Greinar

Greinar

15. maí 2018

Guðjón Sveinbjörnsson - minning

Guðjón Sveinbjörnsson útlitshönnuður Þjóðviljans er dáinn; lést tæplega níræður á dögunum. Hann verður jarðsettur föstudaginn 18.maí kl.13. Útförin verður gerð frá Áskirkju. Kona Guðjóns Símonía Kristín Helgadóttir lifir mann sinn. Þau gengu í hjónaband 19. september 1953.Guðjón hét millinafninu Snókdalín og fæddist 7. des. 1928 í Stykkishólmi. Þau Símonía og Guðjón áttu þrjú börn, þau eru: Jóhanna Sigríður, Sveinbjörn og Ingibjörg Hulda. Ég skrifaði um Guðjón eftirfarandi minningarorð sem birtast í Morgunblaðinu á útfarardaginn.  

Guðjón Sveinbjörnsson er dáinn tæplega níræður. Hann var nákvæmur verkmaður, góður félagi. Hann vandaði svo umbrot Þjóðviljans að úr varð fallegasta dagblað landsins, sérstaklega eftir að sex dálka blaðið kom úr pressunni. Fyrstu árin fékk Guðjón bara að njóta sín á útsíðunum og stöku sérunnum innsíðum. Að öðru leyti var blaðinu kastað saman af mismiklum smekk eða smekkleysi. Svo þegar blaðið fór í offset í Blaðaprenti þá náði Guðjón sér á strik; hver einasta síða, hver einasti dálkur, var veginn og metinn. Aldrei man ég eftir því að Guðjón kastaði hendinni til nokkurs verks hversu mikill sem asinn var á blaðinu við lokun þess á kvöldin. Hann var aldrei að flýta sér. Hann horfði, mældi og strikaði þannig að úr varð heild í listrænu jafnvægi.

     Þessi hægláti maður sem kom alltaf öllu í verk á fallegan hátt var samt hvergi nærri lokaður inni í sínu fagi. Hann var náttúrubarn, gekk um mestallt Ísland og kunni forsendur þess. Honum fannst skemmtilegast að vera á gönguferðum um landið.Ekki nóg með það: Grimmpólitískur allt til hinstu stundar. Ég var svo ljónheppinn að ég kom til hans á líknardeildina og náði að hitta hann áður en hann dó. Honum var mjög þorrinn kraftur en hann vildi tala um pólitík. Hvernig er staðan, spurði hann mig. Hann talaði þá svo lágt orðið og var svo máttfarinn að ég varð að leggja eyrun næstum við munn hans. Það er alvarlegt, sagði ég. Hvernig, spurði hann. Umhverfismálin, sagði ég. Já sagði hann, það er verst. Svo eru það Bandaríkin, sagði ég. Þau skipta minna máli nú orðið, sagði hann. Þau eru veik eins og ég sagði hann og brosti. Það eru BRISC ríkin sem munu ráða ferðinni: Brasilía, Rússland, Indland, Suður-Afríka og Kína. Bandaríkin geta ekkert andspænis þeim. Ég er bjartsýnn á þetta, sagði hann deyjandi maðurinn. Þú átt að horfa á kínversku ríkisfréttstofuna, sagði hann. Þá kom í ljós að hann hafði prentara við hliðina á rúminu sínu. Eru margir með prentara við hliðina á sér á líknardeildinni þar sem hann var frá í janúar? Niðjar Guðjóns prentuðu út helstu fréttir af netinu fyrir hann. Ertu með penna, já. En blað? Nei. Þá tók dóttir hans autt blað úr prentaranum og rétti pabba sínum og hann skrifaði „CCTV, ríkisfréttastofan“ á miðann og rétti mér. Ekki var höndin jafnstyrk og forðum, en styrkur heilabúsins skýr sem fyrr. Þvílíkur maður.    

     Umbrotsmeistarinn mikli Guðjón Sveinbjörnsson er látinn. Einn af mínum bestu samstarfsmönnum á blaðamannsferli mínum. Vinur og hiklaus stuðningsmaður, leiðbeinandi. Þorði að hafa aðrar skoðanir. Uppréttur. Hugsandi vera.

     Símoníu og niðjum þeirra flyt ég samúðarkveðjur okkar Guðrúnar. Þau mega vera og eru örugglega stolt af því að hafa verið samferða öðrum eins manni. Hér setjum við punkt; þessu umbroti er lokið. Eftir stendur fallegasta síðan.