Greinar

Greinar

30. nóvember 2018

Skúlaöldin

Þórunn Jarla Valdimarsdóttir: Skúli fógeti. Útgefandi JPV útgáfa. 

Það er magnað hvað átjánda öldin sækir á. Einlægt verið að skrifa eitthvað forvitnilegt og oft gefin út mikil rit um þennan tíma svakalegra náttúruhamfara og stundum niðurlægingar. Skýrslur landsnefndarinnar sem var hér á árunum 1770-1771 eru stórmerk heimild og afreksverk þeirra sem skrifuðu og svo hennar Hrefnu Róbertsdóttur fyrir að koma ritinu út. Umhugsunarvert er að danski landssjóðurinn skuli hafa lagt í allan þennan kostnað út af Íslandi. Af hverju? Ekki einfaldast málið þegar við hugsum um Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns. Þar er að finna yfirlit yfir bújarðir og afkomu Íslendinga furðulega nákvæmt að ég segi ekki smámunasamt á köflum. Jarðabókin var unnin á tólf árum 1702-1704. En í nákvæmni sinni voru þeir ekki bara að sinna því sem þeim fannst sjálfum áhugavert. Skipunarbréfið var þrjátíu greinar og allt tínt til; þar átti líka að skoða hvort of miklar kvaðir hefðu verið lagðar á bændur. Friðrik fjórði var ekkert blávatn. Í bók Þórunnar Jörlu Valdimarsdóttur, Skúli fógeti, sem kom út nú á jólavertíðinni, sést einkar vel það sem við höfðum hugmynd um fyrir að dönsk yfirvöld létu sér ekki nægja að láta skrifa skýrslur og taka manntöl sem var þó út af fyrir sig ærið verkefni. Þau létu einnig stórfé til uppbyggingar atvinnnu- og efnahagslífi á Íslandi og til að byggja höll í Viðey. Þessari öld lauk með móðuharðindunum og djöfulskap. Þá datt einhverjum í hug að best væri fyrir fólkið á þessari eyju að fara til Danmerkur og búa þar, á Jótlandsheiðum. Eðlileg hugmynd. Öll þessi saga átjándu aldarinnar um samskipti Íslands og Danmerkur vekur margar margar spurningar. Til dæmis þessa: Af hverju höfðu dönsk stjórnvöld svo mikinn áhuga á Íslandi? Hefur því einhvers staðar verið svarað? Ég bara spyr. Væri gaman að sjá innyflin í danska embættismannakerfinu frá þessari tíð.

Alla átjándu öld má spegla í lífi Skúla Magnússonar landfógeta í bók Þórunnar. Hann fæddist 1711 og dó 1794. Hann var alltaf á ferðinni, um Ísland og milli Íslands og Danmerkur. Hann varð síðasta árið sem hann lifði að halda að mestu kyrru fyrir. Gerðist svo fótkaldur að hann varð  að binda tvo dúnkodda þétt um hvorn fót og kynda ofnana sem unnt var í stofu sinni.„Gamall maður, blindur á öðru auga, situr við lampa við skíðlogandi postulínsofn. Í augum Guðrúnar eldri sem hlúir að honum, speglast ævi eins merkasta manns sem landið hefur alið. Hann sat fimmtíu og átta ár í embætti.”„Guðrún krýpur og bindur dúnkoddana betur um fætur hans. Hann glottir, með eða ekki með sjálfum sér. Sýpur kaffi eða sterkara eða hvoru tveggja, þennan dag sem oftast. Hann hvílir bak við altarið í Viðeyjarkirkju. ”Svona fór um sjóferð þá. Guðrún var dóttir Skúla.

Svona er ellin, sagt að maður byrji að deyja á fótunum. Lýsing Þórunnar á manninum er falleg sterk og trúverðug allt í gegn. Bókin er um 250 síður. Ég var satt að segja að vona þegar ég sá fréttir af henni að hún væri þrisvar sinnum þykkari, helst eins og bók hennar um Matthías. En það varð ekki svo. Hins vegar er eftirfarandi komið í höfn sem er aðalatriðið: Skúli er risi átjándu aldarinnar, Jón Sigurðsson þeirrar nítjándu, Halldór Laxness þeirrar tuttugustu. Allt karlar og Sturla sagnaritari og Snorri eiga saman þá þrettándu.. Kanski að kona standi í stafni þessarar aldar. Kanski; það vitum við eftir tvö þrjú hundruð ár, 2318?

Þórunni tekst á þessum 250 síðum að skila Skúla til okkar þannig að það er auðvelt fyrir lesandann að átta sig á því af hverju það urðu tíðindi af þessum manni. Hann hafði skýran forystuvilja eins og forystuféð sem fer á undan í veðrunum og kemur hjörðinni heim í hús þegar brestur á með rudda. Þegar Skúli er orðinn landfógeti sem hann verður fyrstur íslenskra manna hefst hann þegar handa við að byggja höll í Viðey. Hann hefur greinilega góðan aðgang að æðstu embættismönnum Dana og vafalaust konungi líka. Var það meðfram vegna þess að hann talaði betri dönsku en flestir aðrir Íslendingar af því að hannn var unglingur með dönskum kaupmönnum? Höllin í Viðey, byggð úr íslensku grjóti, teiknuð af frægasta arkitekt Dana um þessar mundir er eins og kóróna á höfði hans þegar á fyrstu árum hans í embætti. 1754. Svo komu Innréttingarnar. En allt átti sér þetta skýringar. „Hugmyndir kvikna ekki frekar en kláðamaur og fransós af sjálfum sér. Baklandið var Frakkland og Bretland...Stórar breytingar minna á elgos... ”Iðnbylting. „Verslun Dana dafnaði á átjándu öld...Þeir höfðu komið ár sinni vel fyrir borð við Miðjarðarhaf, á Indlandi, í Kína, Afríku og Vestur-Indíum.”  Ísland naut góðs af því; Skúli hafði vit og burði til að sækja fjármuni handa Íslandi. „Skúli og félagar fengu alls rúma sextíu þúsund dali af dönsku styrktarfé til Innréttinganna. Í heild eyddi danska ríkið 830 þúsundum ríkisdala til að koma á fót iðnaði á þessum árum. Hlutur Íslands varð því 6 af 83.”7,2 %. Samt mikið miðað við fjarlægðina, fámennið og þann ofurþrýsting sem hlýtur að hafa birtst konungi á hverjum degi til að eyða peningunum í Danmörku. Kapítalisminn var að verða til!

Reykjavík verður til.

Skúli var sautján vetur ævi sinnar í Danmörku og tvisvar í þrjú ár samfleytt. Var til dæmis í burtu öll verstu ár móðuharðindanna. En það þurfti líka að vera á staðnum þar sem valdið var til þess að Ísland týndist ekki í ösku eldgosa og eymdar. Heima var Skúli allt í öllu. Hann barðist við Hörmangara og hafði sigur. Hann stóð með landsmönnnum gegn kaupmönnum. Hann ræktaði búskapinn í Viðey í stóru og smáu. Passaði upp á fálkaveiðar, eitt árið tók fálkaskipið eitt hundrað fugla. Skaftáreldarnir bundu endi á þetta framfaraskeið, þjóðinni fækkaði og tíu þúsund manns dóu.

Allan veturinn eru þeir að dansa var ort um fólkið í Reykjavík. Fjölmenni hefur alltaf vakið tortryggni þeirra sem eftir urðu í fámenninu. Eins var það með Bakka í Arnarfirði. Þar bjuggu þrír tugir manna og umhverfið talaði ekki um annað en sollinn. En það var ekki bara dansað í Reykjavík. Fyrstu tólf árin unnu 730 við Innréttingarnar í styttri eða lengri tíma. Magnað er það þegar Þórunn lýsir uppreisn einnar spunakonunnar Ragnheiðar Jónsdóttur sem lét ekki reka sig orðalaust. Skúli stóð með starfsfólki í málaferlum og hafði sigur gegn Almenna verslunarfélaginu. Það er sérstaklega gott í riti Þórunnar hvernig hún fer yfir meðferðina á verkafólkinu og nístíngsköldum örlögum þeirra þegar fólkið missti vinnuna, bjargarlaust.

1790 varð Íslendingur stiftamtmaður: Stephensniðjar voru að brjótast til frama. Stiftamtmaður þrengdi að Skúla sem fékk að búa í tveimur herbergjum í Viðey eineygður með kodda á fótunum. Bók Þórunnar um Skúla er gott rit, gagnlegt og skemmtilegt. Vel skrifuð, auðvitað, þar er sagnfræðingur á ferðinni; hefði verið gaman að sjá betur hvaðan heimildirnar eru. Á bókinni sést að þarna er skáld að skrifa. Það er ekki verra. Í bókinni glitrar á fallegar setningar úti um allt.

Átjánda öldin sækir á hugann. Bók Þórunnar hvetur mann til þess að setjast enn frekar að minningum um þessa öld eldgosa, hungurs og eymdar, þar sem birtist reyndar líka vísir að nýjum öldum uppbyggingar og sóknar til betra lífs. Öld mikilla andstæðna. Síðasta eymdaröldin ekki rétt; eftir það fórum við að sækja á og erum enn að. Íslendingar í upphafi átjándu aldarinnar voru um 50 þúsund, undir lok hennar, 1787, um 40 þúsund. Fækkun liðlega 22 %. Það er eins og að okkur fækkaði í ár, 2018, um 75 þúsund manns.  Bókin um Skúla fógeta hvetur lesarann til þessað pæla meira í þessari öld og að bera hana saman við lífið um þessar mundir og framundan.

 

Bestu þakkir.