Greinar

Greinar

18. desember 2018

Eins og háu ljósin

Um bókina Kaupthinking- bankinn sem átti sig sjálfur. Höfundur Þórður Snær Júlíusson. Útgefandi Veröld.

Þessa dagana er mikið talað um WOW air flugfélagið. Það er margt líkt með því og brjáluðum vexti bankanna fyrir hrun. Ekkert eftirlitsvald sem hefur eftirlit með flugrekstri er til hér á landi. Það minnir á það sama og gerðist í bönkunum; samfélagið notaði ekki þau fáu tæki sem það hafði til að setja þenslu bankanna skorður. Það var búið að henda öllum tækjum frá okkur, sagði Jón Sigurðsson fyrrverandi Seðlabankastjóri, í samtali við mig í sjónvarpsþætti á Hringbraut fyrir nokkrum misserum.

Ofsafrjálshyggjan í lögum

Forráðamenn samfélagsins frá þessum tíma halda því reyndar fram sumir að allt hið illa hafi verið aðildinni að EES að kenna. Ég tel þá aðild gallaða í veigamiklum atriðum, en hið rétta er að innleiðing óhemjugangsins í rekstri banka hér á landi, ofsafrjálshyggjan, hafði verið innleitt áður en EES kom til. Fyrst með bankalöggöf Matthíasar Á. Mathiesen Sjálfstæðisflokki. Enn var hert á frjálshyggjuhugsuninni með bankalöggjöf Jóns Sigurðssonar, Alþýðuflokki, 1993. Svo kom EES en þrátt fyrir það hefði verið hægt að setja alls konar reglur en það var ekki gert og á þetta er bent í skýrslum Rannsóknarnefndar Alþingis. Forsenda samfélagsins í rekstri banka var ekki lengur öryggi þjóðarinnar heldur samkeppnishæfni sem hafði það markmið að gera Ísland að alþjóðlegri fjármálamiðstöð. Svo var enn hert á þessari stefnu ofsafrjálshyggjunnar með stjórnarsáttmála Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins vorið 2007. Í framhaldi af þeim sáttmála var sett löggjöf um kauphallir. Fínt skal það vera; þá var Björgvin G. Sigurðsson orðinn viðskiptaráðherra.

Þetta er rifjað upp hér vegna bókar Þórðar Snæs Júlíussonar um Kaupþing. Forráðamenn bankans gerðu það sem þeim sýndist algerlega eftirlitslaust. Þeim virtist það allt saman vera löglegt og rökrétt og ég hef hvergi séð að þeir hafi iðrast gjörða sinna né heldur hafi þeir sagt að þeir hafi gengið of langt. Þó hefur örlað á því en ekki meira en það. „Af ... sjálfskoðun varð ekki. Hann er vart til íslenski bankamaðurinn sem beðið hefur þjóðina afsökunar. Þess í stað tóku þeir nær allir þá skýru afstöðu nánast strax eftir bankahrun að það sem átti sér stað væri öllum öðrum að kenna en þeim sjálfum.“ (Bls. 283) Því miður notar Þórður orðið „bankamenn“ um þetta fólk sem stóð fyrir fjárglæfraferðinni; það er ósanngjarnt gagnvart öllu því góða fólki sem starfar í bönkum.

Hvar er Netflix?

Bókin Kaupthinking- bankinn sem átti sig sjálfur er svakaleg. Það er engin leið að gera bókinni skil í stuttri grein. Í henni flettir höfundurinn ofan af blekkingum á blekkingar ofan. Bókin er vel skrifuð og aðgengileg, sett upp með hæfilega löngum köflum, góðum fyrirsögnum og góðum prófarkalestri. Á bak við bókina er gríðarlegur lestur skjala. Þar er fyrsta að nefna skýrslu Rannsóknarnefndar alþingis, þá hefur Þórður lesið dómskjöl upp á þúsundir síðna auk þess sem hann virðist hafa undir höndum lykilskjöl af ýmsu tagi, skjöl sem ekki hefur verið sagt frá opinberlega. ( Sjá til dæmis bls.279) Lýsingar Þórðar á fléttunum sýna stundum svo ævintýralegt hugmyndaflug að þeir sem eru sjóveikir ættu að lesa bókina hægt og varlega. Flétturnar eru reyndar spennandi og stíll Þórðar gefur þeim hraðan og óvæginn undirtón. Hver flétta dygði í eina glæpasögu. Hvar er Netflix?  Bókin er skrifuð eins og hraðar spennuseríur í sumum sjónvarpsmyndakeðjunum. Af hverju ekki? Af hverju ekki að taka þetta stærsta hrun aldarinnar í gegn í sjónvarpsmyndum: bók Þórðar er gott grunnhandrit. En í sjónvarpsmyndinni þyrfti líka að sýna inn í heim þeirra sem höfðu forystu fyrir bankaveldinu, aðstöðu þeirra og líf, hugarheim þeirra og fjölskyldna þeirra, og svo heiminn sem birtist þeim eftir hrun með stórfelldum málaferlum, fangelsunum, og svo áfram, því enginn þessara manna er hættur að atast í þessum verkum. Engum þeirra virðist til hugar koma að segja við sig og sína: Nú er nóg komið; nú fer ég að vinna einhvers staðar níu til fimm, sinni fjölskyldunni, garðinum, menningunni. Nei, áfram skal haldið á fullri ferð.

Bókin er gefin út af Veröld; fallega umbrotin og leturval gott. Kápan sterk og sláandi. 368 síður.

Þar var einn maður í sérflokki

Eitt af því sem er sláandi við þetta ferli er hvað forráðamenn fyrirtækisins og viðskiptafléttunnar eru líkir, eiginlega allir eins. Það var kanski ein ástæða þess að þeir gátu gengið svo hratt um gleðinnar dyr sem raun bar vitni um; að þeir voru oft sem einn maður. Þeir sem horfðu á þá utan frá sáu þetta reyndar. Tony Shearer fyrrverandi forstjóri Singer & Friedlander sagði: „Allir þarna voru mjög ungir, mjög reynslulausir og það skorti allt jafnvægi innan stjórnendateymisins. Einn einstaklingur var sænskur eða danskur, en allir hinir voru úr sama samfélaginu í Reykjavík.“(Bls.19) Þeir voru eins. En þeir voru líka sem einn maður að glíma við vandamál og höfðu hagsmuni af því sama, til dæmis þegar þeir voru að fela gjaldþrot Gnúps því ef það hefði komist upp þá hefðu þeir félagar verið í vondum málum. Þeim tókst líka að snyrta reikningana þannig að glannaskapurinn sást ekki: Í ársreikningum fyrir árið 2007 virtist eiginfjárhlutfall Kaupþings hafa verið 11,8 % þegar það var að öllum líkindum neikvætt. „Kaupþing var því í reynd samkvæmt mati ýmissa viðmælenda gjaldþrota í árslok 2007...(Bls.28).

En þetta samfélag var brjálað; hér hafði allt þróast í uppsveiflu frá því í seinna stríði. Landsframleiðslan var þrjátíu og þrisvar sinnum meiri 1994 en hún hafði verið 1944. Af og til setur Þórður inn í textann hjá sér svona staðreyndir sem eru eins og  háu ljósin á bílnum í skammdeginu. Kaupþing var lítil fjármálasjoppa hér í Húsi verslunarinnar til að byrja með. Þeir sem réðu ferðinni voru saman í stúdentaráði, saman í íhaldsstúdentafélaginu Vöku, ekki þó Sigurður Einarsson. Kaupþing vildi meira. Bankarnir voru til sölu og þá var að finna leið til að eignast þá án þess að eiga peninga. Aðferðin við að eignast Búnaðarbankann var ekki bara lygileg; hún hefði sómt sér vel í Grimmsævintýrum. Þvílíkt og annað eins og þá var ekkert annað að gera en að lána og taka lán, flétta og flétta og flétta. Þegar Kaupþing fór á hausinn þá kom í ljós að bankinn hafði aðallega verið notaður til „að lána mjög þröngri klíku peninga.“(73) Allt hafði gengið ljómandi vel að því er virtist. Kaupþing naut liðsinnis ýmissa aðila utan bankans. Og Kaupþing studdi við margskonar menningarverkefni vítt um heim, meðal annars í Danmörku þegar ég var þar sendiherra. En: „Þar var einn maður í sérflokki, forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson.“ (sjá 77 - 79) Strákarnir höfðu líka vel upp úr sér; á fimm árum fékk einn þeirra þingmanna Kaupþings 2.500 milj.kr. í laun, 500 milj.kr. á ári. Þetta leit allt vel út. Í júlí 2008 verðlaunaði tímaritið Euromoney Kaupþing fyrir að vera besta banka Norðurlanda. (87) Hverju áttum við óbreyttir á plani þjóðarskútunnar að trúa?

Þrep fyrir þrep

Það er magnað hvernig Þórður lýsir aðferðunum: 1.þrep: Fela gjaldþrot. 2.þrep: Fela tap. 3.þrep: Koma í veg fyrir að bréf fari á markað. 4.þrep: Ástarbréfaviðskipti og útlenskt innlán. Það er reyndar sérstaklega athyglisverð aðferð því með þessum viðskiptum hafði „Seðlabankinn afhent bönkunum peningaprentunarvald sitt...Við fall viðskiptabankanna námu útistandandi lán Seðlabankans með veði í ástarbréfunum 345 miljörðum króna.“ (Bls. 100, tilvitnun í skýrslu Ásgeirs Jónssonar og Hersis Sigurgeirssonar.) „Samanlagt kostuðu veðlánaviðskipti...ríkissjóð um 254 miljarða króna.“(102) Þrepunum gerði Þórður enn ítarlegri skil: 1.Kaupa eigin bréf og halda uppi verði þeirra. 2.Ef ekki eru til kaupendur þá býrðu þá til. Eignalaust félag fékk 10,3 miljarða lán til að kaupa hlutabréf í Kaupþingi, annað eignalaust félag fékk 13,4 miljarða að láni, síðast 23. september 2008.  Þessi félög keyptu samtals 13.6 % hlut í Kaupþingi. 5.þrep: Starfsmönnum lánað til að kaupa bréf í bankanum. (167-204). Niðurstaða: Alvarlegustu efnahagsbrot Íslandssögunnar að mati dómstóla landsins. Þaulskipulegt risaveðmál sem fáir skildu en skilaði spilamönnunum miklum persónulegum auðæfum en að lokum fangelsi og ærumissi.

Farið er rækilega yfir lánveitinguna til Kaupþings hrundagana 2008. Flett er ofan af því að auðvitað var það Seðlabankinn sem bar ábyrgðina þó Davíð hafi reynt að koma ábyrgðinni á Geir Haarde. „Svo fór að lokum að helmingur neyðarlánsins glataðist. Íslenskir skattgreiðendur töpuðu 35 miljörðum króna á þeirri ákvörðun að  lána Kaupþingi 500 miljónir evra, þá um 80 miljarðar króna.“ (136) Beint heildartap á Davíð komið í 300 - 400 miljarða króna þegar hér kom sögu. Óbeint sennilega óútreiknanlegt.

Löglegt en siðlaust

Á árunum 2005-2008 keypti bankinn tæp 30 % af útgefnu hlutafé sínu. Á lokasprettinum frá júní 2008 keypti bankinn 60-75 % í sjálfum sér. (164). „Heimsmet í markaðsmisnotkun án atrennu“ kallar Þórður þessi vinnubrögð. Með þessu varð bankinn verðmætasta fyrirtækið í Kauphöll Íslands. Fyrirtækið sjálft réði eftirspurn, gengi og veltu hlutabréfanna. Raunverulegur „réttur“ hlutabréfamarkaður var ekki til á Íslandi. Þetta hefðu fleiri mátt skilja.

Eitt ljótasta dæmið um misnotkun aðstöðu er þegar eigendur Kaupþings fóru skipulega að hafa áhrif á skráningu gengis íslensku krónunnar. Jú, þeir gátu það: Eitt fyrirtæki hafði svo sterka stöðu að það gat vísvitandi haft áhrif á gengi íslensku krónunnar! Rakin eru dæmi um hundruð og aftur hundruð miljóna sem einstakir starfsmenn fyrirtækisins græddu á stöðutöku gegn krónunni. Þau dæmi eru ekki um þá sem voru alefstir í tignarröðinni í Kaupþingi, heldur liðsforingjana í næsta lagi. Samkvæmt íslenskum lögum var samt ekkert ólöglegt við þetta athæfi; frelsislöggjöfin um bankana náði svo langt að það mátti gera hvað sem er enda löglegt þó það væri vissulega siðlaust.    

Almenningstenglastóðið

Fróðlegt er að sjá hvernig samin var áætlun um að ná almenningsálitinu á sitt band og hvernig ætti að drepa málum á dreif. „Í einni af húsleitum sérstaks saksóknara í tengslum hans við rannsókn á málefnum Kaupþings fannst skjal sem dagsett er snemma árs 2009. Skjalið er merkt Gunnari Steini Pálssyni...Í skjalinu var sett fram víðtæk áætlun um að hafa áhrif á umræðu skjólstæðinga almannatengilsins. Á meðal þeirra leiða sem voru tíundaðar var sú að ota ákveðnum málum sem tengdust öðrum áberandi viðskipta- eða bankamönnum að fréttamönnum og beina þannig kastljósinu af skjólstæðingum almannatengilsins.“(286) Í skjalinu er rætt um að „ræsa út bloggher“. „Gunnar Steinn hefur sagt opinberlega í fjölmiðlum að hann hafi ráðið menn sér til ráðgjafar og aðstoðar...og sumir þeirra hafi vissulega haldið úti bloggsíðum. Sagt er frá því að „umræddur almannatengill hefði þegið „mjög háar fjárhæðir“ fyrir að starfa fyrir þá sem skjalið fjallaði um.“ Þær hefðu að mestu komið frá Exista. (287) Gunnar Steinn Pálsson var ekki eini almannatengillinn; Þórður kallar þá „almannatenglastóð“ (294) sem þjónuðu leiðtogum Kaupþings. Fróðlegt væri að fá að vita meira um það „stóð“. Það væri líka ástæða til að fara nákvæmlega ofan í það sem gerðist þegar ný ríkisstjórn Íslands 2013 ákvað að kippa fótunum undan embætti sérstaks saksóknara. Framlög til sérstaks saksóknara fóru úr 1,3 miljörðum 2012 í 291 milj.kr. 2015.(296) Um þetta þarf að skrifa meira eins og um almannatenglana. Eins þarf að fara betur yfir vinnnubrögð fjölmiðla ekki síst Fréttablaðsins. Sömuleiðis væri rétt að skoða hlut lögmannanna sem víkingarnir höfðu alltaf meðferðis og sumir beittu sér pólitískt beinlínis gegn ríkisstjórn Jóhönnu. Ragnar Hall er dæmi um þessa pilta.

Það er margt fróðlegt í þessari bók. Á einum stað fer Þórður yfir útgáfustarfsemi Sjálfstæðisflokksins það er bókaútgáfu fyrir utan Morgunblaðið. Almenna bókafélagið heitir það sem gefur út pólitísk rit fyrir Sjálfstæðisflokkinn meðal annars bein rógsrit um einstaklinga. Umhugsunarverð er árásin á forseta hæstaréttar. Allt þetta þarf að skrifa um enn frekar. Líka um misnotkun lífeyrissjóðakerfisins, einkum Lífeyrisjóðs verslunarmanna.

Merkilegt er að sjá hvernig margir þeirra sem framarlega voru í rekstri Kaupþings eru nú orðnir fremst á sviðinu í rekstri fjármálastofnana árið 2018. (361)

Stór forsenda hinnar miklu uppsveiflu bankanna var óheftur aðgangur að lánsfé um allan heim. Bankarnir þrír sóttu sér „um fjórtán miljarða evra á skuldabréfamarkaði árið 2005...Það var rúmlega landsframleiðsla ársins 2005.“ Landsframleiðslan núna 2018 er um 3000 miljarðar króna.

Hér á undan var minnst á háu ljósin í skammdeginu. Bókin Þórðar er eins og að lýsa með háu ljósunum inn í dimma vegina í skammdeginu. Gallinn við svona bók er sá að mikið vill meira; það þarf að setja háu ljósin á aftur.