Greinar

Greinar

18. febrúar 2018

Þorsteinn frá Hamri

     Það er ekki heiglum hent að skrifa um hann Þorstein frá Hamri. Reyndar er flóð greina birt í Morgunblaðinu í dag um þennan öðling. Flestar minningargreinar eru líka aðallega um höfund greinarinnar og viðkomandi, sem er dáinn, fær að fljóta með næstum eins og í kurteisisskyni. Þessar línur verða líka svoleiðis; Þorsteini hefði ekki þótt gaman að lesa þetta; hann var þó alltaf umburðarlyndur við rittilraunir unglinga hér áður.

Þorsteini kynntist ég í Tjarnargötu 20, síðan flæktumst við víða. Seinni áratugina hittumst við á margra ára fresti. Þeir fundir voru alltaf eins: Hann var svo hlýr maður, hann Steini. Það streymdi líka frá honum mannvitið, fyrirvaralaust. Pólitíkina áttum við saman; mér fannst hann raunsæismaður í okkar samtali. Ég varð snemma, unglingur, eins og miðaldra í samtölum um pólitík, eins og Ragnar Stefánsson, skjálfti, sagði að ég hefði orðið tvítugur. Mér fannst og finnst gaman að tala um veruleikann, sé að Þorsteinn og Kjartan vinur minn Ólafsson hafa verið í draumunum. Við Þorsteinn töluðum saman í veruleikanum, vorum oft einir út í hornum í hávaðasömum partíum að reyna að leysa hversdagsmálin. Ekki þannig að við höfum aldrei blandað okkur í vitleysuna. Það var nú eitthað annað.

     Þau voru þarna á loftinu í Tjarnargötu 20 Steini, Ari og Inga. Öll skáld þá þegar og verða alltaf skáld. Góð skáld deyja eins og kunnugt er aldrei. Þau höfðu mikil áhrif á okkur hina krakkana. Við vildum helst flest verða skáld líka og reyndum það. Ruslafatan í leiguherbergjunum hér og þar í bænum var þolinmóður móttakandi ítarlegra ljóðatilrauna sem komust eiginlega aldrei lengra nema fá sem betur fer.

    Það togaðist á í okkur draumurinn og veruleikinn, skáldið og pólitíkin. Þorsteinn var einhvern veginn hvort tveggja, skáld og liðsmaður í hinu pólitíska stríði, í göngunum, mótælastöðunum, undirskriftasöfnunum, greinaskrifum, öllu, samtölunum.

     Fyrst heyrði ég talað um þennan mann þegar ég var sendur að heiman suður 13 ára til að fara í skóla af því að það var lítið um þau fyrirbæri fyrir vestan. Þá heyrði ég frænku mína tala um að það væri ljótt með hann Steina frá Hamri. Ég heyrði ávæning af tali frammi í eldhúsi. Hvað var það ljótt með hann Steina frá Hamri? Jú, heyrði ég hvíslað. Hann er hættur í Kennaraskólanum! Hættur? Já, hættur! Þetta þótti mér merkilegt, tók samt varla eftir því, en svo bættist við nokkrum vikum seinna: Hefurðu heyrt af þessu með hann Steina frá Hamri? Nei. Ég lagði við hlustir í hinu herberginu: Hann er víst búinn að gefa út ljóðabók. Ljóðabók, það er nefnilega það. Ekki mikið kaup á þeim bænum var sagt. Leið nú tíminn. Næstu stórtíðingi heyrði ég illa því það var hvíslað svo lágt í símann frammi: Hann er víst farinn að vera með henni Ástu. Þá tók nú steininn úr. Ásta var heimsfræg, listamaður, en hún var líka fallegust allra kvenna að vestan, frá Litla-Hrauni í Kolbeinsstaðahreppi. Ég reyndi eftir þetta að sjá Ástu í miðborg Reykjavíkur og sá hana einu sinni. Það var engu logið um fegurð hennar og þokka. Ég hefði hætt í hvaða skóla sem er fyrir svona konu. 14 ára. Og gefið út ljóðabók einu sinni á ári. Við þessi tíðindi fékk ég ljóðabókina lánaða á Borgarbókasafninu við Grundarstíg. Í svörtum kufli og viti menn sá ég ekki skáldið sjálft á gangi í svörtum kufli, að vísu í svartri Álafossúlpu. Allt er þegar þrennt er: Hættur í kennó, með Ástu, skáld. En ekki hjá Þorsteini þessum nágranna mínum frá Hamri;  sá lét hér ekki staðar numið heldur heyrði ég hvíslað frammi í eldhúsi því sem tók öllu hinu fram: Hann er víst kommúnisti! Já, sagði viðmælandinn, þá er ekki að sökum að spyrja. Svoleiðis fólk getur lent í hverju sem er, var sagt.

       Þessi kvartett ævintýranna, Ásta, skáld, kommúnisti, hættur í kennó hafði þau áhrif á mig að ég mændi á þennan mann í svörtu úlpunni þegar ég sá hann næst og hlustaði á hann af blygðunarlausri aðdáun þegar hann las upp ljóð á loftinu í Tjarnargötu 20, félagsheimili Æskulýðsfylkingarinnar. Einhvern tímann var ég svo látinn lesa upp úr ljóðabók hans, nýrri, með honum á sama lofti. Það var eftirminnilegur heiður. Ég hef aldrei vandað mig eins við að lesa ljóð upphátt. Lifandi manna land.

     Í einræðum okkar úti í hornum samkvæma töluðum við líka um Þverárhlíð og einkennilega menn í því byggðarlagi. Ása á Högnastöðum og Óla á Grjóti. Líka um hann afa minn sem Þorsteinn hafði horft til í bernsku. Valdimar á Guðnabakka. Hann sást oft á mannamótum öls við pel og gekk á húsum á nóttum og vakti fólk með ljóðarispum og  tafði húsfreyjur þar sem síst skyldi til dæmis við mjaltir. Þær sögur auðvelduðu mér seinna að skilja þennan kall, þennan afa minn, sem reyndi að vera bóndi en hefði orðið bóhem og jafnvel skáld ef hann hefði fæðst annars staðar nokkrum áratugum seinna.

     Löngu seinna var ég svo heppinn að Þorsteinn fékk stílverðlaun Þorbergs Þórðarsonar þegar ég var menntamálaráðherra. Ég fékk að afhenda honum verðlaunin. Það er eitt þeirra embættisverka sem mér finnst allra allra vænst um.

      Og nú er Þorsteinn farinn út af þjóðskránni en hann er einn þeirrra sem lifir og lifir lengi lengi. Eins og Ari og Inga.

       Laufeyju og öllum barnaskaranum hans Steina flyt ég með þessum línum fátæklegum samúðarkveðjur okkar hjóna.

Svavar Gestsson