þessum texta: „Eggert Claessen á hestbaki í skrautgarði Jónassen-fjölskyldunnar bak við hús hennar í Lækjargtu 8 um aldamótin 1900.“ Í bókinni eru rastakaflar og síður sem upplýsa stundum talsvert. Í þeim flokki eru síðurnar um fyrra brúðkaup Eggerts og gestinn þar. Þar hafa næstum allir ættarnöfn eins og: Briem, Stephensen, Jonassen, Ólsen, Hjaltested, Thoroddsen, Finsen, Möller. Einn aumingja maðurinn heitir bara Páll Einarsson en sem betur fer er konan hans Thorsteinsson.

     Bókin er vel útgefin með snyrtilegri kápu.

 

Lifðu á útlendu fjármagni

     Íslenska auðvaldið varð ekki til fyrr en á síðustu öld. Framan af var það ýmist aldanskt eða hálfdanskt. Á þessum ártugum hafði peningastéttin vit á að nýta sér og sínum fiskimiðin og verslunina til að auðgast. Þessa fyrstu áratugi fékk hún stuðning frá erlendu fjármagni, bönkum meðal annars. Síðan kom blessað stríðið með alla sína peninga. Svo kom Marshall aðstoðin með alla sína peninga og hernámsvinnan. Þegar því lauk tóku við blómlegri ár sjávarútvegsins með útfærslum landhelginnar og átökum um islenska atvinnustefnu. Stéttarflokkur fjármagnsins hafði þá ekki meiri trú á sér en svo að öllu var stefnt á erlendar verksmiðjur. Um það var deilt þangað til núna. Þá koma hingað erlendir verkamenn tugþúsundum saman að vinna fyrir okkur og með okkur. Þannig er öll Íslandssagan í 150 ár eða svo: Erlend eða með erlendum tengslum eða útlenskum stuðningi af einhverju tagi. Sagan um að við höfum staðið sjálfstæð á eigin fótum efnahagslega er ekki sönn nema að hluta til. Sagan af Eggerti Claessen sýnir vel fyrsta hluta síðustu aldar fram um 1950. Þetta er þörf bók og nauðsynleg þeim sem vilja skilja samfélagshræringar á Íslandi á fyrri hluta síðustu aldar.