Breiðafjörður

Verkalok í Mjólkurbúinu á Reykhólum

Núna á vormánuðum hafa gríðarmiklar framkvæmdir staðið yfir í Mjólkurbúinu á Reykhólum, eins og húsið hefur löngum verið kallað. Á morgun, 1. júní, verður opnuð þar ein sýning helguð bátavernd og hlunnindanytjum. Áður var þetta í tvennu lagi og bátasafnið raunar aldrei opið formlega á sérstökum tímum. Núna var allt hreinsað innan úr húsinu og stórt op gert á steinvegg sem aðskildi bátana og hlunnindasýninguna. Hitann og þungann af verkinu hefur Hjalti Hafþórsson borið, en hann var á sínum tíma einn af frumkvöðlum Bátasafns Breiðafjarðar og hefur starfað í þágu þess frá upphafi. Ýmsir fleiri hafa þó lagt hönd á plóginn. Mjólkurbúið, sem líka var stundum kallað Mjólkurvellir, var byggt upp úr 1960 eða fyrir um hálfri öld. Þar var þó aldrei mjólkurstöð eins og ráðgert var. Ástæðan mun hafa verið sú, að á sama tíma var byggð mjólkurstöð í Búðardal og óráðlegt þótti að reka tvær stöðvar á svo litlu svæði. Um langan aldur var í öðrum helmingi hússins félagsheimili Reykhólasveitar. Fyrir um áratug var sett þar upp Hlunnindasýningin á Reykhólum og settur veggur fyrir leiksviðið en salurinn var þó oft notaður fyrir ýmsar samkomur og allt fram til þess síðasta.Undanfarin ár hefur Bátasafn Breiðafjarðar verið með aðstöðu í hinum helmingi hússins og þar hafa áhugamenn starfað að viðgerðum á gömlum og merkum bátum auk þess að smíða nákvæma eftirmynd Staðarskektunnar svokölluðu.Upplýsingamiðstöð ferðafólks verður í anddyrinu eins og mörg undanfarin ár. Þar mun Harpa Eiríksdóttir ferðamálafulltrúi Reykhólahrepps veita ferðafólki upplýsingar og jafnframt leiða gesti um hið nýja safn.

 

Það er kalt við Breiðafjörð þetta vorið

 

Satt að segja hefur veirð óvenjukalt við Breiðafjörð þetta vorið. Í dag, 1. júní, er fyrsti vorlegi dagurinn í ár. Það er um hálfum mánuði seinna en í fyrra.

 

Merk og falleg bók eftir Árna Björnsson

 

Falleg bók er komin út á vegum Ferðafélags Íslands, bókin Í Dali vestur. Þar er sagt frá Dalasýslu vestanverðri. Heitið er sótt í ljóð Steins Steinars Dalamanns:

 

Þykir mér á þessum slóðum þrengjast hagur.

Fáir meta ljóðalestur.

Langar mig í Dali vestur.

 

Bókin er forkunnarfalleg, vel upp sett með fallegum myndum. Árni Björnsson þjóðháttafræðingur er frá Þórbergsstöðum í Laxársdal. fáir hafa goldið fósturlaunin jafnríkulega og Árni með bók þessari.

 

 

 

Arnkötludalur skal hún heita

 

Þessi grein eftir Karl Kristjánsson bónda á Kambi birtist á Reykhólavefnum í mars. Hún fjallar um heitið á veginum um Arnkötludal; hún á fullt erindi við okkur.

 

Þegar hreppsnefnd Reykhólahrepps samþykkti á fundi 8. mars 2007 að mæla með því að nafnið „Arnkötludalur“ yrði notað á nýjan veg sem liggja ætti um Arnkötludal og Gautsdal, þá var nafnið „Tröllatunguvegur“ vinsælt hjá Vegagerðinni. Síðan hefur bæst við allnokkur hópur nafna - misgóðra, Tunguheiði, Djúpvegur um Þröskulda, Djúpvegur um Arnkötludal og á Reykhólavefnum sá ég nýlega nafnið „Þröskuldaleið“.

 

Í ágætri grein á vefnum strandir.is 25. janúar síðastliðinn rifjar Matthías í Húsavík upp nöfn þeirra leiða sem tengt hafa Strandir og Reykhólasveit um aldir. Þar segir réttilega að leiðaheitin taki mið af örnefnum öðru hvoru megin fjalls - Steinadalsheiði, Tröllatunguheiði, Bæjardalsheiði, Laxárdalsheiði o.s.frv. og að nálægð bæja við heiðina eða lengd dala og fjarða ráði nafninu.

 

Í Laxdælasögu segir frá því þegar Kjartan Ólafsson fór í sína hinstu för. Þórhalla málga spyr Kjartan hvert hann ætlaði að fara. Hann kvaðst fara skyldu vestur til Saurbæjar. Hún spyr: Hverja leið skaltu ríða? Kjartan svarar: Ég mun ríða vestur Sælingsdal en vestan Svínadal. Seinna segir frá því þegar lagt er af stað: „Ríða þeir vestur um Sælingsdalsheiði og koma um kveldið í Hól.“

 

Leiðaheitin eru skýr þó farið sé um aðra dali líka og mörg örnefni komi við sögu á leiðinni, nafnahefðin er sú sama og á heiðunum milli Stranda og Reykhólahrepps.

 

Kjartan fór ekki „Vestfjarðaveg um Mjósund“ eða „Mjósundaleið“ og þaðan af síður „Bessatunguveg“, hann reið vestan Svínadal.

 

Þegar við í Reykhólasveitinni förum í Búðardal, þá förum við Svínadal, og þegar við förum til Hólmavíkur, þá förum við Arnkötludal.

 

Það heita Þröskuldar (Þrepskyldir í landamerkjabréfum), hryggurinn sem skilur að Arnkötludal og Gautsdal, ávöl bunga þar sem vötnum hallar, landamerki jarða og sýslumerki, ágætt örnefni sem slíkt, en með eindæmum ljótt sem vegheiti eða leiðarheiti og stílbrot á þeim hefðum og málvenjum, sem hér hafa gilt um aldir. Ef þörf er talin á því að nafnið minni á fjallveg, sem er að mínum dómi ástæðulaust, er heiði eða háls í öllum tilfellum notað hér um slóðir, samanber Sælingsdalsheiði sem varð í daglegu máli, strax á söguöld „að fara Sælingsdal“.

 

Það er bæði eðlilegt og rétt að vegurinn taki nafn af Arnkötludal, sem er mun lengri dalur en bæði Gautsdalur og Geiradalur, og meirihluti leiðarinnar liggur um Arnkötludalinn. Það má á hinn bóginn sjálfsagt færa rök fyrir því að nefna leiðina „Arnkötludalsheiði“ en það nafn er langt og óþjált í daglegri notkun og myndi vafalaust styttast fljótlega í „Arnkötludal“.

 

Ég vil hvetja Vegagerðina og alla aðra til að nota Arnkötludalsnafnið á þennan nýja veg sem tengir saman Strandir og Reykhólasveit og virða með því þær nafnahefðir sem hér hafa mótast um aldir og okkur íbúunum ber að varðveita og hafa í heiðri.